Jafnréttisáætlun Tónstofu Valgerðar
Samkvæmt 18. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla https://www.althingi.is/lagas/nuna/2008010.html skal endurskoða jafnréttisáætlanir á þriggja ára fresti. Starfsmenn Tónstofu Valgerðar eru færri en 25 því þarf skólinn ekki að setja sér aðgerðabundna jafnréttisáætlun þar sem fram kemur hvernig starfsmönnum eru tryggð þau réttindi sem kveðið er á um í 19.–22. gr. laganna. Óháð starfsmannafjölda þarf skólinn hins vegar að uppfylla 22. og 23. gr. laganna sem snúa að nemendum og eftir þeim upplýsingum hefur Jafnréttisstofa kallað. Greinarnar eru svohljóðandi að viðbættri þeirri 21.
21. gr. Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs.
· Atvinnurekendur skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera konum og körlum kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu. Ráðstafanir þær skulu m.a. miða að því að auka sveigjanleika í skipulagningu á vinnu og vinnutíma þannig að bæði sé tekið tillit til fjölskylduaðstæðna starfsmanna og þarfa atvinnulífs, þar með talið að starfsmönnum sé auðveldað að koma aftur til starfa eftir fæðingar- og foreldraorlof eða leyfi úr vinnu vegna óviðráðanlegra og brýnna fjölskylduaðstæðna.
22. gr. Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni.
· Atvinnurekendur og yfirmenn stofnana og félagasamtaka skulu gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni á vinnustað, stofnun, í félagsstarfi eða skólum.
· Ef yfirmaður er kærður vegna ætlaðs kynbundins ofbeldis, ætlaðrar kynbundinnar áreitni eða ætlaðrar kynferðislegrar áreitni verður hann vanhæfur til að taka ákvarðanir í tengslum við starfsskilyrði kæranda á meðan meðferð málsins stendur yfir og skal þá næsti yfirmaður taka slíkar ákvarðanir.
23. gr. Menntun og skólastarf.
· Kynjasamþættingar skal gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð í skóla- og uppeldisstarfi, þar á meðal íþrótta- og tómstundastarfi.
· Á öllum skólastigum skulu nemendur hljóta fræðslu um jafnréttismál þar sem m.a. skal lögð áhersla á að búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu, svo sem í fjölskyldu- og atvinnulífi.
· Kennslu- og námsgögn skulu þannig úr garði gerð að kynjum sé ekki mismunað.
Tónstofa Valgerðar var stofnuð 1987 til að bæta aðgengi fólks með sérþarfir að tónlistarnámi. Grundvallarmarkmið Tónstofunnar var þá og er enn í dag að draga úr ójöfnuði og hafa einstaklingar sem gætu þarfnast sérstaks stuðnings í námi sínu því forgang. Á þeim rúmum þrjátíu árum sem Tónstofan hefur starfað hefur hún reynt að standa vörð um þetta grundvallarmarkmið, því þó kveðið sé á um jafnrétti til náms í Aðalnámsskrá Tónlistarskóla (Almennur hluti, 2000 sjá hér að neðan) þá er skóli án aðgreiningar og inngilding ekki enn orðin að veruleika í íslensku samfélagi. Enn er það svo að nemendum sem þarfnast sérstaks stuðning í námi sínu er jafnvel vísað frá námi í öðrum tónlistarskólum þegar þeir uppfylla ekki kröfur um námsframvindu eða þegar einstaka kennara skortir þá sérþekkingu sem þarf svo nemandinn fái að blómstra. Aðalnámskráin sjálf er í mótsögn við sjálfa sig strax á fyrstu blaðsíðunum þegar rætt er um námsframvindu og námsmat. Í viðtali sem birtist í Mannlífi föstudaginn 4. október 2019 segir Dagbjört Andrésdóttir m.a.„“Ég upplifi ekki mikinn skilning á þessu (lesvanda vegna CVI – heilatengdrar sjónskerðingar), nemendur með sérþarfir eru fáir í tónlistarskólum. Og þó að skólinn sé allur af vilja gerður og kennararnir frábærir, eins og hjá mér, eru það ekki þeir sem setja reglurnar og verða að fara eftir reglum prófanefndar, sem sýnir mjög lítinn skilning. Ég hef þurft að berjast mjög mikið út af þessu. En söngurinn hefur styrkt sjálfsmyndina hjá mér mjög mikið, hún er ekki mjög mikil á öðrum sviðum nefnilega, og ég veit ekki hvar ég væri ef ég hefði ekki sönginn. Ég hefði örugglega bara verið lögð inn á geðdeild eða eitthvað,“ segir Dabjört og hlær.“
Gluggum í Aðalnámskrá tónlistarskóla:
