Skólaárið og nemendafjöldi

 Fyrsti kennsludagur haustannar 2022 var mánudagurinn 29. ágúst. Síðasti kennsludagur vorannar 2023 var föstudagurinn 26. maí að undanskildum uppbótartímum sem gefnir voru á starfsdögum  30. maí til 2. júní vegna fjarvista og veikinda kennara og nemenda. Síðustu tónleikar vorannarinnar sem voru 12 að tölu voru haldnir á Stórhöfðanum sunnudaginn 21. maí. Á starfsdögum funduðu kennarar, fóru yfir nemendahópinn, ræddu skóladagatal og viðfangsefni næsta vetrar, söfnuðu saman hljóðfærum frá kennslustöðvum Tónstofunnar þrifu þau og yfirfóru, ræddu lærdóm og áskoranir liðins vetrar og deildu áhugaverðu kennsluefni. Í júní starfar skólastjórinn við að ljúka skýrslugerð og samantekt fyrir Reykjavíkurborg sem og við bókhaldsstörf og undirbúning fyrir næsta starfsár að svo miklu leiti sem það er mögulegt þar sem skóla- og frístundasvið hefur ekki endurnýjað þjónustusamning við Tónstofuna þegar þetta er ritað.

Skólaárið 2022-2023 voru 136 nemendur í Tónstofunni skráðir í grunn- og miðnám í sértækri tónlistarkennslu. Á skólaárinu sóttu tuttugu nemendur námskeiðin „Tón-leikur“ og tuttugu nemendur sóttu námskeiðin „Radd-leikur“. Sumir þátttakenda Tón- og Radd-leiks sóttu jafnframt einkatíma. Í Bjöllukórnum voru tólf nemendur og fimm þeirra sóttu einnig einkatíma.

Kennarar, skólanefnd og annað starfsfólk

 Á skólaárinu 2022-2023 störfuðu kennarar í um fjórum stöðugildum að meðaltali: Ari Agnarsson, starfshlutfall 35% kennarastaða. Ása Dóra Gylfadóttir, starfshlutfall 35% kennarastaða. Bára Grímsdótir, starfshlutfall 27% Jóna Þórsdóttir, starfshlutfall 50% kennarastaða / deildarstjóri Öskju/Klettaskóla. Marie Paulette Helene Huby, starfshlutfall 58% kennarastaða. Mínerva M. Haraldsdóttir, starfshlutfall 55% kennarastaða. Valgerður Jónsdóttir, starfshlutfall 100% skólastjóri og kennari.

Stofnandi og ábyrgðaraðili skólans er dr. Valgerður Jónsdóttir. Foreldra- og styrktarfélag Tónstofu Valgerðar gegnir jafnframt hlutverki skólanefndar. Í nefndina var kosið á aðalfundi Foreldra- og styrktarfélagsins 21. nóvember 2022. Í nefndinni sitja skólaárið 2022-2023: Rut Ríkey Tryggvadóttir, formaður Gerður Steinþórsdóttir, varaformaður (gegndi hlutverki formanns á starfsárinu) Gunnhildur Gísladóttir, gjaldkeri / ritari Jóhanna Andrea Jónsdóttir, meðstjórnandi Ottó Leifsson, meðstjórnandi Valgerður Jónsdóttir, fulltrúi kennara, ritari

Um bókhald sá Haraldur H. Helgason, viðskiptafræðingur hjá Aðalbókun bókhaldsstofu ehf. Um endurskoðun ársreiknings og ársreikningaskil sá Hjördís Ýr Ólafsdóttir hjá KPMG ehf. Álfheiður Erla Guðmundsdóttir, starfshlutfall 25% ráðgjafi, ritari og kynningarfulltrúi. Um ræstingu sá SBH þrif. Annað starfsfólk kemur ekki að rekstri skólans.

