Tónlistarsérkennsla


Í tónlistarkennslu felst það markmið að kenna fólki að njóta og að nota tónlist sér og öðrum til gleði og ánægju. Grundvallarmarkmið kennslunnar er fagurfræðilegs eðlis. Kennslan felst í því að auka þekkingu á tónlist, efla tónnæmi og tónlistarfærni og hafa áhrif á viðhorf fólks til tónlistar.

Í tónlistarsérkennslu líkt og í hefðbundinni tónlistarkennslu er tónlistin aðalatriðið og nemandinn sem glímir við áskoranir af einhverju tagi er hvattur til virkrar þátttöku í tónlistartímum sem hafa að markmið að auka þekkingu hans og tónlistarfærni í samræmi við getu. Í sérkennslunni er námskráin einstaklingsbundin, sérsniðin að þörfum hvers og eins. Það þýðir að námsefnið, tilhögun námsins, aðferðafræðin og markmið kennslunnar eru löguð að óskum og getu hvers nemanda.

Nemendur með sérþarfir eru þeir einstaklingar sem víkja frá viðmiði um “eðlilegan” líkamlegan eða andlegan þroska að meira eða minna leyti og þarfnast því sérstakra kennslufræðilegra úrræða/nálgunar eða breyttra viðhorfa til námsframvindu. Námsvandi nemenda getur m.a. stafað af: Hreyfitruflunum, erfiðleikum við að samþætta skynáreiti, sjónskynjunarvanda, heyrnarskynjunarvanda, áskorunum er tengjast tjáningu, áskorunum er tengjast skertum vitsmunaþroska, áskorunum er tengjast minni, erfiðleikum er tengjast andlegri líðan.

Tónlistarkennsla, tónlistarsérkennsla, tónlistarsálfræði og músíkmeðferð eru greinar á sama meiði. Greinar sem nýta tónlist, fást við mannlega hegðun og sem skarast á ýmsa vegu. Kennsla getur haft meðferðargildi og í meðferð getur falist kennsla.  Músíkmeðferðarfræðingar reyna t.d. að hafa að leiðarljósi að allir þarfnast fagurfræðilegrar upplifunar og fyrir einstakling með sérþarfir getur velgengni eða árangursrík þátttaka í tónlist styrkt sjálfsmyndina svo dæmi sé tekið.

Hér fyrir neðan er tengill og niðurlag greinar um tónlistarsérkennslu. Ekki er vitað um höfund greinarinnar en hún kemur frá University of Wisconsin EauClaire. https://people.uwec.edu/rasarla/research/mtorg/adaptive_music/role_music.pdf

„If we believe a music education is a vital part of the general education of all children, then we must more actively advocate music education programs for special learners. This includes providing an equal opportunity aesthetic education through music that offers the same program options that are available to other children (i.e., classroom music instruction, instrumental lessons, and performance ensembles). The challenge to the music educator teaching special learners is in ensuring that the music experiences provided are not only appropriate to the individual abilities of that child, but faithful to accepted music education goals for all children as well.“

Í aðalnámskrá tónlistarskólas almennum hluta sem menntamálaráðuneytið gaf út árið 2000 segir meðal annars: https://www.menntamalaraduneyti.is/utgefid-efni/namskrar/adalnamskra-listaskola/

„Gildi tónlistarnáms er margþætt. Markvisst tónlistaruppeldi miðar að auknum þroska einstaklinga, þjálfar huga og eflir tjáningarhæfni nemenda. Auk þess veitir gott tónlistarnám lífsfyllingu og hefur víðtækt félagslegt gildi. Skólarnir þjóna breiðum hópi tónlistaráhugafólks á ýmsum aldri, jafnt þeim sem stunda námið sér til ánægju og þeim sem hyggjast leggja tónlistina fyrir sig. Mikilvægt er að tónlistarnám veki ánægju og örvi nemendur til að iðka tónlist og njóta hennar."

"Lögð er áhersla á sjálfstæði skóla. Í því skyni eru í aðalnámskrá tilmæli um að starfssvið tónlistarskóla skuli skilgreint í skólanámskrá þar sem fram komi markmið náms og fyrirkomulag skólastarfs í viðkomandi skóla. Við gerð skólanámskrár skal taka mið af stefnumörkun aðalnámskrár tónlistarskóla ásamt því að setja fram sérhæfð og staðbundin markmið einstakra skóla. Hlutverk aðalnámskrár tónlistarskóla er jafnframt að stuðla að víðsýni og sveigjanleika í kennsluháttum, svo og að hvetja til faglegrar og gagnrýninnar umræðu meðal tónlistarkennara um markmið og leiðir í kennslu. Námskránni er ætlað að hafa áhrif á námsframboð, kennslufyrirkomulag og námsmat í tónlistarskólum."

