TÓNSTOFA VALGERÐAR

Í Tónstofunni fer fram tónlistarkennsla fyrir nemendur sem vegna fatlana og eða sjúkdóma þurfa sérstakan stuðning. Tónstofan er eini tónlistarskólinn á landinu þar sem þessir einstaklingar njóta forgangs. Framvinda og markmið kennslunnar sem og kennsluaðferðirnar taka mið af forsendum, þörfum og óskum hvers einstaks nemanda. Nemandi í Tónstofunni getur lagt stund á hefðbundið tónlistarnám. Hann getur einnig notið fjölþættrar tónlistarkennslu og þjálfunar sem beinist að því að efla tónnæmi hans og tónlistarfærni, bæta líðan hans og veita sköpunarþörfinni útrás. Í þessu felst sérstaða Tónstofu Valgerðar um leið og hún fylgir þeim megin markmiðum sem eru skilgreind í aðalnámskrá tónlistarskóla og skólanámskrá Tónstofunnar. Forráðamenn Tónstofunnar og nemendur hennar þakka kærlega öllum þeim sem sýnt hafa Tónstofunni velvilja og stuðning á liðnum árum.