Styrkir á skólaárinu 2022-2023

Á starfsárinu þökkum við sérstaklega umhyggjusemi og trygglyndi Súsönnu Ernst Friðriksdóttur sem gladdi okkur enn á ný með góðri gjöf um jól. Innilegar þakkir færum við öllu því góða fólki sem ekki er talið upp sérstaklega hér að ofan en sem í nafni stofnana, samtaka eða sem einstaklingar hafa styrkt Tónstofuna og eflt til dáða á liðnum árum. Upplýsingar um viðurkenningar og styrki liðinna ára má sjá á heimasíðu skólans.

Helstu viðfangsefni skólaársins 2022-2023

  • Skólaárið hófst á starfsdögum 22. til 26. ágúst.

  • Mánudaginn 22. ágúst hélt Valgerður kynningu á tónlistarsérkennslu og starfinu í Tónstofunni fyrir gesti frá tónlistarskólunum í Stykkishólmi, Ólafsvík og Grundarfirði.

  • Þriðjudaginn 23. ágúst voru hljóðfæri flutt frá Stórhöfða í starfsstöðina í frístundaheimilinu Öskju.

  • Miðvikudaginn 24. ágúst var farið yfir kennsluefni og raðað í möppur.

  • Fimmtudaginn 25. ágúst var haldinn kennarafundur þar sem við buðum Báru Grímsdóttur velkomna til starfa. Hún tók við nokkrum nemenda Jónu Þórsdóttur sem fór í 50% starf. Við fræddumst um nýjungar í Mussila, skráningar- og nemendabókhaldskerfi Visku, og horfðum á fyrirlestur um spuna með Adam Goldberg frá Berklee Institute for Accessible Arts Education.

  • Föstudaginn 26. ágúst fengu kennarar fjögra stunda skyndihjálparnámskeið.

  • Laugardaginn 27. ágúst kom músíkmeðferðarfræðingurinn Patxi del Campo frá Instituto Música Arte y Proceso, Spáni, í heimsókn. Hann fræddist m.a. um starfið í Tónstofunni og rætt var um mikilvægi djúphlustunar og umhyggju í öllu starfi með fólki.

  • Kennsla hófst mánudaginn 29. ágúst.

  • Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum fagnaði 40 ára afmæli á árinu 2022. Af því tilefni var ráðstefnan „Tónlist er fyrir alla“ haldin í Hörpu dagana 8. og 9. september. Ráðstefnuna sóttu allir kennarar Tónstofunnar og höfðu bæði gagn og gaman af. Á vef KÍ segir: „Í brennidepli verða áskoranir og tækifæri í tónlistarkennslu og tónlistarnámi, nýbreytni og nýsköpunarverkefni og lifandi umræður um málefni sem snerta tónlistarkennslu á breiðum grunni. Fjallað verður um tónlist og tónlistarnám sem samfélagslega fjárfestingu, hvað sé svona sérstakt við tónlist í því samhengi, og horft á afurðir tónlistarskólakerfisins með víðtækum hætti þar sem skilningur á siðferðilegri og samfélagslegri ábyrgð er til grundvallar.“ Áhugaverð umfjöllunarefni í ljósi 36 ára sögu Tónstofu Valgerðar.

  • Fyrsta listasmiðja Tónstofunnar á skólaárinu var haldin laugardaginn 17. september. Duo Stemma kom í heimsókn og í tónleikhúsi þeirra var sungið, spilað og sprellað af hjartans list. Listasmiðjan var mjög vel sótt og mikil gleði ríkti hjá þátttakendum.

  • Þriðjudaginn 4. október kom Justina Gerulaityte nemi í músíkmeðferð frá Litháen í átta vikna starfsnám í Tónstofunni. Hún fylgdist með kennslu hjá öllum kennurunum, skoðaði námsefni, og fræddist um sögu og hugmyndafræði Tónstofunnar.

  • Kennarafundur var haldinn 4. október. Á dagskrá var eftirfarandi: Nemi í starfsþjálfun, Viska, Mussila, þátttaka í List án landamæra, Listasmiðjur, fjarvistir og uppbótartímar, handleiðsla og önnur mál.

    Laugardaginn 8. október var listasmiðja í Tónstofunni. Í heimsókn kom Dans Afríka Iceland. Sandra og Mamady Sano kynntu framandi heim vestur Afríku í gegnum trommuslátt, dans og söng. Listasmiðjan var mjög vel sótt og líkt og á fyrri smiðju voru þátttakendur mjög virkir og glaðir.

