29. starfsár Tónstofu Valgerðar

Fyrsti kennsludagur haustannar 2015 var mánudagurinn 31. ágúst. Síðasti kennsludagur vorannar var þriðjudagurinn 31. maí 2016.
Hundrað og fimmtán nemendur voru skráðir í skólann í lok vorannar 2016. Yngsti nemandinn er fæddur 2011 sá elsti er fæddur 1958. Sextán nemendur Tónstofunnar sóttu einkatíma í frístundaheimilinu Öskju í Safamýri. Um tuttugu nemendur samtals voru þátttakendur ef nemendur í hóptímum eru meðtaldir. Foreldrar nemendanna, aðstandendur frístundaheimilisins, tónlistarkennari þeirra sem og aðrir aðstandendur Tónstofunnar eru mjög ánægðir með samstarfið. Við vonumst til að geta haldið því áfram og eflt næsta skólaár. 

KENNARAR, SKÓLANEFND OG ANNAÐ STARFSFÓLK

Við skólann störfuðu 5 kennarar skólaárið 2015-2016:
Valgerður Jónsdóttir 100% starfshlutfall.
Jóna Þórsdóttir 100% starfshlutfall, í leyfi skólaárið 2015-2016.
Minerva M. Haraldsdóttir 100% starfshlutfall (forfallakennsla).
Marie Huby 100/81% starfshlutfall.
Ásrún I. Kondrup, stundakennari
Ari Agnarsson, stundakennari/verktaki
Skólastjóri og ábyrgðaraðili skólans er Valgerður Jónsdóttir. 

Foreldra- og styrktarfélag Tónstofu Valgerðar gegnir hlutverki skólanefndar. 

Í henni sátu skólaárið 2015-2016:
Rut Ríkey Tryggvadóttir, formaður
Gerður Steinþórsdóttir, varaformaður
Gunnhildur Gísladóttir, gjaldkeri
Þorleifur Hauksson, ritari
Sólborg Bjarnadóttir, meðstjórnandi
Dóra Eydís Pálsdóttir, meðstjórnandi
Fulltrúi kennara er Valgerður Jónsdóttir
 

VIÐFANGSEFNI SKÓLAÁRSINS  2015-2016

Þrítugasta og fyrsta ágúst var ýtt úr vör í Tónstofunni. Skólaárið fór rólega en vel af stað.  Í upphafi skólaársins voru 115 nemendur skráðir í skólann. Bjöllukórinn, sönghópurinn, hljómsveitin og nýir og gamlir nemendur á öllum aldri fylltu stofur á Stórhöfða og nýju skólastofuna í frístundaheimilinu Öskju  með leikgleði sinni. Spenntir kennarar brettu upp ermarnar tilbúnir í tónlistarævintýri vetrarins með nemendum sínum.

Þrettánda svæðisþing tónlistarskóla á höfuðborgarsvæðinu var haldið í Hvammi á Grand Hótel Reykjavík laugardaginn 12. september 2015. Yfirskrift þingsins var Framtíðarmúsík. Í pallborðsumræðum var rætt um: „Hvernig nást sameiginleg markmið um eflingu tónlistarnáms á Íslandi?“  Þann 13. maí 2011 undirrituðu ríki og sveitarfélög samkomulag um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms. Samkomulagið rennur sitt skeið á næsta ári og algjör óvissa ríkir um framhaldið. Ráðamönnum var boðið til samræðu og samstarfs um hvernig meginmarkmiðin með gerð samkomulagsins verði best tryggð til framtíðar. - Stjórnandi pallborðs var Sigríður Aðalsteinsdóttir, skólastjóri Tónlistarskóla Rangæinga.

Fimmtudaginn 24. september fæddist Marie Huby og fjölskyldu hennar yndislegur drengur, Rafael Mar. Marie Huby kom aftur til starfa eftir barneignarleyfi í janúar 2016.  Marie og Rafael Mar komu í heimsókn á Bjöllukórs æfingu. Heimsóknin vakti mikla gleði!

