27. starfsár Tónstofunnar, veturinn 2013-2014

NEMENDAFJÖLDI

Fyrsti kennsludagur haustannar 2013 var mánudagurinn 2. september. Síðasti kennsludagur vorannar var föstudagurinn 30. maí 2014.
Hundrað og einn nemandi var skráður í skólann í lok vorannar 2014.
Yngsti nemandinn er fæddur 2010 sá elsti er fæddur 1958. 
Tuttugu og tveir nemendur Tónstofunnar sóttu tíma sína í Klettaskóla, en samstarfið við Klettaskóla (fyrrum Öskjuhlíðarskóla) hefur nú staðið í sjö vetur okkur til mikillar ánægju. Jóna Þórsdóttir kennir þeim nemendum sem sækja tónlistartíma sína í Klettaskóla. Foreldrar nemendanna jafnt sem kennarar þeirra eru ánægðir með samstarfið sem hefur marga kosti í för með sér fyrir alla aðila.

KENNARAR, SKÓLANEFND OG ANNAÐ STARFSFÓLK

Við skólann störfuðu 6 kennarar:
Valgerður Jónsdóttir 100% starfshlutfall
Jóna Þórsdóttir 100% starfshlutfall
Marie Huby 70/100% starfshlutfall
Hallvarður Ásgeirsson, stundakennari
Álfheiður Erla Guðmundsdóttir, stundakennari
Valgeir Daði Einarsson, stundakennari
Skólastjóri og ábyrgðaraðili skólans er Valgerður Jónsdóttir. 

Foreldra- og styrktarfélag Tónstofu Valgerðar gegnir hlutverki skólanefndar. 

Í henni sitja:
Rut Ríkey Tryggvadóttir, formaður
Gerður Steinþórsdóttir, varaformaður
Gunnhildur Gísladóttir, gjaldkeri
Þorleifur Hauksson, ritari
Sólborg Bjarnadóttir, meðstjórnandi
Dóra Eydís Pálsdóttir, meðstjórnandi
Fulltrúi kennara er Valgerður Jónsdóttir.

YFIRLIT SKÓLAÁRSINS 2013-2014

Á starfsdögum kennara í upphafi skólaárs var tekið á móti frönskum og finnskum tónlistarskólastjórum og kennurum. Fundað var um mögulegt samstarf byggt á Grundtvig og Erasmus styrkjum. Farið var á Sólheima í Grímsnesi, á Kaffi Gæs, í Hitt Húsið, og á Tónstofuna. Gestirnir voru fræddir um starfsemi og rekstur þessara stofnana og landið var skoðað.                         

22. ágúst sóttu kennarar námskeið á vegum Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Námskeiðið var haldið fyrir tónlistar- og tónmenntakennara og skoðaðir voru áhugaverðir möguleikar sem felast í notkun nýjustu tölvutækni í skólastarfinu. Námskeiðið var afar gagnlegt fyrir kennara Tónstofunnar, sem nýttu sér nýja þekkingu m.a. til að miðla kennslustundum rafrænt til foreldra.

Nýir kennarar voru ráðnir til starfa í upphafi skólaársins. Hallvarður Ásgeirsson var ráðinn í stundakennslu m.a. til að byggja upp tölvutónlistarver Tónstofunnar. Boðið var upp á námskeið og einstaklingstíma. Einn nemandi sótti tíma í tölvuverinu allt skólaárið og var verk eftir hann flutt á vortóneikunum. Álfheiður Erla Guðmundsdóttir og Valgeir Daði Einarsson voru ráðin til að kenna og byggja upp hljómsveit við skólann. Þau ásamt Marie Huby sáu um kennslu hljómsveitarmeðlima í einkatímum og þjálfuðu hljómsveitina i sameiningu. Hljómsveitin tók miklum framförum á skólaárinu og vakti lukku á vortónleikunum en þar flutti hún tvö lög: Happy/Pharell Williams og Enga fordóma/Pollapönk.

Haustönnin sem hófst mánudaginn 2. september fór vel af stað í Tónstofunni. Bjöllukórinn, sönghópurinn, hljómsveitin og nýir og gamlir nemendur á öllum aldri fylltu stofur á Stórhöfða og skólastofuna Höfða á lóð Klettaskóla með leikgleði sinni.  Aldrei hafa fleiri nemendur verið innritaðir í Tónstofuna. Í lok haustannar voru þeir 97 og í lok vorannar 2014 voru þeir 101.

