Framtíðarsýn


Regluverk Reykjavíkurborgar og úthlutun fjármuna er byggir á þjónustusamningi stjórnar rekstraröryggi Tónstofunnar líkt og annarra tónlistarskóla í Reykjavík. Þrátt fyrir velvilja yfirvalda hefur vöxtur Tónstofunnar verið hægur. Draumsýnin, sem byggir á jafnrétti til náms, lifði þó enn á þrítugs afmælisári skólans veturinn 2016 til 2017. Draumsýnin rúmar skóla sem skilgreina mætti sem listamiðstöð, þar sem boðið er upp á einstaklings- og hóptíma, kóra- og hljómsveitarstarf af ýmsu tagi, blandað listnám, rannsóknir og þróunarstarf. Skóla sem starfar í tengslum við aðra skóla, listamenn og listastofnanir hér á landi og erlendis.

Tónstofan hefur mótast af þeim sem til hennar leita; engum er vísað frá svo fremi að tímar séu lausir. Kenslan er sniðin að þörfum og þroska einstaklinga á öllum aldri eins og áður hefur komið fram. Fjölbreyttir kennsluhættir hafa að leiðarljósi að ná hámarksárangri og viðhalda áhuga og gleði nemendanna. Það er von okkar að unnið hafi verið gott starf í Tónstofunni og að svo verði áfram. Einstaklingurinn má aldrei týnast í umfangi starfsins.

Tónstofan hefur nú starfað í þrjátíu og fimm ár. Með Foreldra- og styrktarfélagið í fararbroddi var unnið að því að fá viðurkenningu menntamálaráðuneytisins á starfsemi Tónstofunnar. Sá áfangi náðist árið 2004 og er Tónstofan viðurkenndur tónlistarskóli. Við núverandi aðstæður geta um 130  nemendur sótt skólann. Það er von aðstandenda Tónstofunnar að í náinni framtíð verði hægt að koma til móts við alla þá sem óska eftir og þarfnast tónlistarsérkennslu. Til að það geti orðið þarf meðvitund um mikilvægi starfsins og virk samvinna og ábyrgð allra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu að aukast til hagsbóta fyrir skjólstæðinga skóla- og frístundasviða þeirra.

Fyrir hönd kennara og Foreldra- og styrktarfélags Tónstofunnar/Skólanefndar, þakkar undirrituð velgjörðafólki, styrktaraðilum, skólastjórnendum Klettaskóla, aðstandendum Öskju, Ás-styrktarfélagi, Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar sem og öllum nemendum Tónstofunnar og aðstandendum þeirra innilega fyrir gefandi og ánægjulega samvinnu á liðnum árum. 

Sem fyrr horfum við bjartsýn til framtíðar með einkunnarorðin að leiðarljósi: Vinátta, virkni og vellíðan.

Dr. Valgerður Jónsdóttir, skólastjóri og ábyrgðarmaður Tónstofu Valgerðar

10304434_10152400527208187_5045516953937484694_n.jpg