Aðalfundur Foreldra- og styrktarfélags Tónstofu Valgerðar var haldinn miðvikudaginn 28. október í Tónstofunni að Stórhöfða 23.
Dagskrá aðalfundarins tók mið af almennum lögum um fundarsköp og var sem hér segir:
1. Kosning fundarstjóra og fundarsetning.
2. Skýrsla stjórnar. 
3. Reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.
4. Ákvörðun félagsgjalda.
5. Kosning stjórnar.
6. Kosning skoðunarmanna reikninga. 
7. Fyrirspurnir og umræður.

Stjórnin gaf öll kost á sér til áframhaldandi setu í Foreldra- og styrktarfélaginu sem jafnframt gegnir hlutverki skólanefndar.

Bjöllukórinn lék við afhendingu Kærleikskúlunnar á Kjarvalsstöðum 2. desember 2015. Um kærleikskúluna segir á vef Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra. Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra hefur staðið að útgáfu Kærleikskúlunnar frá árinu 2003 og eru kúlurnar því orðnar þrettán talsins. Frá upphafi hafa kúlurnar fengið frábærar viðtökur landsmanna enda um að ræða einstakt safn listaverka eftir marga þekktustu listamenn okkar Íslendinga. Listamenn Kærleikskúlunnar hafa allir gefið vinnu sína og þannig stutt dyggilega við starf í þágu fatlaðra barna og ungmenna. Tilgangurinn með sölu Kærleikskúlunnar er að auðga líf fatlaðra barna og ungmenna, með því að efla starfsemi Reykjadals. Gera þannig fleirum mögulegt að njóta þar ævintýra tilverunnar í hópi með jafnöldrum - eignast vini og dýrmætar minningar.

Bjöllukórinn hefur, utan einu sinni, leikið við afhendingu Kærleikskúlunnar og var sjálfur handhafi hennar árið   2010. Bjöllukórinn hefur lagt sitt af mörkum með því að gefa vinnu sína.

„Kærleikskúla ársins 2015 ber heitið Landslag og er eftir Rögnu Róbertsdóttur. 
Að þessu sinni hlaut Ólafur Ólafsson formaður íþróttafélagsins Aspar Kærleikskúluna. Ólafur hefur verið starfandi formaður Asparinnar í yfir 30 ár og hefur alla tíð unnið launalaust en af ótrúlegum krafti og ósérhlífni. Framlag hans til íþróttastarfs fatlaðra á Íslandi hefur því verið einstakt og ómetanlegt. Hjalti Geir Guðmundsson afhenti Ólafi kúluna ásamt móður sinni Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur. Hjalti Geir er einn þeirra fjölmörgu sem hefur náð að blómstra í íþróttum undir stjórn Ólafs og hans fólks.“ (af Fésbókarsíðu Styrktarfélags lamaðra- og fatlaðra.     

Kennsla nemenda var  með reglubundnum hætti allt fram að jólatónleikum sem haldnir voru helgina 12. til 13. desember.  Á sex tónleikum sýndu nemendur ótrúlega færni og mikla leikgleði sem gladdi alla viðstadda.

Kennsla hófst aftur eftir jólafrí þriðjudaginn 5. janúar.

Í tilefni af Degi tónlistarskólanna (13. febrúar) var haldið upp á Dag Tónstofunnar laugardaginn 5. mars. Dagskráin var sem hér segir:
11:00 – 11:45 Kynning á Tónstofunni og tónlistarsérkennslu.
12:00 – 12:45 Súpa og söngur.
13:00 – 13:45 Opin æfing með Bjöllukórnum.
14:00 – 15:00 Hljóðfærakynning og samleikur.

Dagurinn var mjög ánægjulegur og við stolt af nemendahópnum og starfi Tónstofunnar.