Facebook-síða Tónstofunnar varð virk með fyrstu færslu þann 11. september 2013. 

Á starfsdegi í Tónstofunni 20. september, sóttu kennararnir ellefta svæðisþing tónlistarskóla á höfuðborgarsvæðinu. Á þinginu var meðal annars fjallað um: innleiðingu skapandi þáttar í tónlistarkennslu, lögverndun starfsheitis/starfsréttinda tónlistarskólakennara og frumvarp til laga um tónlistarskóla. Þessum starfsdegi var vel varið á þinginu.

Bjölukórinn lék tvo sálma í guðsþjónustu í Grensáskirkju sunnudaginn 13. október. Við þökkum séra Guðnýju Hallgrímsdóttur og séra Ólafi Jóhannssyni fyrir að taka fallega á móti okkur. Við vonumst til að fá að hljóma bjöllurnar okkar aftur í kirkjunni.

Foreldra- og styrktarfélag Tónstofunnar sem einnig gegnir hlutverki skólanefndar hélt aðalfund sinn 28. október 2013. Lagabreytingar, m.a. um fjölgun í skólanefndinni voru bornar upp og samþykktar einróma. Dóra Eydís Pálsdóttir gaf kost á sér til stjórnarsetu. Fráfarandi stjórn gaf öll kost á sér áfram. Skoðunarmenn reikninga Anna Björg Halldórsdóttir og Sigurjón Högnason voru einnig endurkjörin. Fundurinn var vel sóttur af foreldrum. Myndin af skólanefndinni er tekin á undirbúningsfundi fyrir aðalfund. 

Nýtt námskeið "Listkennsla nemenda með sérþarfir" var kennt í Listaháskólanum á haustönninni. Tveir nemendur þessa námskeiðs sóttu verknám sitt í Tónstofunni undir handleiðslu Valgerðar Jónsdóttur.

Sex tónleikar voru haldnir í Tónstofunni á haustönninni, þar af fernir jólatónleikar.

Bjöllukórinn, sem og einleikarar úr honum komu einnig víða fram. Bjöllukórinn lék fyrir Foreldrafélag fatlaðra, við afhendingu Kærleikskúlunnar, á Barnamenningarhátíð fyrir Velferðarsjóð barna, og í Ársafni á aðventu.

12 Tónar halda áfram að selja geisladiskinn Hljómfang, og fréttir berast víða að af ánægðum hlustendum.

Á jólum naut Tónstofan gjafmildi Súsönnu Ernst Friðriksdóttur enn á ný. Við þökkum innilega fyrir ómetanlegan hlýhug og stuðning við starfsemina. 

Í Oddfellowblaðinu sem kom út í desember 2013 segir Ingvi Þ. Þorsteinsson frá stofnun og hlutverki Lista- og vísindasjóðs Oddfellowreglunnar. Í maí 2013 var Tónstofan ásamt Sinfóníuhljómsveit tónlistarskólanna styrkþegi sjóðsins. Í Tónstofunni er styrkurinn nýttur til að koma til móts við forráðamenn sem eiga erfitt með greiðslu skólagjalda. Hafa skólagjöld verið felld niður að hluta eða að öllu leyti hjá einstaka nemendum þetta skólaár.

 Á degi tónlistarskólanna 15. febrúar var opið hús í Tónstofunni. Margir góðir gestir mættu og tóku þátt í dagskránni. Kennarar Tónstofunnar, nemendur og gestir voru mjög ánægðir með hvernig til tókst. 

Tónstofan tók þátt í Upptaktinum. Verk Bernharðs Mána Snædal Live in Peace, var eitt af tólf sem valið var til að vinna áfram með tónskáldi og gera tilbúið til flutnings á tónleikum Upptaktsins. Alls bárust 42 verk í Upptaktinn. Tónleikarnir voru í Hörpu 29. apríl á opnunarhátíð Barnamenningar. Marie Huby kennari Bernharðs Mána og við öll í Tónstofunni erum ákafleg stolt af Bernharði Mána og óskum honum innilega til hamingju með framúrskarandi árangur. Upptaka frá tónleikunum með laginu hans Live in peace er á Facebook-síðu Tónstofunnar.

