28. starfsár Tónstofunnar, veturinn 2014-2015

Tónleikar Dolce Handbell Choir frá Kuopio Finnlandi, þriðjudaginn 12. ágúst 2014 settu tóninn fyrir nýtt skólaár. Þennan kór heimsótti svo Bjöllukór Tónstofunnar í apríl 2015. 

Skólaárið fór rólega en vel af stað. Nemendum fjölgaði enn á milli ára og í upphafi haustannar voru 114 nemendur skráðir í skólann. Bjöllukórinn, sönghópurinn, hljómsveitin og nýir og gamlir nemendur á öllum aldri fylltu stofur á Stórhöfða og skólastofuna Höfða á lóð Klettaskóla með leikgleði sinni líkt og undanfarin ár.

Svæðisþing tónlistarskóla á höfuðborgarsvæðinu var haldið í Nauthól, föstudaginn 19. september 2014. Ályktun frá þingunum sem voru sex talsins og haldin um allt land hvetur ráðamenn til að horfa heildstætt á allar þær stofnanir sem mynda innviði menntakerfis þjóðarinnar. Í ályktuninni segir: "Framsækin og metnaðarfull stefnumörkun í mennta- og menningarmálum á Íslandi krefst heildarframkvæmdar eigi markmið hennar að ná fram að ganga. Í ávarpi sínu á lokahátið Nótunnar 2014 lét Mennta- og menningarmálaráðherra, Illugi Gunnarsson þau orð falla "að uppbygging tónlistarskólakerfis um land allt hafi verið ein af þeim ákvörðunum sem hefur reynst þjóðinni afskaplega góð og heilladrjúg. ... fyrir svo margra hluta sakir." "Tónlistarskólakerfið á Íslandi vekur víða athygli hvort sem er vegna gæða, útbreiðslu þess eða víðtæks hlutverks á sviði lista, mennta-, menningar- og samfélagsmála." "Gerum ekki þau mistök að horfa fram hjá þeim auðlindum sem eru til staðar í samfélaginu, hér vísum við til tónlistarskólakerfis landsins, og geta gert Íslendingum kelift að skapa sér sérstöðu á sviði mennta- og menningarmála."„Við skorum á sveitarfélögin í landinu að mismuna ekki félagsmönnum Kennarasambands Íslands í launum eftir því í hvernig skólagerð þeir starfa. Tónlistarskólakennarar og stjórnendur tónlistarskóla, sem telja um 5% félagsmanna Kennarasambands Íslands, hafa verið samningslausir í tæpa níu mánuði. Við hvetjum ráðamenn til að sýna samkvæmni og sanngirni og ganga nú þegar frá kjarasamningum við þann litla hóp félagsmanna KÍ sem enn hefur ekki verið samið við. Við þurfum öll hvert á öðru að halda - jafnrétti í launasetningu er okkar krafa.“

Var kennsla nemenda með reglubundnum hætti allt fram að verkfalli kennara í FT sem hófst 22. október 2014. Tuttugasta og fimmta nóvember sungum við svo gleðisöngva í Tónstofunni þegar verkfallinu var aflétt og tónlistarskólarnir hófu störf á ný eftir fimm vikna verkfall.

Foreldra- og styrktarfélag Tónstofunnar sem einnig gegnir hlutverki skólanefndar hélt aðalfund sinn 27. október 2014. Fráfarandi stjórn gaf öll kost á sér áfram. Skoðunarmenn reikninga Anna Björg Halldórsdóttir og Sigurjón Högnason voru einnig endurkjörin. Fundurinn var vel sóttur af foreldrum. 

Bjöllukórinn lék við afhendingu Kærleikskúlunnar í Listasafni Reykjavíkur miðvikudaginn 3. desember 2014. Á fréttavefnum Vísir.is má lesa: "Mandarína eftir Davíð Örn Halldórsson er Kærleikskúla ársins 2014. Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra selur Kærleikskúluna til styrktar Reykjadal en þar dvelja fötluð börn og unglingar í sumarbúðum og um helgar yfir veturinn. Þetta er í tólfta sinn sem Styrktarfélagið selur kúluna. Handhafar Kærleikskúlunnar í ár eru systurnar Snædís Rán og Áslaug Ýr Hjartardætur. Þær hafa verið virkar í réttindabaráttu fatlaðs fólks, skrifað greinar, komið fram í fjölmiðlum og notað samfélagsmiðla til að vekja athygli á baráttu sinni. Þannig hafa þær verið öðru fötluðu fólki mikilvæg hvatning og fyrirmyndir og eiga án efa eftir að verða enn öflugri á næstu árum."