Á Alþjóða Downs-deginum þann 21. mars 2016, lék Bjöllukórinn fyrir Downs-félagið. Páll Óskar heiðraði félagið einnig með söng sínum. Sameinuðu þjóðirnar lýstu því formlega yfir árið 2011 að 21. mars væri alþjóðadagur Downs-heilkennis með það að markmiði að auka vitund og minnka aðgreiningu. Dagsetningin er táknræn að því leiti að hún vísar til þess að Downs-heilkenni erorsakað af auka litning í litningi 21, þ.e. 3 eintök af litning 21. Hátíðin var haldin í veislusal Knattspyrnufélagsins Þróttar í Laugardal.

Við í Tónstofunni óskum Bernharði Mána Snædal innilega til hamingju með árangurinn í Upptaktinum þriðja árið í röð. Verk hans "In the forest of my mind" var ásamt verkum annarra ungra tónsnillinga flutt á tónleikum í Kaldalóni Hörpu 19. apríl. Við þökkum innilega öllu því frábæra fólki og stofnunum sem gera Upptaktinn að möguleika.
 

IMG_1936.JPG

Í tímaritinu Þroskahjálp 1.tbl. 2016 birtist greinin „Af ævintýrum Bjöllukórs Tónstofu Valgerðar“ Bjöllukórinn er í framvarðarsveit Tónstofunnar og starf hans er bæði metnaðarfullt og einstakt hér á landi. Á skólaárinu 2014-2015 tók hann þátt í Nordplus Junior verkefni eins og áður hefur verið sagt frá og verður framhald á samstarfinu næsta skólaár. Í greininni er Tapani Lakaniemi, stuðningsaðilum öllum, meðlimum Bjöllukórsins, kennurum og aðstoðarfólki þakkað kærlega fyrir að gera ferðina að sannkölluðu ævintýri. Sjóður Kristins Arnar Friðgeirssonar, Össuri, Samfrímúrarareglunni og ónafngreindum velgjörðarmönnum sem auðvelduðu okkur kostnaðarsamt ferðalag er einnig þakkað af alhug. Síðast en ekki síst þökkum við svo stuðning frá Swedish Council for Higher Education – Nordplus Junior sem samþykkti verkefnið og gerði þátttöku okkar þar með mögulega.

Helgarnar 21. til 22. og 28. til 29. maí voru vortónleikar í Tónstofunni, alls níu tónleikar. Eins og segir á heimasíðu Tónstofunnar eru tónleikar prófsteinn á færni og framfarir nemenda. Þeir eru haldnir til að gefa nemendunum tækifæri til að koma opinberlega fram, veita öðrum hlutdeild í því sem þau eru að gera og gleðjast saman, og til að kynna skólastarfið. Á tónleikunum fengu áheyrendur að njóta framfara, einstaks hugrekkis og leikgleði nemendahópsins. Áheyrendur kvöddu stoltir og þakklátir.

Formaður Umhyggju, Guðmundur Björgvin Gylfason kom til okkar mánudaginn 23. maí færandi hendi. Á fallegu skjali stendur: „Í tilefni af 35 ára afmæli Umhyggju – félags langveikra barna hefur stjórn félagsins ákveðið að veita styrk til Tónstofu Valgerðar að upphæð 400 þúsund krónur. Er það von okkar að þessi styrkur geti bætt og endurnýjað aðbúnað í tónstofunni ykkar. Njótið vel.“ Tónstofan er einn af 10 skólum sem Umhyggja styrkir nú með svo höfðinglegri gjöf. Aðstandendur Tónstofunnar þakka af alhug og með gleði í hjarta velvild og stuðning við nemendur skólans. Megi blessun fylgja starfi Umhyggju um ókomin ár.

Fimmtudaginn 2. maí var haldinn kynningarfundur fyrir stjórnsýslu Reykjavíkurborgar og nágranna sveitarfélaganna. Á fundinn mættu tveir, Skúli Helgason frá Reykjavíkurborg og Katrín Friðriksdóttir frá Garðabæ. Gísli Björnsson og Ólafur Snævar Aðalsteinsson fluttu tónlist við þetta tækifæri.