"Hlutverk og meginmarkmið tónlistarskóla er að efla hæfni, þekkingu og þroska nemenda, sem og að stuðla að öflugu tónlistarlífi í landinu. Í skólastarfi tónlistarskóla ber að taka tillit til margbreytilegra áhugasviða nemenda, getu þeirra og þroska þannig að skólarnir þjóni öllum þeim sem sækjast eftir tónlistarnámi. Kennsluaðferðir og viðfangsefni skulu vera fjölbreytt og sveigjanleg."

"Meginmarkmið tónlistarskóla skiptast í þrjá flokka: uppeldisleg markmið, leikni- og skilningsmarkmið og samfélagsleg markmið. Uppeldisleg markmið stuðla að auknum tilfinninga- þroska nemenda, listrænum þroska, mótun viðhorfa, samvinnu og ögun. Leikni- og skilningsmarkmið stuðla einkum að aukinni færni og þekkingu nemenda. Samfélagsleg markmið stuðla að þátttöku í fjölbreyttri mennta- og menningarstarfsemi."

"Lok náms í tónlistarskólum er því ekki unnt að binda við tiltekinn aldur."

"Kennsla beinist að því að hjálpa nemendum að öðlast þekkingu og skilning, að móta sér skoðanir og viðhorf og ná leikni á tilteknum sviðum. Kennsla miðar að því að nemendur nái þeim markmiðum sem að er stefnt. Í skólastarfi á að ríkja fjölbreytni í vinnubrögðum og kennsluaðferðum. Kennarar bera faglega ábyrgð á því að velja heppilegustu og árangursríkustu leiðirnar til að ná markmiðum aðalnámskrár og skólanámskrár. Við val á kennsluaðferðum og vinnubrögðum verður að taka tillit til markmiða sem stefnt er að, aldurs, þroska og getu nemenda sem í hlut eiga hverju sinni og eðlis viðfangsefnisins. Vönduð kennsla, sem lagar sig að markmiðum og nemendum, eykur líkur á árangri. Kennsluaðferðir og vinnubrögð í skólum verða að þjóna þeim markmiðum sem stefnt er að hverju sinni. Markmið tónlistarskóla eru margvísleg, allt frá markmiðum, sem varða afmarkaða þætti kunnáttu, leikni og viðhorfa, til langtímamarkmiða. Val á kennsluaðferðum og skipulag skólastarfs verður að miðast við að nemendur fái sem best tækifæri til náms og þroska. Kennslan verður að taka mið af þörfum og reynslu einstakra nemenda og efla með þeim námfýsi og vinnugleði. Kennsluaðferðir mega ekki mismuna nemendum eftir kynferði, búsetu, uppruna, litarhætti, fötlun, trúarbrögðum eða félagslegri stöðu."

 

Í ljósi reynslunnar og með velferð skynsegin einstaklinga í huga voru eftirfarandi athugasemdir gerðar við drög að aðalnámskrá Tónlistarskóla, almennur hluti 2024 sem kynnt var í samráðsgátt stjórnvalda.

Undirrituð fagnar því að hafin sé endurskoðun aðalnámskrár tónlistarskóla, en telur að athugasemdir um almenna hlutann séu ómarkvissar án samhliða endurskoðunar greinanámskráa.

Í inngangi almenns hluta (líkt og í inngangi þeirrar gömlu) er fjallað um hlutverk og meginmarkmið tónlistarskóla sem á að vera m.a.: að efla hæfni, þjálfa huga, efla tjáningarhæfni nemenda, veita lífsfyllingu, efla  þekkingu og þroska, miðla tónlistarþekkingu og að stuðla að öflugu og fjölbreyttu tónlistarlífi í landinu.

Námið á jafnframt að vera fyrir þá sem stunda það sér til ánægju sem og fyrir þá sem hyggjast leggja tónlistina fyrir sig. Því beri að taka tillit til margbreytilegra áhugasviða nemenda, getu þeirra og þroska þannig að skólarnir þjóni öllum þeim sem sækjast eftir tónlistarnámi. Kennsluaðferðir og viðfangsefni skulu vera fjölbreytt og sveigjanleg eins og segir í grein 1.2.