Bjöllukórinn var handhafi kærleikskúlunnar árið 2010, og hefur á þessum vettvangi m.a. leikið fyrir Yoko Ono sem lagði fötluðum börnum og ungmennum mikilvægt lið með því að "skreyta" kærleikskúlu ársins 2011 sem ber heitið "Hannaðu þinn heim". 

Vegna verkfallsins var í stað hefðbundinna jólatónleika haldnar jólasöngstundir í Tónstofunni. Söngstundirnar voru vel sóttar og tókust mjög vel. Héðan í frá verða þær væntanlega viðbót við hefðbundna jólatónleika. 

Á jólum naut Tónstofan gjafmildi Súsönnu Ernst Friðriksdóttur enn á ný. Við þökkum henni innilega fyrir ómetanlegan hlýhuga og stuðning við starfsemina. 

Vegna anna við Nordplus Junior samstarfsverkefnið var ekki haldið upp á Dag Tónlistarskólanna 14. febrúar að þessu sinni. Þess í stað var tekið á móti góðum gestum. Giulia Bettinelli frá Assisi á Ítalíu kom í heimsókn þann 19. janúar sl. og kvaddi okkur 6. febrúar. Hún var í starfsnámi í Tónstofunni, fylgdist með kennurum að störfum, fræddist um tónlistarsérkennslu og kenndi okkur ítölsk barnalög. Giulia var ánægð með dvöl sína hér og bæði kennarar og nemendur sakna Giulia. Giulia elskar Ísland og á hún vonandi eftir að heimsækja Tónstofuna síðar. 

Mánudaginn 2. febrúar fengum við svo heimsókn góðra gesta frá Finnlandi og Lettlandi. Mættir voru þátttakendur í Nordplus Junior verkefninu "Teach me children's songs in Nordic and Baltic countries"; skólastjórar og kennarar frá Lielvarde Music School, Lettlandi og Yla-Savo Music Institute, Iisalmi Finnlandi, samtals 6 manns sem dvöldu hjá okkur í viku. Gestirnir hlustuðu á fyrirlestra um Tónstofuna og tónlistarsérkennslu, kynntu sér námsefni og kennsluaðferðir, fræddust um starfsemi Bjöllukórsins, skipulag tónlistarfræðslu á Íslandi og margt fleira. Þeir fylgdust með í kennslustundum og ræddu við nemendur, heimsóttu Klettaskóla og leikskólann Sólborg, fóru á tónleika í Hörpu, skoðuðu landið og ræddu framkvæmd samstarfsverkefnisins.

Eftirtöldum aðilum þakka ég kærlega fyrir elskusemi og hlýjar móttökur þegar gestir Tónstofunnar heimsóttu Klettaskóla og Sólborg. Hjartans þakkir Erla Gunnarsdóttir, Ólafur B. Ólafsson, Soffía Huld Friðbjarnardóttir, Guðrún Ásgrímsdóttir, Ragnheiður Þóra Kolbeins og Signý Þórðardóttir. 

Óhætt er að segja að hinir erlendu gestir hafi verið afskaplega ánægðir með heimsóknina og hrifnir af því sem fyrir augu og eyru bar. Það verður svo spennandi að fylgjast með því á hvern hátt þeir nýta sér fræðsluna til uppbyggingar tónlistarsérkennslu í heimabæjum sínum. 

Átjánda febrúar fóru svo þrír kennarar Tónstofunnar í heimsókn til Lielvarde Music School, Lettlandi. Öskudagurinn sem og starfsdagar kennara voru nýttir til þessa ferðalags. Í Lielvarde nutum við frábærrar gestrisni Marite, Suzanne og Evita, lærðum af afburða kennurum, hlustuðum á finnskan og lettneskan barnakór, fórum á tónleik, heimsóttum stofnanir af ýmsu tagi og mynduðum tengsl við stofnanir og fagfólk. Í framhaldi af þessari ferð hefur Bjöllukórnum nú þegar verið boðin þátttaka í listahátíð í Riga næsta vor. Hvort af því getur orðið er óráðið á þessari stundu. 