  • Laugardaginn 29. október tók undirrituð þátt í fulltrúafundi Þroskahjálpar, en Foreldra- og styrktarfélag Tónstofunnar sótti um aðild að Þroskahjálp haustið 2021.

  • Listasmiðjan Bráðum koma blessuð jólin var haldin í Tónstofunni laugardaginn 19. nóvember. Fullt var út úr dyrum! Í öflugum samhljómi voru sungin lög um jólasveina, Grýlu, desemberdrungann, kertaljósin, Jesúbarnið og annað er tengist jólahátíðinni. Ari Agnarsson sá um undirleikinn en Valgerður Jónsdóttir stjórnaði smiðjunni. Foreldra- og styrktarfélagið sá um veitingarnar. Undirrituð er afar þakklát fyrir þær góðu móttökur sem Listasmiðjur Tónstofunnar hafa fengið.

  • Aðalfundur Foreldra- og styrktarfélags Tónstofunnar var haldinn mánudaginn 21. nóvember í Tónstofunni að Stórhöfða. Dagskrá aðalfundarins tók mið af almennum lögum um fundarsköp og var sem hér segir:

    • Fundarsetning og kosning fundarstjóra.

    • Skýrsla stjórnar.

    • Reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.

    • Ákvörðun félagsgjalda.

    • Kosning stjórnar.

    • Kosning skoðunarmanna reikninga.

    • Síðasti liður þessa aðalfundar voru fyrirspurnir og umræður og bar þetta hæðst í spjalli um þau verkefni sem fram undan voru:

      • Nauðsyn þess að kynna Tónstofu Valgerðar fyrir samtökum eins og Þroskahjálp og gera okkur gildandi í baráttu þeirra og umræðu um inngildingu og jafnrétti.

      • Eiga fund með skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar vegna þjónustusamningsins við Tónstofuna sem hefur verið óbreyttur frá árinu 2012. Samningurinn sem var framlengdur enn eitt skólaárið (2022-2023) er í hrópandi mótsögn við raunverulegt kennslumagn Tónstofunnar. Geðþóttaákvarðanir stjórnvalda ráða á hverjum tíma fjölda þeirra nemendastunda sem skólinn fær. Hvað liggur til grundvallar þeim geðþóttaákvörðunum? Hvers vegna er í samningi Tónstofunnar kveðið á um 1.767 stundir á meðan nemendastundirnar eru í raun 2.126. Tónstofan hefur aldrei fengið þær stundir sem hún hefur kennt! Barátta Tónstofunnar hófst fyrir 36 árum síðan þegar allir nemendur Tónstofunnar voru skilgreindir sem börn í forskóla (í hóptímum) og fengu stuðning samkvæmt því.

      • Tónstofa Valgerðar hefur í þjónustusamningunum aldrei fengið viðurkenningu á því að um tónlistarsérkennslu sé að ræða. Gera má ráð fyrir að hljóð heyrðist úr horni ef grunnskólanemandi með fötlun fengi ekki viðbótarfjármagn vegna námsins. Allir nemendur Tónstofunnar eru með greiningu. Við höfum sem sagt alla tíð þurft að hafa fyrir þjónustusamningnum og að sætta okkur við þá mismunun sem í honum viðgengst og felst m.a. í því að viðurkenna ekki sérstöðu nemendahópsins. Ekkert kemur úr jöfnunarsjóði í okkar hlut þar sem nemendahópurinn hefur ekki burði til að taka formleg miðpróf. Þar viðgengst hrópandi ójöfnuður og mismunun! Til samanburðar má geta þess að Hafnarfjarðarbær hefur nýverið gert samning við Hljómu sem starfar m.a. að sértækri tónlistarkennslu líkt og Tónstofan (byggir á fyrirmynd frá Tónstofunni) og er stuðullinn þar 1.5 sem þýðir að hver nemandi reiknast sem einn og hálfur. Einnig má geta þess að Tónstofan fær engan stuðning með nemendum með lögheimili í Hafnarfirði sem eru orðnir tvítugir og kennir því launalaust, líkt og á undangengnum árum, þremur nemendum þaðan.