Föstudaginn 3. maí komu 30 leikskóla sérkennarar í heimsókn og hlýddu á fræðslufyrirlestur um starfsemi Tónstofunnar. Faghópurinn var að fagna 20. ára starfsafmæli sínu þennan dag. Þetta var ánægjuleg heimsókn og undirrituð vonast til að upplýsingum um starfsemina verði miðlað áfram inn í leik- og grunnskólakerfið.

Á skólaárinu sótti skólastjórnandi og kennarar fjölda námskeiða á starfsdögum. Námskeiðin taka mið af þörfum nemendahópsins og beinast að framþróun í kennsluháttum og í skólastarfinu almennt:

IPad og úrval smáforrita
Skapandi kórstjórn
Ársfundu félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum
Orff
Biophilia menntaverkefnið

Lokaorð

Með Foreldra- og styrktarfélagið í fararbroddi var unnið að því að fá viðurkenningu menntamálaráðuneytisins á starfsemi Tónstofunnar. Sá áfangi náðist árið 2005 og er Tónstofan viðurkenndur tónlistarskóli. Tónstofan hefur nú verið rekin í 29 ár. Starfsemin hefur verið farsæl og Tónstofan notið fjölda viðurkenninga og styrkja eins og áður er getið.

Líkt og síðastliðin ár er það með gleði og þakklæti í hjarta yfir velgengni, velvilja og ómetanlegum stuðning sem yfirlit skólaársins 2015-2016 er skrifað. Tónstofunni tókst að finna lausn á rekstrarvanda sem var tilkominn af húsnæðiseklu í Klettaskóla, ótímabundnu leyfi Jónu Þórsdóttur, barneignarleyfi Marie Huby, óvissu um nýjan þjónustusamning við Reykjavíkurborg, sem og óvissu vegna nýrra eigenda og hækkunar á húsaleigu á Stórhöfða.

Um leið og lærdómur er dreginn af reynslu síðasta vetrar undirbúa aðstandendur skólans næsta skólaár. Með góðan bakhjarl í Foreldra- og styrktarfélaginu, velvilja samstarfsaðila, dugandi kennara og áhugasaman nemenda- og foreldrahóp verða fundnar sæmandi lausnir á öllu því sem kemur upp. Ekki hefur enn verið gerður þjónustusamningur við Tónstofuna fyrir næsta ár og líkt og undangengin ár er stuðningur nágrannasveitarfélaganna við þá nemendur sem stunda nám utan lögheimilissveitarfélags óviss. Þessir óvissuþættir gera undirbúning afmælisársins spennuþrunginn. Hvorki verður hægt að leggja lokahönd á skipulagningu skóladagatals næsta vetrar né að ganga frá nemendalistum fyrr en í ágúst.  

Það var með bjartsýni, von og trú í farteskinu að Tónstofan var stofnuð. Trúin á mikilvægi tónlistarkennslunnar fyrir nemendahópinn lifir enn sem og vonin um að allt fari vel. Því horfum við til afmælisársins þakklát og bjartsýn um að blómlegt og farsælt starf þar sem spennandi tónlistarævintýri er tónelskir gleðigjafar njóta, líti dagsins ljós. Við munum vinna áfram að því að efla meðvitund um mikilvægi starfsins og hvetja til virkrar samvinna allra hlutaðeigandi til hagsbóta fyrir skjólstæðinga skóla- og frístundasviða sveitarfélaganna.

Fyrir hönd kennara og Foreldra- og styrktarfélags Tónstofunnar/Skólanefndar, þakkar undirrituð velgjörðafólki, styrktaraðilum, aðstandendum Öskju, Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar og nágrannasveitarfélögunum sem og öllum nemendahópnum og aðstandendum hans innilega fyrir gefandi og ánægjulega samvinnu á þessu skólaári.  Það er von undirritaðrar að starf Tónstofunnar blómstri sem aldrei fyrr á afmælisári.

Dr. Valgerður Jónsdóttir, skólastjóri