 Hátíðin List án landamæra var sett í ellefta sinn í Ráðhúsi Reykjavíkur föstudaginn 11. apríl. Bjöllukórinn hitaði upp fyrir Pollapönkarana. Eins og stendur í fréttatilkynningu þá er „hátíðin tileinkuð fjölbreytileika og auðugu samfélagi.“ 

Bjöllukórinn ásamt Gunnari Gunnarssyni hélt tónleika í Fríkirkjunni í Reykjavík, sunnudagi.18.maí.Tónleikarnir báru yfirskriftina Hljómfang. Tónleikagestir voru boðnir velkomnir með eftirfarandi orðum: „Við bjóðum ykkur hjartanlega velkomin á tónleikana sem við nefnum Hljómfang. Nafnið er fengið að láni frá hljómdisknum okkar sem kom út í nóvember 2012. Á honum leikur bjöllukórinn nokkur þeirra laga og sálma sem lifað hafa hvað lengst með kórnum. Lögin og sálmarnir hafa skipað sérstakan sess í hugum okkar og hjörtum og eins og segir á diskinum þá hafa þau huggað og róað, fyllt hugi af þakklæti og gleði og kveikt minningar og hugrenningatengsl. Á diskinum léku með okkur snillingarnir Gunnar Gunnarsson orgelleikari og tónlistarstjóri Fríkirkjunnar og Matthías Stefánsson fiðluleikari. Um upptöku, hljóðblöndun og samsetningu sá öðlingurinn Hafþór Karlsson. 

Tónleikarnir í dag eru á dagskrá Listar án landamæra. List án landamæra er árleg listahátíð með áherslu á  fjölbreytileika mannlífsins. Allir sem vilja geta tekið þátt og hátíðin hefur það að markmiði að vera síbreytileg og lifandi. Á hátíðinni vinnur listafólk saman að allskonar list með frábærri útkomu. Það leiðir til auðugra samfélags og aukins skilnings manna á milli. Með því að skapa vettvang skapar maður tækifærisegja forsvarsmenn hátíðarinnar. Leiðir opnast, jafnvel inn á nýjar brautir og með því að kynna saman hópa og einstaklinga opnast alltaf fleiri og fleiri dyr og tækifæri. List án landamæra er þannig hátíð þess mögulega og þess ómögulega, hátíð margbreytni og tækifæra fyrir alla. List án landamæra hefur lagt áherslu á það  að koma á samstarfi á milli fatlaðs og ófatlaðs listafólks. Sýnileiki ólíkra einstaklingaer mikilvægur, bæði í samfélaginu og í samfélagsumræðunni. Sýnileiki hefur bein áhrif á jafnrétti á öllum sviðum. Hátíðin hefur breyst og þróast ár frá ári og sífellt fleiri verða meðvitaðir um gildi hennar í listalífinu. 

Í dag breiðum við út faðminn og hljómum bjöllurnar okkar með aðstoð Gunnars Gunnarssonar sem af sinni alkunnu snilld ætlar að spinna með okkur og um okkur tónvef líkt og hann gerði á diskinum. En Bjöllukór er þess eðlis að skipta þarf um nótur á milli laga, við verðum ekki vör við þetta þegar við leikum diskinn en á tónleikum fylgjast áheyrendur með því hvernig hljóðfærið okkar er stillt fyrir hvert lagþegar við ferðumst á milli tóntegunda. Tíminn sem þetta tekur getur verið nokkur og biðjum við tónleikagesti velvirðingar á því. Með aðstoð Gunnars Gunnarssonarorganista, Marie Huby og Jónu Þórsdóttur meðstjórnenda kórsins hefjum við nú einstaka tónleika sem eru á mörkum þess mögulega. 

Tónleikarnir tókust einstaklega vel og þökkum við aðstandendum Fríkirkjunnar í Reykjavík og Gunnari Gunnarssyni hjartanlega fyrir stuðninginn og ómetanlega elskusemi.

Bjöllukórinn tók þátt í öðru ævintýri við setningu Listahátíðar í Reykjavík sem fram fór á brúnni yfir Reykjavíkurtjörn þann 22. maí. Högni Egilsson, ásamt Bjöllukórnum og klukkum Hallgrímskirkju og Landakotskirkju flutti verkið Turiya, sem hann samdi sérstaklega fyrir hátíðina.       

