Foreldra- og styrktarfélag Tónstofu Valgerðar

Stofnun Foreldra- og styrktarfélags Tónstofu Valgerðar

IMG_20170528_0001.jpg

Foreldra- og styrktarfélag Tónstofu Valgerðar var stofnað haustið 2000. Meginmarkmið þess var að efla Tónstofuna og stuðla að því að hún yrði sjálfstæður tónlistarskóli sem nyti sömu fyrirgreiðslu og aðrir tónlistarskólar en þar sem nemendur með sérþarfir hefðu forgang. Í því sambandi vísar félagið til laga um tónlistarskóla og laga um jafnrétti fatlaðra til náms. Staðreyndin er sú að í Tónstofunni hafa verið nemendur sem ekki hafa átt greiðan aðgang að tónlistarskólum landsins og nemendur sem vísað hefur verið frá námi þegar sýnt þótti að þeir uppfylltu ekki kröfur um námsárangur eða þegar einstakir kennarar gáfust upp af því að sérþekkinguna skorti.

Valgerður Jónsdóttir hefur unnið einstakt og ómetanlegt brautryðjandastarf á þeim árum sem liðin eru frá því Tónstofa hennar tók til starfa (1986). Þar hefur hún og samkennarar annast kennslu nemenda með mjög mismunandi fatlanir og náð ótrúlegum árangri eins og allir geta borið um sem hlýtt hafa á nemendatónleika Tónstofunnar. Námið er aðlagað þörfum og þroska hvers einstaklings. Þeir einstaklingar sem hér um ræðir eiga sér ekki volduga talsmenn. Því er brýnt að allir áhugamenn taki höndum saman og standi vörð um Tónstofu Valgerðar og þá starfsemi sem þar fer fram.

Félagsgjöld og styrktarfé sem félagið aflar hefur meðal annars verið nýtt til kaupa á hljóðfærum svo sem flygli, píanói, hljómborði og ásláttarhljóðfærum. Einnig styrkti félagið kaup á stólum í húsnæðið á Stórhöfða og kaup á myndavél sem nýtist á tónleikum og við kennslu. Félagsgjöld innheimtast að vori en greiðsla þeirra er valfrjáls.

Foreldrafélagið hefur einnig umsjón með Styrktar- og minningarsjóði Bjöllukórs Tónstofu Valgerðar sem stofnaður var í minningu Kára Þorleifssonar sem lést 16. mars 2011. Kári var einn af meðlimum Bjöllukórsins og nemandi Tónstofunnar til margra ára. Frumkvöðlar að stofnun sjóðsins voru foreldrar Kára, þau Þorleifur Hauksson og Guðný Bjarnadóttir. Sjóðurinn er í vörslu Foreldra- og styrktarfélags Tónstofunnar og aflar fjár með minningargjöfum. Markmið Styrktarsjóðsins er að styðja við og efla starfsemi Bjöllukórsins og Tónstofunnar. Minningarkort eru send í gegnum heimasíðu Tónstofunnar https://tonstofan.is/styrktarsjodur/

Tuttugu og fimm ára afmælisfundur Foreldra- og styrktarfélags Tónstofu Valgerðar, sem jafnframt var aðalfundur, var haldinn þriðjudaginn 11. nóvember 2025. Við það tækifæri var eftirfarandi tala flutt.

Tónstofa Valgerðar var stofnuð árið 1986. Að stórum hluta má þakka það Steinunni Finnbogadóttur heitinni, þáverandi forstöðukonu Dagvistar Sjálfsbjargar en hún tók undirritaðri af mikilli ljúfmennsku þegar bankað var upp á til að kynna tónlistarsérkennslu og músíkmeðferð. Má segja að fyrir hennar tilstuðlan hafi sú ákvörðun verið tekin að hefja sjálfstæða starfsemi (skólaárið 1986-1987). Tvö ungmenni í hennar forsjá urðu fyrstu nemendur Tónstofunnar.

Steinunn sem lést árið 2016 var velgjörðakona Tónstofunnar og verðum við henni ævinlega þakklát fyrir þann hlýhug sem hún sýndi og þá trú sem hún hafði á mikilvægi tónlistar til að þroska og til að bæta lífsgæði fólks. 

Haustið 1987 eignaðist Tónstofan annan velgjörðarmann þáverandi skólastjóra í Tónmenntaskóla Reykjavíkur Stefán Edelstein.

Frá 1987 til ársins 2000 starfaði Tónstofan í samvinnu við Tónmenntaskólann þar sem byggð var upp sérdeild fyrir nemendur sem þurftu sérstakan stuðning.