Tónstofan tók í annað sinn þátt í Upptaktinum. Verk Bernharðs Mána Snædal "Running Black Out" var eitt þrettán verka sem valið var til flutnings í Kaldalóni, Hörpu 21. apríl 2015. Við í Tónstofunni þökkum aðstandendum Upptaktsins innilega fyrir framlag þeirra til barnamenningar á Íslandi og óskum Bernharði Mána og kennara hans Marie Huby innilega til hamingju. Við erum stolt af ykkur. Meðfylgjandi er slóð á Youtube rás þar sem heyra má verk Bernharðs Mána. www.youtube.com/watch  

Verk Bernharðs Mána frá því í fyrra "Live in Peace", var eitt af tólf sem valið var til að vinna áfram með tónskáldi og til flutnings á tónleikum Upptaktsins. Alls bárust 42 verk í Upptaktinn það árið. Tónleikarnir voru í Hörpu 29. apríl 2014 á opnunarhátíð Barnamenningar. Upptaka frá tónleikunum með laginu hans er á Facebook-síðu Tónstofunnar. 

Bjöllukórinn (11) ásamt kennurum og fylgdarliði (9) fór í ævintýralegt tónleikaferðalag til Iisalmi í Finnlandi dagana 22. til 27. apríl sl. Ferðalagið var liður í Nordplus Junior samstarfsverkefni á milli þriggja skóla/landa: Tónstofu Valgerðar, Yla-Savo Music Institute í Iisalmi Finnlandi og Lielvarde Music School í Lettlandi eins og áður segir. Ferðin til Iisalmi tókst afburðavel. Við sungum og lékum fyrir leikskóla- og grunnskólabörn og fullorðið fólk í dagvist fyrir fatlaða. Við fengum hljóðfærakynningu, fórum á tónleika, í skógarferð, sauna og skoðuðum merka staði í Iisalmi. Við lékum við messu í bænum Kuopio og á tónleikum ásamt finnska og lettneska kórnum í Iisalmi sunnudaginn 26. apríl. Þar flutti Bjöllukórinn 4 lög: Ó, faðir gjör mig lítið ljós eftir Jónas Tómasson, Nú hverfur sól í haf eftir Þorkel Sigurbjörnsson, þjóðlagið Bí, bí og blaka og Íslenskt vögguljóð eftir Jón Þórarinsson.  Bjöllukórinn lék af þeirri snilld sem honum er einum lagið. Við vorum ákaflega stolt af okkar framlagi. Vil ég þakka Tapani Lakaniemi, stuðningsaðilum öllum, meðlimum Bjöllukórsins, kennurum og aðstoðarfólki kærlega fyrir að gera þessa ferð að sannkölluðu ævintýri. 

Hjartans þakkir færi ég einnig sjóði Kristins Arnar Friðgeirssonar, Össuri, Samfrímúrareglunni og ónafngreindum velgjörðarmönnum sem auðvelduðu okkur kostnaðarsamt ferðalag. Samstarfsaðilar í þessu Nordplus Junior verkefni munu nýta fengna reynslu í skólastarfi komandi ára.

Sunnudaginn 10. maí lék Bjöllukórinn við guðsþjónustu í kirkju Óháða safnaðarins við Háteigsveg. Þar var okkur að venju vel tekið og þökkum við innilega fyrir móttökurnar.

Mánudaginn 11. maí fengum við heimsókn frá Svíþjóð. Hillevi Torell músíkmeðferðarfræðingur fylgdis með kennslu nokkurra nemenda. Hillevi eins og svo margir aðrir gestir sem í Tónstofuna koma fór heim með geisladisk Bjöllukórsins og góðar hugmyndir í fartekskinu. Hillevi sem m.a. varð snortin af leik Gísla Björnssonar þakkaði fyrir sig með góðri bókargjöf. 

Vortónleikahald Tónstofunnar hófst með tvennum einstaklingstónleikum í Tónstofunni fimmtudaginn 14. maí. Aðstandendur tveggja ungra tónlistarmanna fylltu salinn á Stórhöfða og fögnuðu hetjunum sem léku af mikilli leikgleði. 

