26. starfsár Tónstofunnar, veturinn 2012-2013

Fyrsti kennsludagur haustannar 2012 var mánudagurinn 3. september. Síðasti kennsludagur var föstudagurinn 31. maí 2013.
Sjötíu og sex nemendur voru skráðir í skólann í lok vorannar 2013.
Yngsti nemandinn var fimm ára og sá elsti fimmtíu og fjögra ára.
Tuttugu og tveir nemendur Tónstofunnar sóttu tíma sína í Klettaskóla, en samstarfið við Klettaskóla (fyrrum Öskjuhlíðarskóla) hefur nú staðið í sex vetur okkur til mikillar ánægju. Foreldrar nemendanna jafnt sem kennarar þeirra eru ánægðir með samstarfið sem hefur marga kosti í för með sér fyrir alla.

Skólaárið 2012 til 2013 var markað af húsnæðisvanda Tónstofunnar en ekki var hægt að halda starfseminni áfram í Hátúninu vegna mikillar húsasóttar – myglusvepps í lofti, útveggjum og gólfi. Nokkrir nemendur hófu því ekki nám sitt fyrr en í nóvember, aðrir nýttu sér elskusemi skólastjórnenda Klettaskóla og sóttu tíma sína þar, aðrir komu í heimakennslu.

Lokið var við að innrétta nýtt leiguhúsnæði fyrir Tónstofuna að Stórhöfða 23, 110 Reykjavík. Húsnæðið er rúmgott, og uppfyllir kröfur um gott aðgengi og umburðarlynda granna.

Foreldra- og styrktarfélag Tónstofu Valgerðar gegnir hlutverki skólanefndar. Í henni sitja veturinn 2012-2013:

Rut Ríkey Tryggvadóttir, formaður
Gerður Steinþórsdóttir, varaformaður
Gunnhildur Gísladóttir, gjaldkeri
Þorleifur Hauksson, ritari
Sólborg Bjarnadóttir, meðstjórnandi
Fulltrúi kennara er Valgerður Jónsdóttir

Aðstoðarfólk:
Jón Ragnar Einarsson
Erla Elíasdóttir
Álfheiður Erla Guðmundsdóttir
Valgeir Daði Einarsson

Eins og áður segir var skólaárið nokkuð markað af húsnæðisvanda Tónstofunnar þar sem mikil orka fór í að leita að heppilegu húsnæði, að innrétta það samkvæmt stöðlum bygginganefndar, að flytja og að koma sér fyrir svo að kennsla gæti hafist þar sem fyrst. Það tókst í nóvember 2012.

 

Eigi að síður var skólaárið nokkuð viðburðarríkt. 

  • Í nóvember gaf Tónstofan út geisladiskinn Hljómfang. Útgáfan var styrkt af Foreldra- og styrktarfélagi Tónstofunnar, af Velferðarsjóði barna, Maríu Einarsdóttur og Ólafi G. Jónssyni og öðrum ónafngreindum velgjörðarmönnum. Diskurinn er til sölu í Tónstofunni og einnig í 12 Tónum.

  • Fjórða nóvember voru haldnir Minningartónleikar um Kára Þorleifsson í Salnum í Kópavogi. Kári var nemandi Tónstofunnar til fjölda ára og meðlimur Bjöllukórsins frá stofnun hans. Á tónleikunum komu fram ásamt Bjöllukórnum tónlistarfólkið: Svavar Knútur, Álfheiður Erla Guðmundsdóttir, Magga Stína, Sæmundur Rögnvaldsson, Bragi Þór Ólafsson, Páll Sólmundur Eydal, Sölvi Rögnvaldsson og Valgeir Daði Einarsson.

  • Fyrsta desember veitti Velferðarsjóður barna Tónstofunni heiðursverðlaun að upphæð krónur 250.000 fyrir störf í þágu fatlaðra barna.

  • Súsanna Ernst Friðriksdóttir gaf Tónstofunni 100.000 krónur í desember.

  • Bjöllukórinn lék á Aðventutónleikum í Laugarneskirkju 2. desember.

  • Tónleikar voru haldnir í Klettaskóla laugardaginn 15. desember.

  • Sú gleðifrétt barst Tónstofunni um áramót að hún fengi leiðréttingu á þjónustusamningi við Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar. Aðstandendur Tónstofunnar eru afar þakklátir og fyllast bjartsýni á nýjum stað. Nýr kennari var ráðinn til starfa, og í fyrsta sinn í mörg ár höfum við getað grynnkað á biðlistanum og tekið á móti nýjum glöðum og tónelskum nemendum.

  • Í febrúar var haldin kynning á Tónstofunni fyrir Soroptimistaklúbb Reykjavíkur og styrkti klúbburinn Tónstofuna um 300 þúsund krónur.

  • Bjöllukórinn lék í guðsþjónustu í kirkju Óháða safnaðarins sunnudaginn 28. apríl.

  • Sigríður Eyþórsdóttir bauð Bjöllukórnum að taka þátt í 30 ára afmælissýningu leikhópsins Perlunnar sem fór fram í Borgarleikhúsinu sunnudaginn 7. apríl. Við óskum Sigríði, leikurumPerlunnar og öllum aðstandendum innilega til hamingju með afmælið og þökkum kærlega fyrir að hafa fengið að taka þátt í gleðinni með þeim. Bjöllukórinn fór heim þakklátur og glaður.

  • Foreldrafélagið keypti 70 stóla og færði Tónstofunni svo hægt væri að halda tónleika í húsakynnum skólans að Stórhöfða 23.

  • Fræðslufundur um starfsemi Tónstofunnar var haldinn fyrir fulltrúa frá nágranna- sveitarfélögunum fimmtudaginn 2. maí. Þann fund sat einnig Skólanefnd Tónstofunnar.

  • Þrennir vortónleikar voru haldnir sunnudaginn 26. maí, kl. 11:00, 13:00 og 15:00 á Stórhöfðanum og tókust þeir mjög vel.

  • Fræðslufundur um starfsemi Tónstofunnar var haldinn fyrir Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, borgarráð/borgarstjórn fimmtudaginn 30. maí. Einungis einn fulltrúi frá Skóla- og frístundasviði mætti á fundinn, Sigfríður Björnsdóttir deildarstjóri listfræðslu.

  • Fimmtudaginn 30 maí tók Tónstofan á móti styrk frá Lista- og vísindasjóðsnefnd Oddfellowreglunnar á Íslandi að upphæð krónur 1.000.000. Eru aðstandendur Tónstofunnar afskaplega þakklátir fyrir þennan höfðinglega styrk sem nýtast mun til góðra verka í Tónstofunni.

Bjartsýnir aðstandendur Tónstofunnar þakka innilega fyrir velvilja og ómetanlegan stuðning á skólaárinu. Um leið og lærdómur er dreginn af reynslu síðasta vetrar undirbúa þeir næsta skólaár. Þeir skipuleggja skóladagatalið, fara yfir nemendalista, skoða biðlista, ræða möguleg námsframboð við bættar aðstæður o.s.frv. Það er von okkar að skólastarf næsta vetrar verði enn blómlegra en verið hefur, að nýjungar í starfseminni líti dagsins ljós og að enn fleiri tónelskir gleðigjafar fái notið sín í Tónstofunni.   

Fyrir hönd kennara, Foreldra- og styrktarfélags Tónstofunnar og Skólanefndar þakka ég fyrir  samvinnuna á þessu skólaári, og óska ykkur gleðilegs sumars.

Dr. Valgerður Jónsdóttir, skólastjóri