„Hlutverk og meginmarkmið tónlistarskóla er að efla hæfni, þekkingu og þroska nemenda, sem og að stuðla að öflugu tónlistarlífi í landinu. Í skólastarfi tónlistarskóla ber að taka tillit til margbreytilegra áhugasviða nemenda, getu þeirra og þroska þannig að skólarnir þjóni öllum þeim sem sækjast eftir tónlistarnámi. Kennsluaðferðir og viðfangsefni skulu vera fjölbreytt og sveigjanleg.“ (Aðalnámskrá Tónlistarskóla, Almennur hluti, 2000:13)
„Kennsla beinist að því að hjálpa nemendum að öðlast þekkingu og skilning, að móta sér skoðanir og viðhorf og ná leikni á tilteknum sviðum. Kennsla miðar að því að nemendur nái þeim markmiðum sem að er stefnt. Í skólastarfi á að ríkja fjölbreytni í vinnubrögðum og kennsluaðferðum. Kennarar bera faglega ábyrgð á því að velja heppilegustu og árangursríkustu leiðirnar til að ná markmiðum aðalnámskrár og skólanámskrár. Við val á kennsluaðferðum og vinnubrögðum verður að taka tillit til markmiða sem stefnt er að, aldurs, þroska og getu nemenda sem í hlut eiga hverju sinni og eðlis viðfangsefnisins. Vönduð kennsla, sem lagar sig að markmiðum og nemendum, eykur líkur á árangri. Kennsluaðferðir og vinnubrögð í skólum verða að þjóna þeim markmiðum sem stefnt er að hverju sinni. Markmið tónlistarskóla eru margvísleg, allt frá markmiðum, sem varða afmarkaða þætti kunnáttu, leikni og viðhorfa, til langtímamarkmiða. Val á kennsluaðferðum og skipulag skólastarfs verður að miðast við að nemendur fái sem best tækifæri til náms og þroska. Kennslan verður að taka mið af þörfum og reynslu einstakra nemenda og efla með þeim námfýsi og vinnugleði. Kennsluaðferðir mega ekki mismuna nemendum eftir kynferði, búsetu, uppruna, litarhætti, fötlun, trúarbrögðum eða félagslegri stöðu.“ (Aðalnámskrá Tónlistarskóla, Almennur hluti, 2000:23)
Tónstofan er rekin með þjónustusamningi við Reykjavíkurborg og starfar í samræmi við mannréttindastefnu borgarinnar þar sem mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar liggja til grundvallar. Kennarar Tónstofunnar hafa kennsluréttindi og starfa samkvæmt siðareglum síns stéttarfélags. Í Siðareglum kennara stendur m.a. í 3. grein: „Kennurum ber að hafa jafnrétti allra nemenda að leiðarljósi í skólastarfi. Kennarar eiga að vinna gegn fordómum og mega ekki mismuna nemendum t.d. vegna kyns, þjóðernis eða trúarbragða.“
Í Tónstofunni ríkir jafnréttishugsjónin og eru mannréttindi í hávegum höfð á öllum sviðum. Gagnkvæm virðing ríkir í samskiptum og margbreytileikinn blómstrar án mismununar af nokkru tagi hjá nemendahópnum, forráðamönnum þeirra og starfsfólki af öllum kynjum.
Í skólanum á haustönn 2019 eru 136 nemendur og kynjaskiptingin 81 drengur og 55 stúlkur. Nemendur eru teknir inn af biðlista og ræður hvorki kyn né búseta inntöku þeirra í skólann heldur röðin á biðlistanum og sú staðreynd að gróflega má áætla að tvöfalt fleiri drengir en stúlkur séu með formlegar greiningar og þurfi stuðning til náms. Kynjasamsetning nemenda Tónstofunnar hefur ávallt speglast af þessari staðreynd.
Námsefni nemendahópsins er einstaklingsmiðað og stjórnar kynferði engu um framgang og námstilhögun heldur áhugasvið, færni og þau markmið sem stefnt er að hverju sinni í kennslunni. Markmið allra eru þau sömu að auka alhliða þroska og þekkingu, efla tónnæmi og tónlistarfærni, örva ímyndunaraflið og sköpunargleðina. Litur, lögun, stærð og gerð hljóðfæris er því aukaatriði og viðfangsefnin eins og áður segir ráðast af færni, áhugasviði og vilja nemandans sem kennurum ber að virða. Vilji nemandans og óskir foreldra ráða því einnig hvort nemandinn komi fram á tónleikum, taki þátt í hljómsveitarstarfi og öðru því sem skólinn býður upp á. Kennarinn hvetur nemandann til dáða svo fremi hann telji það styrkja sjálfsmynd viðkomandi og þjóna markmiðum námsins. Að mati undirritaðrar á kynjajafnrétti ekki að ráða neinu þar um. Foreldrar fylgja gjarnan yngri nemendum í kennslustundir. Í takt við samfélagið eru mæður þar í meirihluta. Kennslustundir eru opnar. Það þýðir að foreldrar geta setið í tímum hvenær sem þeir óska þess.