Starfshættir voru þannig að nemendurnir sóttu tíma sína í Tónstofunni og voru því miður aldrei sýnilegir í Tónmenntaskólanum. Fljótlega mynduðust langir biðlistar eftir skólaplássi og því var þörf á að fjölga kennurum og stækka deildina. Stækkun sérdeildar samræmdist ekki framtíðarsýn Tónmenntaskólans á þeim tíma og samstarfinu lauk.

Reynsla þessara ára hafði sannað mikilvægi tónlistarkennslunnar fyrir nemendahópinn. Bjartsýnir og baráttuglaðir foreldrar tóku því höndum saman haustið 2000 og stofnuðu Foreldra- og styrktarfélag Tónstofunnar sem í dag gegnir einnig hlutverki skólanefndar.

Með lög um málefni fatlaðra, reglugerðir og aðalnámskrá tónlistarskóla í farteskinu hófst barátta fyrir jafnrétti til náms. Barist var fyrir breyttu viðhorfi er bryti múra mismununar og stuðlaði að jafnrétti. Markmiðið var að Tónstofan yrði formlega viðurkennd sem tónlistarskóli með rekstrarleyfi og þjónustusamning við Reykjavíkurborg líkt og aðrir tónlistarskólar í borginni.

Og sannarlega þurfti að breyta viðhorfum fólks á þessum tíma. Bréfaskriftir, greinaskrif og fundahöld skiluðu loks árangri og Tónstofan fékk sinn fyrsta þjónustusamning við Fræðslumiðstöð Reykjavíkur (nú skóla- og frístundasvið) undirritaðan í mars 2002.

Baráttunni var haldið áfram og til að gera langa sögu stutta þá fengum við samþykki menntamálaráðuneytisins á rekstri Tónstofunnar sem tónlistarskóla samkvæmt lögum nr. 75/frá 1985, í ágúst 2004.

Hjartanlega til hamingju með afmælið og hjartans þakkir fyrir ómetanlegan stuðning á liðnum árum.

 

Skólanefndin

Þorleifur Hauksson, sem var einn af stofnmeðlimum félagsins, lét af starfi ritara á aðalfundi þess sem haldinn var mánudaginn 13. nóvember 2017. Við þökkum honum innilega fyrir framúrskarandi ritarastörf, velvilja, stuðning og elskusemi alla á liðnum árum.  

Foreldra- og styrktarfélag Tónstofu Valgerðar gegnir hlutverki skólanefndar. Í henni sitja skólaárið 2025-2026:
Rut Ríkey Tryggvadóttir, formaður
Gerður Steinþórsdóttir, varaformaður
Gunnhildur Gísladóttir, gjaldkeri
Jóhanna Andrea Jónsdóttir, meðstjórnandi,
Ottó Leifsson, meðstjórnandi Karlotta Jóna Finnsdóttir, meðstjórnandi
Valgerður Jónsdóttir, fulltrúi kennara

Endurskoðendur:
Sigurjón P. Högnason
Ásthildur Gyða Torfadóttir


Lög Foreldra- og styrktarfélags Tónstofu Valgerðar

1. gr. Félagið heitir Foreldra- og styrktarfélag Tónstofu Valgerðar.   Lögheimili  og varnarþing félagsins er í Reykjavík. Stjórn félagsins   gegnir hlutverki skólanefndar Tónstofu Valgerðar.

2. gr. Markmið félagsins er að vera stuðningsaðili í öllu starfi skólans.

3. gr. Markmiðum sínum hyggst félagið ná með því að:                                             
a. Veita skólastjórnendum aðhald og hollráð í innra og ytra starfi skólans.     
b. Stuðla að kynningu á starfsemi skólans.                                                             
c. Efla samkennd meðal nemenda og foreldra/forráðamanna.

4. gr. Í félaginu eru lögráða nemendur og foreldrar/forráðamenn ólögráða nemenda Tónstofunnar. Virkir félagsmenn eru þeir sem greiða félagsgjald. Virkir félagsmenn hafa atkvæðisrétt á aðalfundi Foreldra- og styrktarfélagsins. Velunnarar Tónstofunnar sem vilja leggja starfinu lið geta einnig orðið félagsmenn (óvirkir eða virkir).

5. gr. Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Hann skal haldinn í október/nóvember árlega. Aðalfund skal boða rafrænt með a.m.k. viku fyrirvara. Fundurinn telst lögmætur sé rétt til hans boðað. Dagskrá aðalfundar tekur mið af almennum lögum um fundarsköp.

6. gr. Stjórn félagsins skal kjörin á aðalfundi til eins árs í senn. Hún skal skipuð sjö mönnum. Stjórnin skiptir með sér verkum. Reikningsár félagsins er frá 1. ágúst til 31. júlí.

7. gr. Félagsgjald er valfrjálst. Upphæðin ákvarðast á aðalfundi og innheimtist að vori. Stjórnin sér um fjáröflunarleiðir fyrir félagið.