        Leggja þarf vinnu í samskipti við Mennta- og barnamálaráðuneytið sem enn svarar ekki ítrekaðri beiðni frá 7. febrúar og 29. mars 2022, þar sem óskað var eftir fundi með Ásmundi Einari Daðasyni mennta- og barnamálaráðherra í svo mörgum orðum: Erindið er að fá leiðsögn, kynna starfsemi Tónstofu Valgerðar og fara yfir samskipti Tónstofunnar við ráðuneytið á liðnum árum. Studd m.a. af alþjóðlegum skuldbindingum íslenska ríkisins, stjórnsýslulögum og þingsályktun um menningarstefnu sem samþykkt var á Alþingi 6. mars 2013, þar sem mennta- og menningarmálaráðherra er falið að starfa samkvæmt stefnu íslenska ríkisins á sviði lista og menningararfs og tryggja aðkomu ríkisins að þeim málaflokkum, leitar Tónstofa Valgerðar enn á ný eftir stuðningi frá ráðherra og ráðuneyti. Undirrituð er meðvituð um fyrirhugaða færslu málaflokka á milli ráðuneyta (Fjölmennt) en óskar eftir því eigi að síður að sitja við sama borð og Myndlistaskólinn í Reykjavík (og Fjölmennt) hvað varðar stuðning frá ráðuneytinu vegna tónlistarkennslu nemenda með fötlun. Í upphafi 35. starfsárs Tónstofunnar, skólaárið 2021-2022, voru 71 af 143 nemendum Tónstofunnar 20 ára og eldri eða um 50% nemendahópsins. Tónstofunni hefur ítrekað verið neitað um styrk frá ráðuneytinu vegna kennslu þessa nemendahóps og Tónstofunnar er ekki getið í skýrslunni Tækifæri ungs fólks með þroskahömlun og skyldar raskanir að loknu námi á starfsbraut, sem dagsett er í nóvember 2020. Tillögur til úrbóta sem nefndar eru í kaflanum Aðgerðaáætlun verða ekki tíundaðar hér en vel hefði mátt geta Tónstofunnar því hún er sannarlega námsframboð að fullu sambærilegt við það sem Fjölmennt og Myndlistaskólinn í Reykjavík býður. Jafnframt er ýmislegt í regluverki ráðuneytisins hvað varðar tónlistarskóla sem heftir og mismunar nemendahópi Tónstofunnar og vert er að vekja athygli á.

        Með von í brjósti um að fá tækifæri til að kynna fyrir ráðherra starf Tónstofunnar sem er einstök perla á landsvísu og þó víða væri leitað.

      • Svo mörg voru þau orð. Þann 16. ágúst 2022 fékk undirrituð svar fá Þórdísi Þórisdóttur ritara ráðherra sem segist muni sýna ráðherra erindi Tónstofunnar og verða síðan í sambandi. Þórdísi var þakkað kærlega fyrir póstinn þann 23. ágúst og henni sagt að við biðum vonglöð eftir að heyra frá ráðuneytinu. Við gerum okkur grein fyrir að í mörg og stór horn er að líta í ráðuneytinu en enn hefur ekkert heyrst! Við höfum sennilega ekki nógu hátt og á því þarf að verða breyting ef Tónstofan á að lifa til framtíðar!

      • Að lokum þakkaði Valgerður Jónsdóttir, stofnandi og ábyrgðarmaður Tónstofunnar, stjórn- Foreldra- og styrktarfélagsins / skólanefndinni og endurskoðendum fyrir elskusemi, trygglyndi og óeigingjarnan stuðning á liðnum árum.