Sjö kennarar starfa við skólann. Tveir eru í fullu starfi og fimm í hlutastarfi og þar af er einn karlkyns kennari. Einn kennari er í fæðingarorlofi. Auglýst hefur verið eftir kennurum á netmiðlum. Um hverja auglýsta stöðu/starfshlutfall hefur umsækjandi því miður verið einn og hafa skólastjórnendur því ekki þurft að gera upp á milli umsækjenda. Ef sú staða kemur upp verður sá einstaklingur ráðinn sem mesta menntun og starfsreynslu hefur á sviði tónlistarsérkennslu. Launakjör starfsmanna ráðast af menntun og starfsreynslu eins og kveður á um í kjarasamningum Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum. Við ákvörðun launa skal þess gætt að kynjum sé ekki mismunað og skulu laun ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla.
Ábyrgð skólastarfsins er alfarið á höndum skólastjóra og skólanefndar skólans. Kennarar og skólastjórnendur hafa kynnt sér gögn send frá Jafnréttisstofu „Hvað er jafnréttisáætlun? Leiðbeiningar við gerð jafnréttisáætlunar.“ og glærur um aðgerðabundna jafnréttisáætlun. Gögnin vekja til umhugsunar en í skólastarfi Tónstofunnar hljóma þau fremur ankannalega.
Í kennslustundum leikum við okkur með söngtexta: „Hann fékk bók og hún fékk engu minna.“ „Eva átti dætur sjö, sjö dætur átti Eva.“ ... Í opnum kennslustundum fylgjast foreldrar af báðum kynjum með framförum barna sinna, fá ráðleggingar, gefa kennurum góð ráð í vandasamri kennslu og svona mætti lengi telja. Kennurum er jafnframt bent á að kynna sér hvað felst í kynferðislegri áreitni, að þekkja einkenni hennar og hvernig bregðast skuli við sé grunur um að á nemanda sé brotið eða ef kennarinn sjálfur verður fyrir áreitni eða ofbeldi af einhverju tagi. Undirrituð fullyrðir að starfsfólkið er meðvitað um það hvað felst í kynbundinni og kynferðislegri áreitni (líkamlegri, orðbundinni eða táknrænni) og kann að bregðast við ef upp kemur. Starfsfólk hefur trúnað skólastjórnanda og getur í hverri viku viðrað hug sinn allan og leitað ráða komi upp vandamál af einhverjum toga. Í Tónstofunni er einnig félagslegur trúnaðarmaður sem er trúnaðarmaður félagsmanna stéttarfélagsins á vinnustað (þar sem fjöldi félagsmanna er fimm eða fleiri). Hlutverk trúnaðarmans er aðallega að fylgjast með að farið sé eftir ákvæðum kjarasamninga og að réttur starfsmanna sé í hvívetna virtur á vinnustaðnum. Hann er tengiliður stéttarfélags og vinnustaðar og starfar í þágu félagsmanna stéttarfélagsins. Í kaffistofunni er talað opinskátt um líðan fólks í starfi. Kennarar sýna hver öðrum virðingu og vináttu, deila reynslu sinni, örva og hvetja í oft krefjandi kennslu.
Að svo miklu leyti sem mögulegt er skal nemendum Tónstofunnar ætið vera ljóst hver réttur þeirra er og hvert þeir geta leitað innan og utan skólans verði þeir fyrir áreitni eða ofbeldi. Orðræða og framkoma kennara við forráðamenn og nemendur byggir á gildum Tónstofunnar sem eru vinátta, virkni og vellíðan. Kennarar sýna nemendahópnum fyllstu virðingu og haga kennsluháttum sínum þannig að sem best gagnist nemendahópnum og þeim markmiðum sem unnið er að hverju sinni eins og áður hefur komið fram. Það er hvorki hlutverk tónlistarskóla að fræða nemendur um jafnréttismál né að búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu öðruvísi en að stefna markvisst að því að hver einstaklingur (af hvaða kyni sem er) nái hámarks færni í tónlistinni og geti þannig notið hennar og notið þess að tjá sig með henni sjálfum sér og öðrum til gagns og gleði.
