Tónlistarsérkennsla


Í tónlistarkennslu felst það markmið að kenna fólki að njóta og að nota tónlist sér og öðrum til gleði og ánægju. Grundvallarmarkmið kennslunnar er fagurfræðilegs eðlis. Kennslan felst í því að auka þekkingu á tónlist, efla tónnæmi og tónlistarfærni og hafa áhrif á viðhorf fólks til tónlistar.

Í tónlistarsérkennslu líkt og í hefðbundinni tónlistarkennslu er tónlistin aðalatriðið og nemandinn sem glímir við áskoranir af einhverju tagi er hvattur til virkrar þátttöku í tónlistartímum sem hafa að markmið að auka þekkingu hans og tónlistarfærni í samræmi við getu. Í sérkennslunni er námskráin einstaklingsbundin, sérsniðin að þörfum hvers og eins. Það þýðir að námsefnið, tilhögun námsins, aðferðafræðin og markmið kennslunnar eru löguð að óskum og getu hvers nemanda.

Nemendur með sérþarfir eru þeir einstaklingar sem víkja frá viðmiði um “eðlilegan” líkamlegan eða andlegan þroska að meira eða minna leyti og þarfnast því sérstakra kennslufræðilegra úrræða/nálgunar eða breyttra viðhorfa til námsframvindu. Námsvandi nemenda getur m.a. stafað af: Hreyfitruflunum, erfiðleikum við að samþætta skynáreiti, sjónskynjunarvanda, heyrnarskynjunarvanda, áskorunum er tengjast tjáningu, áskorunum er tengjast skertum vitsmunaþroska, áskorunum er tengjast minni, erfiðleikum er tengjast andlegri líðan.

Tónlistarkennsla, tónlistarsérkennsla, tónlistarsálfræði og músíkmeðferð eru greinar á sama meiði. Greinar sem nýta tónlist, fást við mannlega hegðun og sem skarast á ýmsa vegu. Kennsla getur haft meðferðargildi og í meðferð getur falist kennsla.  Músíkmeðferðarfræðingar reyna t.d. að hafa að leiðarljósi að allir þarfnast fagurfræðilegrar upplifunar og fyrir einstakling með sérþarfir getur velgengni eða árangursrík þátttaka í tónlist styrkt sjálfsmyndina svo dæmi sé tekið.

Hér fyrir neðan er tengill og niðurlag greinar um tónlistarsérkennslu. Ekki er vitað um höfund greinarinnar en hún kemur frá University of Wisconsin EauClaire. https://people.uwec.edu/rasarla/research/mtorg/adaptive_music/role_music.pdf

„If we believe a music education is a vital part of the general education of all children, then we must more actively advocate music education programs for special learners. This includes providing an equal opportunity aesthetic education through music that offers the same program options that are available to other children (i.e., classroom music instruction, instrumental lessons, and performance ensembles). The challenge to the music educator teaching special learners is in ensuring that the music experiences provided are not only appropriate to the individual abilities of that child, but faithful to accepted music education goals for all children as well.“

Í aðalnámskrá tónlistarskólas almennum hluta sem menntamálaráðuneytið gaf út árið 2000 segir meðal annars: https://www.menntamalaraduneyti.is/utgefid-efni/namskrar/adalnamskra-listaskola/

„Gildi tónlistarnáms er margþætt. Markvisst tónlistaruppeldi miðar að auknum þroska einstaklinga, þjálfar huga og eflir tjáningarhæfni nemenda. Auk þess veitir gott tónlistarnám lífsfyllingu og hefur víðtækt félagslegt gildi. Skólarnir þjóna breiðum hópi tónlistaráhugafólks á ýmsum aldri, jafnt þeim sem stunda námið sér til ánægju og þeim sem hyggjast leggja tónlistina fyrir sig. Mikilvægt er að tónlistarnám veki ánægju og örvi nemendur til að iðka tónlist og njóta hennar."

"Lögð er áhersla á sjálfstæði skóla. Í því skyni eru í aðalnámskrá tilmæli um að starfssvið tónlistarskóla skuli skilgreint í skólanámskrá þar sem fram komi markmið náms og fyrirkomulag skólastarfs í viðkomandi skóla. Við gerð skólanámskrár skal taka mið af stefnumörkun aðalnámskrár tónlistarskóla ásamt því að setja fram sérhæfð og staðbundin markmið einstakra skóla. Hlutverk aðalnámskrár tónlistarskóla er jafnframt að stuðla að víðsýni og sveigjanleika í kennsluháttum, svo og að hvetja til faglegrar og gagnrýninnar umræðu meðal tónlistarkennara um markmið og leiðir í kennslu. Námskránni er ætlað að hafa áhrif á námsframboð, kennslufyrirkomulag og námsmat í tónlistarskólum."

"Hlutverk og meginmarkmið tónlistarskóla er að efla hæfni, þekkingu og þroska nemenda, sem og að stuðla að öflugu tónlistarlífi í landinu. Í skólastarfi tónlistarskóla ber að taka tillit til margbreytilegra áhugasviða nemenda, getu þeirra og þroska þannig að skólarnir þjóni öllum þeim sem sækjast eftir tónlistarnámi. Kennsluaðferðir og viðfangsefni skulu vera fjölbreytt og sveigjanleg."

"Meginmarkmið tónlistarskóla skiptast í þrjá flokka: uppeldisleg markmið, leikni- og skilningsmarkmið og samfélagsleg markmið. Uppeldisleg markmið stuðla að auknum tilfinninga- þroska nemenda, listrænum þroska, mótun viðhorfa, samvinnu og ögun. Leikni- og skilningsmarkmið stuðla einkum að aukinni færni og þekkingu nemenda. Samfélagsleg markmið stuðla að þátttöku í fjölbreyttri mennta- og menningarstarfsemi."

"Lok náms í tónlistarskólum er því ekki unnt að binda við tiltekinn aldur."

"Kennsla beinist að því að hjálpa nemendum að öðlast þekkingu og skilning, að móta sér skoðanir og viðhorf og ná leikni á tilteknum sviðum. Kennsla miðar að því að nemendur nái þeim markmiðum sem að er stefnt. Í skólastarfi á að ríkja fjölbreytni í vinnubrögðum og kennsluaðferðum. Kennarar bera faglega ábyrgð á því að velja heppilegustu og árangursríkustu leiðirnar til að ná markmiðum aðalnámskrár og skólanámskrár. Við val á kennsluaðferðum og vinnubrögðum verður að taka tillit til markmiða sem stefnt er að, aldurs, þroska og getu nemenda sem í hlut eiga hverju sinni og eðlis viðfangsefnisins. Vönduð kennsla, sem lagar sig að markmiðum og nemendum, eykur líkur á árangri. Kennsluaðferðir og vinnubrögð í skólum verða að þjóna þeim markmiðum sem stefnt er að hverju sinni. Markmið tónlistarskóla eru margvísleg, allt frá markmiðum, sem varða afmarkaða þætti kunnáttu, leikni og viðhorfa, til langtímamarkmiða. Val á kennsluaðferðum og skipulag skólastarfs verður að miðast við að nemendur fái sem best tækifæri til náms og þroska. Kennslan verður að taka mið af þörfum og reynslu einstakra nemenda og efla með þeim námfýsi og vinnugleði. Kennsluaðferðir mega ekki mismuna nemendum eftir kynferði, búsetu, uppruna, litarhætti, fötlun, trúarbrögðum eða félagslegri stöðu."