  • Bjöllukórinn lék við afhendingu Kærleikskúlunnar 7. desember 2022. Eva Þengilsdóttir, hugmyndasmiður Kærleikskúlunnar og framkvæmdastjóri ÖBÍ, afhenti Steinunni Ásu Þorvaldsdóttur Kærleikskúlu ársins 2022 við hátíðlega athöfn í Listasafni íslands 7. desember. Við óskum Steinunni Ásu innilega til hamingju með viðurkenninguna. Steinunn er kærleiksrík baráttukona og fyrirmynd sem hefur látið til sín taka á mörgum sviðum samfélagsins, í réttindabarátt fatlaðs fólks og tekist á við stofnanir og stjórnvöld. Bjöllukór Tónstofu Valgerðar hefur leikið við afhendinguna frá árinu 2003 þegar Steinunn Ása sem þá var meðlimur Bjöllukórsins afhenti forseta íslands fyrstu Kærleikskúluna. Tónstofan og Bjöllukórinn var handhafi Kærleikskúlunnar árið 2010. Um handhafa kærleikskúlunnar það árið segir á vef SLF „Valgerður hefur með óeigingjörnu starfi sínu gefið fjöldanum öllum af nemendum með sérþarfir kost á  að njóta tónlistarnáms og þannig endurspeglað nútímalegar áherslur um jafnrétti, sjálfstætt líf og þátttöku fatlaðra í samfélaginu.  Bjöllukórinn hefur þau tólf ár sem hann hefur verið starfandi gefið þeim sem í honum eru mikla gleði og ekki síður þeim sem hafa notið þeirrar gæfu að hlýða á hann.“

  • Jólatónleikaröð Tónstofunnar hófst helgina 10. til 11. desember, en þá voru haldnir 5 tónleikar. Helgina 17. til 18. desember varð því miður að fella niður 6 tónleika vegna mikillar ófærðar og voru það mikil vonbrigði fyrir bæði kennara og nemendahópinn sem ávallt er fullur tilhlökkunar þegar tækifæri gefst til að láta ljós sitt skína.  

  • Jólafrí hófst mánudaginn 21. desember og fyrsti kennsludagur vorannar var mánudagurinn 2. janúar.

  • Sunnudaginn 8. janúar voru nemendatónleikar í Tónstofunni. Þá léku nemendur sem ekki gátu komið fram í desember vegna ófærðar.

  • Í tilefni af Degi tónlistarskólanna var sungið og leikið af hjartans list í Tónstofunni á tvennum tónleikum laugardaginn 11. febrúar.

  • Miðvikudaginn 15. mars fór undirrituð ásamt Jóhönnu Andreu Jónsdóttur fulltrúa skólanefndar Tónstofunnar á boðaðan fund mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar. En í síðustu samantekt var sagt frá erindi sem sent var ráðuneytinu í febrúar 2022. Á fundinum gafst loksins tækifæri til að kynna starfsemi Tónstofunnar í máli og myndum og vekja athygli á þeirri mismunun sem nemendur hennar hafa þurft að þola alla tíð. Niðurstöður og svar við óskum Tónstofunnar um fjárhagslegan stuðning vegna kennslu nemenda sem orðnir eru tvítugir liggur ekki fyrir þegar þetta er ritað.

  • Laugardaginn 18. mars sótti undirrituð formannafund Þroskahjálpar. Þar gafst tækifæri til að kynnast baráttumálum aðildarfélaga Þroskahjálpar og jafnframt tækifæri til að kynna starfið í Tónstofunni.

  • Óskað var eftir þátttöku undirritaðrar á fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis sem haldinn var þriðjudaginn 28. mars. Á fundinum var fjallað um tillögu til þingsályktunar um tónlistarstefnu fyrir árið 2023-2030, 689. mál. https://www.althingi.is/altext/153/s/1060.html      En undirrituð hafði sent eftirfarandi athugasemdir/ábendingar við tillöguna:

    • Í tillögu til þingsályktunar um tónlistarstefnu fyrir árin 2023-2030 sem Alþingi felur menningar- og viðskiptaráðherra að vinna að (153. löggjafarþing 2022–2023. Þingskjal 1060  —  689. mál. Stjórnartillaga) segir um markmið og framtíðarsýn. „Með tónlistarstefnu verði mótuð framtíðarsýn og vegvísar með það að markmiði að styðja við tónlist sem listgrein, tónlistarfólk og aðra sem starfa við tónlist. Tryggð verði inngilding og aðgengi almennings að tónlist og tónlistarmenntun.“