Aðalnámskrá á að samræma helstu þætti tónlistarnáms, bæði milli skóla og innan einstakra skóla, en um leið hvetur hún til þess að skólar setji fram sérhæfð og staðbundin markmið í skólanámskrá og er það vel því meðvitund skólastjórnenda um vald- og heilsueflandi áhrif tónlistarnáms eykst ár frá ári.                                                                                                                                                                            

Líkt og í gömlu aðalnámskránni má finna mótsagnir í þessum drögum.

Sjá grein 3 Skipan tónlistarnáms en þar segir: „ Nám í tónlistarskólum skiptist í þrjá megináfanga: Grunnnám, miðnám og framhaldsnám. … Skipting á stig er þó sveigjanleg þar sem nemendur hefja tónlistarnám á ýmsum aldri og námshraði getur verið mismunandi. Því er hvorki hægt að binda upphaf né lok náms samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla við tiltekinn aldur.“  

Ef tónlistarnám á að vera fyrir alla er ekki réttlætanlegt að setja stigskiptingu námsins fram með þessum hætti. Undirrituð fagnar setningunni um að „skipting á stig sé sveignaleg þar sem nemendur hefja tónlistarnám á ýmsum aldri og námshraði getur verið mismunandi. Því er hvorki hægt að binda upphaf né lok náms samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla við tiltekinn aldur.“ (grein3).

Athugasemdir við grein 4 skólanámskrár.

„Við gerð skólanámskráa er tónlistarskólum ætlað að taka mið af stefnumörkun og markmiðum aðalnámskrár tónlistarskóla sem eru: Uppeldisleg, leikni- og skilningsmarkmið og samfélagsleg markmið.

Í greinanámskrám eru skilgreind markmið og lýst lágmarkskröfum sem gerðar eru til nemenda við lok grunnnáms, miðnáms og framhaldsnáms. Í skólanámskrá eiga svo skólarnir að greina frá því m.a. hvernig skólinn hyggst skipuleggja nám og kennslu til að tryggja að nemendur standist þessar kröfur.

Hér er falin mótsöng/mótsagnir líkt og í gömlu aðalnámskránni sem og í grein 3 hér að framan.  Ef tónlistarnám á að vera fyrir alla, ef jöfnuður og inngilding á að ríkja í tónlistarskólakerfinu þarf að taka niður allar girðingar. Það er ekki nóg að rétta nemendum hækjur, stækkunargler, eða að byggja undir þá kassa svo að þeir standi jafnfætis öðrum og sjái yfir girðinguna. Ef einstaklingurinn á að fá að njóta sín í náminu þurfa kröfur sem til hans eru gerðar að byggjast á færni, áhugasviði og framförum nemandans sjálfs en ekki skilgreindum markmiðum / lágmarkskröfum sem gerðar eru til nemenda við lok grunnnáms, miðnáms og framhaldsnáms!

Grein 5, Kennsla og kennsluhættir.

Í þessari grein er frábært að lesa „Val á kennsluaðferðum og skipulag skólastarfs verður að miðast við að allir nemendur fái sem best tækifæri til náms og þroska.“  …

Í málsgreininni um faglega þekkingu tónlistarkennara, er talað um hæfni þeirra til að velja kennsluaðferðir og áhugaverð viðfangsefni til notkunar í skólanum.  Áhugahvöt nemenda er afar mikilvæg og hana má efla eða brjóta með réttri eða rangri nálgun er tengist viðhorfum og hlutverki kennarans. Hvernig er hægt að tryggja hæfni og þekkingu tónlistarkennara? Mætti setja í aðalnámskrána hæfniviðmið fyrir kennara? Hver væru hæfniviðmiðin?  Gæti aðalnámskráin verið leiðbeinandi fyrir LHÍ, sem tæki mið af lágmarks hæfniviðmiðum kennara og legði sitt af mörkum til að efla þekkingu og færni kennaraefna svo þau yrðu bæði hæf og áhugasöm um að sníða kennsluhætti sína og viðhorf að hverju einstöku músíkbarni? 

Grein 6, Þættir í hljóðfæra og tónfræðanámi.

