25. starfsár Tónstofunnar, veturinn 2011-2012

Fyrsti kennsludagur haustannar 2011 var 1. september.
Sjötíu nemendur voru skráðir í skólann í upphafi annarinnar.

Samstarfið við Öskjuhlíðarskóla/Klettaskóla hélt áfram okkur til mikillar ánægju. Við fengum til eigin afnota kennslustofuna Höfða á lóð skólans. Í vetur kenndi Jóna Þórsdóttir í Höfða mánudaga, miðvikudaga, fimmtudaga og föstudaga fyrir hádegi. Hún er mjög ánægð með aðstöðuna. Tónstofan keypti hljóðfæri af ýmsu tagi til að hafa í Höfða og hafa hljóðfærin vakið mikla hrifningu að sögn Jónu. Tuttugu og þrír nemendur Tónstofunnar sóttu tíma sína í Höfða.

Til að auðvelda rekstur Tónstofunnar og til að fyrirbyggja misskilning sem oft hefur komið upp varðandi skólagjöldin, lagði skólanefndin til að dregið yrði úr sveigjanlegu innheimtufyrirkomulagi liðinna ára og að kennslugjöldin yrðu innheimt með fjórum jöfnum greiðslum á gjalddögunum: 1. október, 1. desember, 1. febrúar og 1. apríl.  Jafnframt voru kennslugjöld skólaársins 2011-2012 hækkuð um 15%, en þau hafa verið óbreytt í fjöldamörg ár.

 • Bjöllukórinn fór í æfingabúðir að Sólheimum í Grímsnesi helgina 10. til 11. september. Þar leið okkur mjög vel. Við æfðum í kirkjunni, gengum um svæðið með leiðsögn og skoðuðum listasmiðjur, borðuðum góðan mat, hvíldumst vel, lékum okkur og lékum við guðsþjónustu.

 • Þriðjudaginn 11. október lék Bjöllukórinn við afhendingu Kærleikskúlunnar 2011, í Listasafni Reykjavíkur. Það var spennandi að fá að leika fyrir Yoko Ono. Leifur Leifsson er handhafi Kærleikskúlunnar 2011.

 • Mánudaginn 7. nóvember varði undirrituð doktorsritgerð sína við Aalborg Universitet. Heiti rannsóknarinnar er „Music-caring within the framework of early intervention. The lived experience of a group of mothers of young children with special needs, participating in a music therapy group“ (Á íslensku Tónræn umönnun). Að loknum klukkutíma fyrirlestri var 90 mínútna fyrirspurnartími frá þremur andmælendum og í framhaldi af því var spurningum svarað frá áheyrendum úr sal. Viðfangsefni rannsóknarinnar byggði á tuttugu ára starfsreynslu undirritaðrar sem músíkþerapista í Tónstofu Valgerðar og á Barna- og unglingageðdeildinni.

 • Sunnudaginn 27. nóvember lék Bjöllukórinn í aðventuguðsþjónustu í Laugarneskirkju.

 • Laugardaginn 10. desember voru tvennir jólatónleikar haldnir í kirkju Óháða safnaðarins, þar sem fram komu á fjórða tug nemenda.

 • Sunnudaginn 11. desember lék Bjöllukórinn ásamt söngkonunni Möggu Stínu, „Hátíð fer að höndum ein“ og „Nóttin var sú ágæt ein“ í Ráðhúsinu við opnun Jólaskógar.

 • Fimmtudaginn 15. desember voru jólatónleikar Tónstofunnar í Klettaskóla.

 • Sunnudaginn 18. desember lék Bjöllukórinn á jólaballi nemendafélagsins Tuma í Kennaraháskólanum.

 • Bjöllulkórinn ásamt hljómsveitinni Retro Stefson lék við opnun Listar án landamæra 18. Apríl, 2012.

 • Við héldum tónleika í Hörpuhorninu 5. maí á vegum Listar án landamæra. Á tónleikunum komu fram nokkrir af nemendum Tónstofunnar. Bjöllukórinn, einleikarar og söngvarar fluttu íslensk og erlend þjóðlög, dægurlög og klassíska tónlist. Á tónleikunum fengum við til liðs við okkur nemanda úr tónskóla Sigurðar Demetz, Álfheiði Erlu Guðmundsdóttur sem einnig lék með bjöllukórnum í forföllum Arnbjargar Jónsdóttur. Álfheiður Erla ásamt Gísla Björnssyniflutti lagið Hjá lygnri móðu eftir Jón Ásgeirsson.

 • Tuttugasta maí voru tvennir tónleikar í kirkju Óháða safnaðarins.

 • Í Klettaskóla voru vortónleikar 21. maí.

 • Laugardaginn 9. júní hélt Tónstofan tónleika á Sólheimum í Grímsnesi. Þar lék Bjöllukórinn ásamt einleikurum við góðar undirtektir. Við þökkum Lárusi Sigurðssyni kærlega fyrir að bjóða okkur að leika á Sólheimum og að ljúka þannig afmælisárinu okkur.

Unnið er að upptökum á geisladiski með verkefnum Bjöllukórsins og til liðs við okkur sem listrænan ráðunaut og meðleikara höfum við fengið Gunnar Gunnarsson. Svo þið sjáið að skólastarfið er blómlegt þó við sleppum því að nefna allt það sem gerist í kennslustundunum sjálfum.  

Tónstofan lýkur nú sínum 25. starfsvetri.  Ég þakka innilega öllum sem styrkt hafa okkur í gegnum árin með fjárframlögum, gjöfum allskonar, hvatningu og góðum hug. Á þessum starfsvetri fengum við styrki frá Lionsklúbbnum Þór, frá Súsönnu Ernst Friðriksdóttur, Maríu Einarsdóttur og Ólafi Jónssyni og hirslur frá Maríu Gunnarsdóttur og Herði Kristjánssyni. Ég vil einnig þakka séra Pétri fyrir afnot af kirkjunni til tónleikahalds ogstjórnendum í Klettaskóla fyrir þann velvilja að leyfa Tónstofunni að hafa útibú í skólanum. Það hefur í vetur auðveldað 23 nemendum að sækja tónlistarnámið. 

Í lok vorannar stunduðu 74 einstaklingar á öllum aldri nám í Tónstofunni sem bara vex, því að í maí mánuði hófu fjórir nemendur frá Lyngási að leika í Tónstofunni. Við höfum ásláttarsveit, lítinn kammerkór, bjöllusveit, ungafólkið frá Lyngási sem enn kannar hljóðfærasafnið og fljótlega bætist í hljóðheiminnokkar strengjahljóðfæri frá Sólheimum sem Lárus Sigurðsson er að smíða fyrir okkur.

Við vonum að skólastarf næsta vetrar verði með svipuðum hætti þó breytingar séu í farvatninu hjá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar. Gera á nýja þjónustusamninga við tónlistarskólana og ekki er vitað á þessari stundu hvaða áhrif það mun hafa á starfsemina. En við erum bjartsýn, vonum það besta og að skólinn fái að vaxa hægt en örugglega eins og hann hefur gert í þau 25 ár sem hann hefur starfað. Það væri óskandi að allir sem eru á biðlista kæmust í tónlsitarnám.

Kæru nemendur og vinir við Jóna þökkum ánægjulegar samverustundir á þessu skólaári, og óskum ykkur gleðilegs sumars.