      Tónlistarstefnan inniheldur þrjár megináherslur sem hver um sig hefur að geyma tiltekið markmið og aðgerðir til að ná því.  Megináhersla 1 (1.3.1, 1.3.2, og 1.3.4) hefur sérstaka þýðingu fyrir nemendahóp Tónstofu Valgerðar og aðra þá sem vegna áskorana af ýmsu tagi hafa ekki átt greiðan aðgang að tónlistarskólum landsins. Athugasemdir og ábendingar sem hér fylgja eru gefnar frá sjónarhorni nemendahóps Tónstofunnar en þar fer fram tónlistarkennsla fyrir nemendur sem vegna fatlana og eða sjúkdóma þurfa sérstakan stuðning. Tónstofan er eini tónlistarskólinn á landinu þar sem þessir einstaklingar njóta forgangs. Framvinda og markmið kennslunnar sem og kennsluaðferðirnar taka mið af forsendum, þörfum og óskum hvers einstaks nemanda. Nemandi í Tónstofunni getur lagt stund á hefðbundið tónlistarnám. Hann getur einnig notið fjölþættrar tónlistarkennslu og þjálfunar sem beinist að því að efla tónnæmi hans og tónlistarfærni, bæta líðan hans og veita sköpunarþörfinni útrás. Í þessu felst sérstaða Tónstofu Valgerðar um leið og hún fylgir þeim megin markmiðum sem eru skilgreind í aðalnámskrá tónlistarskóla og skólanámskrá Tónstofunnar.   

Megináhersla 1 er tónlistarmenning og menntun.

Markmið 1.3. Tónlistarmenntun verði fjölbreytt og af miklum gæðum.
1.3.1. Hafin verði endurskoðun aðalnámskrár tónlistarskóla.
Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneytið.
Tímaáætlun: Úttekt hefjist í desember 2023. Kostnaður: Metinn eftir að úttekt lýkur.

Athugasemdir/ábendingar: Tónstofan fagnar því að hefja eigi endurskoðun aðalnámskrár tónlistarskóla. Í endurskoðaðri aðalnámskrá þarf jafnrétti og inngilding að vera sett fram með þeim hætti að virki í framkvæmd en hljómi ekki einungis í fagurgala orðanna líkt og í núverandi námskrá.

Taka þarf tillit til og skilgreina einstaklingsbundna námsframvindu og einstaklingsbundið námsmat óháð aldursviðmiðum og námstíma. Vegvísi er að finna í Tónstofu Valgerðar en þar býr 36 ára þekking á tónlistarkennslu nemenda með fötlun. Við veitum fúslega ráðgjöf við endurskoðun aðalnámskrár tónlistarskóla svo inngilding og jafnrétti virki í framkvæmd. Við bendum á að í inngildingu og skóla án aðgreiningar felast skipulagðar umbætur (breytingar) á innihaldi, kennsluaðferðum, aðferðafræði og skipulagi náms til að ryðja úr vegi hindrunum með það að leiðarljósi að allir nemendur á sama aldri geti verið virkir þátttakendur og nýtt sér sanngjarna og sjálfsagða námsreynslu í umhverfi sem kemur til móts við óskir þeirra, áhugasvið og færni.

1.3.2. Átak verði gert í nýliðun tónlistarkennara. Farið verði í auknar kynningar á kennaramenntun í tengslum við tónlist á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi.
Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneytið.
Tímaáætlun: Úttekt hefst í desember 2023.
Kostnaður: Metinn eftir að úttekt lýkur.