Helgina 16. og 17. maí voru svo haldnir fimm vortónleikar í Tónstofunni. Tónleikarnir eru prófsteinn á færni og framfarir nemenda. Þeir eru haldnir til að gefa nemendunum tækifæri til að koma opinberlega fram, veita öðrum hlutdeild í því sem þau eru að gera og gleðjast saman, og til að kynna skólastarfið. Einsöngvarar og einleikarar, dúettin GÓ, Bjöllukórinn, kammerkórinn Kórfélagið og rafbandið Bestu vinir glöddu tónleikagesti með leikgleði sinni. Tónleikagestir sem og stoltir kennarar fylgdust með frábærri frammistöðu nemendanna sem taka stöðugum framförum í sviðsframkomu, tónnæmi og tónlistarfærni.

Fimmtudaginn 21. maí tók Davíð Þór Torfason III. stig í píanóleik. Afburða frammistaða hans gaf honum einkunnina 10. Prófdómari var Áslaug Gunnarsdóttir píanókennari og þökkum við henni kærlega fyrir hjálpina, elskusemi og hlýja nærveru þessa merku stund í Tónstofunni. Við óskum Davíð Þór og fjölskyldu hans innilega til hamingju með áfangann.

Laugardaginn 6. júní voru svo tvennir tónleikar í Tónstofunni með nemendum Klettaskóla. Tónleikar Tónstofunnar eru sérstakar gleðistundir. Stór afrek eru unnin og ótrúlegar framfarir nemenda líta dagsins ljós. 

Á síðustu tónleikum starfsársins var Jónu Þórsdóttur færðar gjafir og innilegar þakkir fyrir tíu ára gæfuríkt samstarf og henni óskað velfarnaðar á öðrum vettvangi í ótímabundnu leyfi frá störfum í Tónstofunni.

Lokaorð

Líkt og síðastliðin ár er það með gleði og þakklæti í hjarta fyrir velgengni, velvilja og ómetanlegan stuðning sem yfirlit skólaársins 2014-2015 er skrifað. Um leið og lærdómur er dreginn af reynslu síðasta vetrar undirbúa aðstandendur skólans næsta skólaár. Eins og áður hefur komið fram, stendur Tónstofan frammi fyrir því að finna lausn á rekstrarvanda sem er tilkominn af húsnæðiseklu í Klettaskóla, ótímabundnu leyfi Jónu Þórsdóttur, óvissu um nýjan þjónustusamning, sem og óvissu vegna nýrra eigenda að leiguhúsnæðinu að Stórhöfða. Með góðan bakhjarl í Foreldra- og styrktarfélaginu, velvilja samstarfsaðila, dugandi kennara og áhugasaman nemenda- og foreldrahóp verða fundnar sæmandi lausnir sem öllum líkar. 

Fyrir liggur að leggja lokahönd á skipulagningu skóladagatals næsta vetrar, að fara yfir nemendalista, skoða biðlista, ræða möguleg námsframboð og nýjungar, og uppbyggingu og skipulagða aðkomu allra nágrannasveitarfélaganna að þeirri tónlistarsérkennslu sem Tónstofan hefur þróað sl. 28 ár.

Það er von mín að skólastarfið 2015-2016 verði jafn blómlegt og farsælt og síðasta skólaárs, að spennandi tónlistarævintýri sem tónelskir gleðigjafar njóta haldi áfram að líta dagsins ljós. Einnig væri óskandi að meðvitund um mikilvægi starfsins og virk samvinna allra hlutaðeigandi ykist til hagsbóta fyrir skjólstæðinga skóla- og frístundasviða sveitarfélaganna. 

Fyrir hönd kennara og Foreldra- og styrktarfélags Tónstofunnar/Skólanefndar, þakkar undirrituð velgjörðafólki og styrktaraðilum, Velferðarsjóði barna, skólastjórnendum Klettaskóla, Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar sem og öllum nemendahópnum og aðstandendum hans innilega fyrir gefandi og ánægjulega samvinnu á þessu skólaári. Sem fyrr horfum við bjartsýn til framtíðar. 

Dr. Valgerður Jónsdóttir, skólastjóri