Úr Morgunblaðinu fimmtudaginn 22. maí, 2014: „Högni sækir titil verksins í austræna heimspeki og segir í tilkynningu að Turiya standi fyrir fjórða og æðsta tilverustigið sem liggi handan vöku og drauma og draumlauss svefns. Turiya sé hið fullkomna vit undarstig sem feli í sér kjarna tilverunnar. Grunntónninn sé sleginn við tjörnina, djúpið, og söngurinn rísi úr vatninu á meðan tröllin tvö á Skólavörðuholti og Landakoti kallist á.“

Spurður að því hvers vegna hann hafi ákveðið að fara þessa óvenjulegu leið, að flytja verkið með kirkjuklukkum og  bjöllukór, segist Högni hafa orðið mjög snortinn af plötu kórsins, Hljómfang, sem kom út fyrir tveimur árum. „Mér fannst tónninn og hljómurinn í kórnum vera svo sérstakur og fallegur og þegar ég hóf að vinna að þessu verki vissi ég að mig langaði að vinna með þeim,“ segir Högni. Hljómurinn passi vel við þann huglæga tón sem manneskjan sé alltaf að reyna að fanga og rannsaka í gegnum helgisiði sína og trúariðkun. Leit sem hafi verið honum hugleikin síðustu misseri.“

Söngurinn ómar yfir borgina, inn í Esjuna og ofan í Eilífsdal sem liggur að baki henni. Verkið endurspeglar lífsreisu mannverunnar, þar sem Turiya er kjarninn,“ segir Högni um verkið í tilkynningu.

Um opnunaratriði Listahátíðar segir skáldið Anton Helgi Jónsson í Facebook- færslu 22. maí: „Almættið sjálft gerði sér lítið fyrir og tók þátt í giggi hjá Högna Egilssyni við Tjörnina í Reykjavík núna síðdegis þegar hann flutti tónverk við upphaf Listahátíðar. Það var undarlegur og áleitinn seiður í þessu verki Högna þar sem hann stillti saman glamri úr stórum klukkum í nærliggjandi kirkjum og þýðum bjölluhljómi framkölluðum af höndum viðkvæmra flytjenda. Þar mitt á milli var Högni sjálfur, mitt á milli báknsins og þess sem er hálfvegis utangarðs og með sinni einstöku rödd söng hann fáein stef sem hann endurtók aftur og aftur og aftur.
Undir söngnum leiddi ég hugann að minimalísku verki eftir tónskáldið Gavin Bryars þar sem utangarðmaður heyrist aftur og aftur endurtaka sama stefið um það að blóð Jésu Krists hafi enn sem komið er aldrei brugðist honum.
Ég veit ekki hvort verkið sem Högni flutti ásamt Bjöllukórnum og nærliggjandi kirkjuklukkum var trúarsálmur en þar sem ég stóð í kyrrðinni á tjarnarbakkanum fannst mér það vera óður til lífsins og fegurðarinnar og ég grét.“

Helgina 24. og 25. maí voru fernir tónleikar í Tónstofunni, þar sem fram komu einleikarar, einsöngvarar, Bjöllukórinn, kammerkórinn Kórfélagið, hljómsveitin Bestu vinir, Klettadúettinn og dúettinn GÓ. Einnig var frumflutt nýtt tölvutónlistarverk. Tónleikarnir eru prófsteinn á færni og framfarir nemenda. Þeir eru haldnir til að gefa nemendunum tækifæri til að koma opinberlega fram, veita öðrum hlutdeild í því sem þau eru að gera og gleðjast saman, og til að kynna skólastarfið. Tónleikagestir vor ákaflega stoltir af sínu fólki og ánægðir með ótrúlegar framfarir nemendahópsins. 

29. maí voru haldnir einka-tónleikar fyrir tvo nemendur. Þeir tókust einnig mjög vel. Stórir sigrar voru unnir og mikil gleði ríkti hjá stórum hópi aðstandenda.

Síðasti kennsludagur Tónstofunnar á skólaárinu var 30. maí.

Lokaorð

Það er með gleði og þakklæti í hjarta fyrir velgengni, velvilja og ómetanlegan stuðning sem þetta yfirlit skólaársins 2013-2014 er skrifað. Um leið og lærdómur er dreginn af reynslu síðasta vetrar undirbúa aðstandendur skólans næsta skólaár. Þeir skipuleggja skóladagatalið, fara yfir nemendalista, skoða biðlista, ræða möguleg námsframboð við bættar aðstæður í nýju húsnæði sem heldur vel utanum starfsemina, o.s.frv. Það er von okkar að skólastarfið 2014-2015 verði jafn blómlegt og síðasta skólaárs; að vaxtarsprotar dafni, að nýjungar í starfseminni líti dagsins ljós og að enn fleiri tónelskir gleðigjafar fái notið sín í Tónstofunni.

Dr. Valgerður Jónsdóttir