Athugasemdir/ábendingar: Að auka kynningar á kennaramenntun er ekki nóg ef leiðarljósið til framtíðar er inngilding og jafnrétti. LHÍ hefur m.a. beint sjónum sínum og orku að erlendum samstarfsverkefnum (t.d. Erasmus+) sem fylgja styrkir/fjármagn. Öll framþróun er af hinu góða og því ber að fagna að næsta haust hefst í LHÍ ný námsbraut á meistarastigi Listir og velferð. Gagnast sú námsbraut verðandi tónlistarkennurum? Vel menntaðir tónlistarkennarar eru undirstaða áframhaldandi vaxtar tónlistarnáms. En hvað er góð menntun, hverjum á hún að gagnast og hvenær á hún að hefjast? Því miður vantar grunninn að mínu mati! Ef inngilding og jafnrétti á að ná fótfestu í tónlistarskólum landsins og í tónmenntakennslu almennt, þarf kennslufræðin strax á bakkalárstigi í kennaranámi LHÍ að gagnast kennaraefnum sem eiga að starfa í skóla án aðgreiningar. 

Vel menntaðir og reynslumiklir kennarar Tónstofunnar eru tilbúnir til að leggja sitt af mörkum í  kynningarstarfi/námskeiðum/námi/verknámi fyrir kennaraefni sem hafa áhuga á þessu sérsviði þ.e. tónlistarkennslu fólks með fötlun. Í tengslum við kynningar á kennaramenntun þar sem inngilding og jafnrétti ríkir býður Tónstofan mennta- og barnamálaráðuneytinu og LHÍ til samstarfs/samvinnu af því tagi sem gagnast gæti kennaraefnum í skóla án aðgreiningar. En Tónstofan getur ekki borgað með sér til að sinna slíku verkefni.

 1.3.4. Áhersla verði lögð á áframhaldandi stuðning við verkefni sem miða að því að auka aðgengi og áhuga barna á tónlist og tónlistarsköpun.
Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneytið. Tímaáætlun: 2023–2026. Kostnaður: Verði metinn eftir einstökum verkefnum.

Athugasemdir/ábendingar: Tónstofa Valgerðar hefur í þau 36 ár sem hún hefur starfað aldrei fengið stuðning frá ríkinu/ráðuneytum þessa lands, þrátt fyrir ítrekaðar en jafnframt hógværar tilraunir! Þó hefur Tónstofan verið í framvarðasveit við það að auka aðgengi fólks með fötlun að tónlist og tónlistarsköpun. Við höfum ekki leitað eftir stuðningi frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu en fáum væntanlega hljómgrunn verði eftir því leitað því eins og segir í greinargerðinni með þingsályktunartillögunni „stjórnvöld geta tekið forystuna með því að hafa leiðarstefin til hliðsjónar þegar teknar eru ákvarðanir sem snúa að styrkveitingum og opinberum verkefnum.“ 

Að lokum. Leiðarstefin í tónlistarstefnunni aðgengi, inngilding og jafnrétti eru mikilvæg og skipta fólki með fötlun sem hefur áhuga á að iðka tónlist og leggja stund á tónlistarnám öllu máli. Tónlistarstefnan talar um forvarnargildi tónlistarnáms, aðgengi að fjölbreyttri tónlistarmenntun á öllum skólastigum óháð bakgrunni og búsetu, einstaklingsmiðað nám þar sem hugað er að þörfum hvers og eins nemanda, eðlilega námsframvindu og samfellu í námi, frá fyrstu stigum yfir mið- og framhaldsstig almennra tónlistarskóla og loks á háskólastig. Þetta eru fögur orð sem hljóta að gilda einnig um „almenninginn“ í Tónstofunni sem nýtir og þroskar styrkleika sína og áhugasvið óháð aldri og á eigin forsendum og í þágu sinnar eigin velferðar og samfélagsins alls! Mikilvægi Tónstofunnar felst m.a. í því að standa vörð um réttindi fatlaðs fólks til að nýta og þróa hæfileika sína og til að stuðla að virkri þátttöku þeirra í menningarlífi og listum. Í skóla magbreytileikans eiga allir tónlistarskólar að standa vörð um réttindi fólks með fötlun. Stöndum undir ábyrgðinni sem okkur ber að taka.