Hér þarf að huga að orðnotkun. Hvað er átt við  með viðunandi? „Mikilvægt er að yfirferð verkefna í hverjum námsáfanga sé viðunandi áður en hugað er að áfangaprófi.“

Að mati undirritaðrar, sem byggir á áratuga reynslu af kennslu nemenda með fatlanir á öllum aldri er stunda tónlistarnám sér til  heilsueflingar, til að þjálfa huga og hönd, til að efla þekkingu og þroska, til að veita lífsfyllingu og til að gera þeim kleift að vera sýnileg í samfélaginu, færi best á því í uppfærðri og nútímalegri aðalnámskrá tónlistarskóla sem byggir á jöfnuði, jafnrétti og inngildingu að skilgreina strax í upphafi tvær námsleiðir:

A. Þá sem styðst við hefðbundna námsframvindu (ef hún er til) sem mæld er og samræmd í grunnnámi, miðnámi og framhaldsnámi … og 

B. Þá sem styðst við einstaklingsmiðaða námsframvindu er kemur til móts við áhugasvið og færni hvers einstaks nemanda og sem skilgreind er í skólanámskrá viðkomandi skóla.  Þannig væri hægt að komast hjá öllum mótsögnum, skilgreina betur ábyrgð skólanna, hlutverk skólanámskráa og fleira.

Grein 8, Námsmat í tónlistarskóla

Í grein 8.4 stendur:

„Námsmat þarf að taka tillit til sérþarfa nemenda og sértækra námsörðugleika þeirra.“ Hér mætti bæta við  sem og til valinnar námsleiðar… aðstoð og munnlegu námsmati og jafnvel með niðurfellingu prófa/matsþátta.

Í grein 8.5 stendur:

„Suma námþætti hentar að meta með prófum  … Annars konar aðferðir kunna að henta mun betur þegar meta þarf aðra þætti námsins. … „ Svo segir:        

„Formlegt mat á námsárangri fer fram með prófum.“

Formlegt mat á námsárangri þarf ekki endilega að fara fram með prófum ef gæta á fulls jafnréttis og hafa inngildingu að leiðarljósi. Hér þvælast mótsagnirnar enn fyrir!

Greinar 8.6  til 8.11 eiga ekki við (nema í einstaka undantekningartilvikum) um einstaklinga sem í  tónlistarnámi sínu styðjast við einstaklingsmiðaða námsframvindu sem kemur til móts við áhugasvið og færni hvers einstaks nemenda (námsleið 2).

Í grein 14.2 stendur.

„Þegar nemandi hefur náð sjálfræðisaldri er einungis heimilt að veita honum sjálfum, eða þeim sem nemandinn veitir skriflegt umboð, persónulegar upplýsingar úr gagnasafni skólans.“

Gerð er athugasemd við skriflegt umboð. Í þeim tilfellum sem nemandi getur ekki gefið skriflegt umboð þarf að vera heimild ( í samræmi við persónuverndarlög) til að veita forráðamönnum eða öðrum umsjáraðilum viðkomandi nemanda heimild til að taka við persónugreinanlegum upplýsingum úr skólastarfinu.

Greinar 15.3 og 15. 4  mætti samræma í eina grein sem heitir Móttaka nýrra nemenda. Í jafnréttissamfélagi á það sama að gilda um alla! Enginn er annars eðlis og allir hafa sömu þörf fyrir upplýsingar og tækifæri til að upplýsa í þágu jákvæðrar skólagöngu barna sinna.

Tónlistarskólum ber að fylgja móttökuáætlun, sinni eigin eða sveitarfélagsins. Móttökuáætlun gegnir því hlutverki að … 

Eins og áður segir þurfa allir foreldrar/allir nemendur að fá og eiga auðvitað að fá góða kynningu á skólanum hvort sem þeir eru með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn, eiga barn með skilgreinda fötlun, barn með sérstakar stuðningsþarfir, sjúkdóma eða annað. Upplýsingar um mögulegar námsleiðir, starfshætti skólans, hlutverk foreldrafélags og skólanefndar, tilhögun ytra- og innra mats, o.fl. … eiga að vera aðgengilegar fyrir alla.

 

Það er margt gott í þessum drögum að nýrri aðalnámskrá tónlistarskóla, en hún þarf að hafa að leiðarljósi strax frá fyrstu blaðsíðu og í öllum undirgreinum sínum að við störfum í samræmi við lög og dönsum ekki öll í takt. Fögur fyrirheit duga skammt og koma ekki í veg fyrir mótsagnir og mismunun nema við skilgreinum af virðingu ólíkar námsleiðir.

 

Virðingarfyllst,

Dr. Valgerður Jónsdóttir

Tónstofu Valgerðar