Varðandi 21. grein laganna skal þess getið að vinnutími tónlistarkennara er kominn langt út fyrir það sem telst fjölskylduvænt vegna einsetningar skólanna. Margir hverjir geta ekki hafið kennslu fyrr en eftir hádegi og þurfa að kenna margar yfirvinnustundir á dag. Foreldrar vilja gjarnan að börn þeirra fái að stunda tónlistarnám innan hins hefðbundna skólatíma, sér í lagi yngri nemendur sem eru í grunnnámi á hljóðfæri sitt. Í samræmi við óskir Reykjavíkurborgar þar um hefur Tónstofan komið til móts við foreldra, kennara og og nemendahópinn og komið upp starfsstöðvum í grunnskólum og í frístundaheimilum. Nemendur eru þá teknir úr kennslustundum með samþykki skólastjórnenda, foreldra og kennara eða sækja tónlistartíma sína í frístundaheimili að loknum skóladegi. Þetta hefur gefist afar vel, nemendahópurinn sem nýtur þessa gengur óþreyttur til leiks og foreldrar spara kostnað og tíma.
Varðandi endurmenntun þá hefur sá háttur verið hafður á að öllum kennurum skólans stendur til boða að sækja þau námskeið sem skólinn skipuleggur. Kennarar eru einnig hvattir til að sækja námskeið á áhugasviði sínu utan veggja skólanas. Tónstofan leggur metnað sinn í að hafa hæft og ánægt starfsfólk. Kennarar skipuleggja sjálfir kennsluna í samráði við nemendahópinn og geta þannig hagrætt stundatöflu sinni eins og best hentar hverju sinni. Á starfsdögum að hausti eru allir kennarar hvattir til þess að kynna sér kjarasamninga og að afla sér upplýsinga um starfsskyldur sínar og kjarasamningsbundin réttindi, þar á meðal launakjör.
Ef einhvern meinbaug er að finna er lýtur að jafnrétti í Tónstofu Valgerðar þá er það sú óvissa er árlega fylgir rekstri skólans, óvissa er snertir hvern einstakan nemenda óháð kyni. Óvissa sem er tilkomin m.a. vegna skorts á jafnrétti fatlaðra til náms. Sveitarfélögunum er t.d. í sjálfsvald sett hvort þeir styðji nemendur sem eiga lögheimili utan kennslusveitarfélags (Tónstofan er í Reykjavík) til náms í skólanum. Á síðastliðnu skólaári 2018-2019 tók Hafnarfjarðarbær til dæmis upp á því að hætta stuðningi við nemendur sem væru orðnir tvítugir. Sú ákvörðun var ekki byggð á reglugerðum bæjarins og í huga undirritaðrar er klárlega verið að brjóta á jafnrétti þeirra nemenda sem fyrir þessari geðþóttaákvörðun urðu. Tónstofan stóð vaktina og kenndi þessum nemendum áfram launalaust. Stuðningur Reykjavíkurborgar lítur einnig geðþóttaákvörðunum en ekki raunhæfum viðmiðum byggðum á raunverulegum nemendastundum. Tónstofan getur t.d. ekki nýtt samkennslu til að auka nemendafjölda og bæta rekstrarstöðu sína líkt og aðrir skólar geta og gera. Hér er annað dæmi um mismunun og brot á jafnrétti. Hvort Tónstofan lifir eða deyr á næstu árum og þar með sú jafnréttishugsjón sem hún hefur haft að leiðarljósi ræðst af starfsþreki undirritaðrar en yfirbygging Tónstofunnar er engin (enginn aðstoðarskólastjóri, enginn ritari ...).
Tónstofan er lifandi samfélag einstakra nemenda og einvala kennara og sem slíkt í stöðugri framþróun. Virðing er borin fyrir einstaklingum sem til Tónstofunnar leita og starfsmönnum öllum og vakandi auga er haft með gildum skólans sem skipa mikilvægan sess í jafnréttisáætlun hans og baráttunni fyrir jafnrétti til náms.
Við gerð áætlunarinnar og í allri jafnréttishugsun skólans sem starfað hefur verið eftir á liðnum árum hefur m.a. verið stuðst við eftirfarandi:
· Heimasíða Jafnréttisstofu http://www.jafnretti.is/jafnretti/?D10cID=Page3&ID=252
· Lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla http://www.althingi.is/lagas/135b/2008010.html
· Mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar, sér í lagi 2. kafla gr. 2.2 um jafnrétti kynjanna hjá Reykjavíkurborg sem atvinnurekanda http://eldri.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/mannr_ttindaskrifstofa/skjol/Lokastefnan_endursko_u__-_tilb._fyrir_vef.pdf
· Siðareglur kennara https://www.ki.is/um-ki/stefna/sidareglur
· Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna http://www.barnasattmali.is/barnasattmalinn/barnasattmalinnheildartexti.html
· Lög um málefni fatlaðs fólks https://www.althingi.is/lagas/148c/1992059.html
· Menntastefna Reykjavíkurborgar til 2030 – Látum draumana rætast https://reykjavik.is/tilurd-menntastefnu-til-2030-latum-draumana-raetast
Ábyrgðarmaður Jafnréttisstefnu Tónstofu Valgerðar sem uppfærð var í september 2019 er dr. Valgerður Jónsdóttir, skólastjóri.