  • Laugardaginn 1. apríl var Listasmiðjan Vorvindar glaðir. Í smiðjunni var m.a. leikið á hljóðfæri og sungið um sól og sumaryl. Á fésbókarsíðu Tónstofunnar má finna dýrmætt innslag frá 6. apríl þar sem Cristina-Elena Furdui lýsir upplifun sinni af smiðjunni. Cristina segir allt sem segja þarf um mikilvægi Listasmiðjunnar fyrir nemendahópinn og aðra þátttakendur, en eins og auglýst er á samfélagsmiðlum þá eru smiðjurnar opnar almenningi.

  • Dagana 3. til 5. maí fengum við heimsókn frá tónlistarkennaranum Timo Turunto frá Ylä-Savo tónlistarskólanum í Finnlandi. Það var mjög ánægjulegt fyrir bæði kennara og nemendur að fá Timo í heimsókn sem langar til að byggja upp sambærilegt starf við það sem fram fer í Tónstofunni. Nemendur og kennarar Tónstofunnar hafa tekið þátt í Nordplus Junior samstarfi með þessum tónlistarskóla (2016/2017). Má sjá fallegar myndir og myndbönd frá samstarfinu á heimasíðu Tónstofunnar. Fyrirhugað er frekara samstarf á árinu 2025.

  • Vortónleikaröð Tónstofunnar hófst 13. maí og henni lauk 21. maí. Þrennir stórtónleikar voru haldnir í Grafarvogskirkju aðrir tónleikar fóru fram í Tónstofunni á Stórhöfða. Tónleikarnir urðu samtals 12. Líkt og fyrr eru tónleikarnir sannkölluð uppskeruhátíð sem gefur bæði lærdóm og gleði inn í hjörtu allra viðstaddra. Við höfðum ekki ráð á atvinnuljósmyndara að þessu sinni en undirrituð gerði sitt allra besta til að fanga gleðina (svolítið á kostnað eigin nemenda). Njótið yndislegra mynda sem finna má á samfélagsmiðlum og á heimasíðu Tónstofunnar.

  • Síðasti kennsludagur Tónstofunnar vorið 2023 samkvæmt skóladagatali var föstudagurinn 26. maí, en nokkrir aukatímar/uppbótatímar voru kenndir á starfsdögum 30. maí til 2. júní.

  • Þriðjudaginn 30. maí sótti undirrituð samráðsfund skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar með skólastjórum Tónlistarskóla í Reykjavík. Efni fundarins var að kynna vinnu sviðsins við útfærslur á þeim hagræðingartillögum sem samþykktar voru í Borgarstjórn Reykjavíkur þann 6. desember 2022.  https://2021.reykjavik.is/sites/default/files/skjol_borgarstjornarfundur/4_3_2_breytingartillogur.pdf

  • Vikuna 30. maí til 2. júní tóku við starfsdagar. Á starfsdögum funduðu kennarar, fóru yfir nemendahópinn, söfnuðu saman hljóðfærum frá kennslustöðvum Tónstofunnar þrifu þau og yfirfóru, og hugleiddu lærdóm og áskoranir liðins vetrar. Í júní starfar skólastjórinn við að ljúka skýrslugerð og samantekt fyrir Reykjavíkurborg sem og við undirbúning fyrir næsta starfsár á þeim forsendum sem til staðar verða.

Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér starf Tónstofunnar frekar geta farið á rafræna miðla hennar: www.tonstofan.is https://www.instagram.com/tonstofan/ https://www.facebook.com/tonstofavalgerdar

Vinátta, gleði og vinnusemi einkennir starfið í Tónstofunni frá degi til dags og var engin undantekning þar á þetta skólaár frekar en hin fyrri þrátt fyrir áskoranir og áhyggjur af ýmsu tagi er mættu bæði, nemendum, forráðamönnum, kennurum og skólastjórnanda Tónstofunnar. Undirrituð þakkar kennurum Tónstofunnar, skólanefndinni, velunnurum, nemendum og forráðamönnum sem og ráðamönnum í starfsstöðvum Tónstofunnar hjartanlega fyrir gjöfult samstarf á krefjandi skólaári.

Skráð í júní 2023. Dr. Valgerður Jónsdóttir, skólastjóri Tónstofa Valgerðar Stórhöfða 23 110 Reykjavík