STUTT GREINARGERÐ UM 37. starfsár TÓNSTOFU VALGERÐAR SKÓLAÁRIÐ 2023-2024
Skólaárið og nemendafjöldi
Fyrsti kennsludagur haustannar 2023 var þriðjudagurinn 29. ágúst. Síðasti kennsludagur vorannar 2024 var föstudagurinn 31. Síðustu tónleikar vorannarinnar sem voru 10 að tölu voru haldnir á Stórhöfðanum sunnudaginn 26. maí. Á starfsdögum funduðu kennarar, fóru yfir nemendahópinn, ræddu skóladagatal og viðfangsefni næsta vetrar, ræddu lærdóm og áskoranir liðins vetrar, deildu áhugaverðu kennsluefni og hlustuðu á fyrirlestur Aðalheiðar Sigurðardóttur Hvað liggur á bak við erfiða hegðun? Í júní starfar skólastjórinn við að ljúka skýrslugerð og samantekt fyrir Reykjavíkurborg sem og við bókhaldsstörf og undirbúning fyrir næsta starfsár að svo miklu leyti sem það er mögulegt þar sem skóla- og frístundasvið hefur ekki endurnýjað þjónustusamning við Tónstofuna þegar þetta er ritað.
Skólaárið 2023-2024 voru hundrað og sjö nemendur skráðir í einkatíma (grunn- og miðnám) í sértækari tónlistarkennslu allt skólaárið. Í Bjöllukórnum sem æfir allt skólaárið (90 mínútur á viku) voru tólf nemendur og þar af voru fimm þeirra einnig í einkatímum. Á skólaárinu sóttu 45 nemendur námskeiðin Tón-leikur, átta vikna námskeið (2 x 7 einstaklingar á hverjum tíma, 45 mínútur í senn). Tón-leikur er í samvinnu við Ás-styrktarfélag (vinna og virkni). Þrír þátttakenda Tón-leiks sóttu jafnframt einkatíma allt skólaárið.
Kennarar, skólanefnd og annað starfsfólk
Á skólaárinu 2023-2024 störfuðu kennarar í um fjórum stöðugildum að meðaltali:
Ari Agnarsson, starfshlutfall 41% kennarastaða.
Ása Dóra Gylfadóttir, starfshlutfall 35% kennarastaða.
Bára Grímsdótir, starfshlutfall 25%
Marie Paulette Helene Huby, starfshlutfall 63% kennarastaða.
Mínerva M. Haraldsdóttir, starfshlutfall 46% kennarastaða.
Sigurmon Hartman Sigurðsson, sarfshlutfall 20% kennarastaða.
Valgerður Jónsdóttir, starfshlutfall 100% skólastjóri og kennari.
Stofnandi og ábyrgðaraðili skólans er dr. Valgerður Jónsdóttir.
Foreldra- og styrktarfélag Tónstofu Valgerðar gegnir jafnframt hlutverki skólanefndar. Í nefndina var kosið á aðalfundi Foreldra- og styrktarfélagsins 8. nóvember 2023. Í nefndinni sitja skólaárið 2023-2024: Rut Ríkey Tryggvadóttir, formaður Gerður Steinþórsdóttir, varaformaður Gunnhildur Gísladóttir, gjaldkeri / ritari Jóhanna Andrea Jónsdóttir, meðstjórnandi Ottó Leifsson, meðstjórnandi Valgerður Jónsdóttir, fulltrúi kennara, ritari
Um bókhald sá Haraldur H. Helgason, viðskiptafræðingur hjá Aðalbókun bókhaldsstofu ehf. Um endurskoðun ársreiknings og ársreikningaskil sá Hjördís Ýr Ólafsdóttir hjá KPMG ehf. Álfheiður Erla Guðmundsdóttir, starfshlutfall 25% ráðgjafi, ritari og kynningarfulltrúi. Um ræstingu sá SBH þrif. Annað starfsfólk kemur ekki að rekstri skólans.
Styrkir á skólaárinu 2023-2024
Á starfsárinu þökkum við sérstaklega umhyggjusemi og trygglyndi Súsönnu Ernst Friðriksdóttur sem gladdi okkur enn á ný með góðri gjöf um jól. Í lok skólaársins tók Tónstofan á móti veglegum styrk frá Foreldrasamtökum fatlaðra. Innilegar þakkir færum við öllu því góða fólki sem ekki er talið upp sérstaklega hér að ofan, en sem í nafni stofnana, samtaka eða sem einstaklingar hafa styrkt Tónstofuna og eflt til dáða á liðnum árum með starfi sínu í skólanefndinni, hvatningu, góðum hug og gjöfum.
Helstu viðfangsefni skólaársins 2023-2024
Starfsárið hófst laugardaginn 19. ágúst, en þá var Gísla Björnssyni orgelleikara boðið að taka þátt í upplifunar- og þátttökugjörningi Listvinnslunnar sem fram fór í Listasafni Reykjavíkur á Menningarnótt. Við þökkum fyrir okkur og ljúfa stund!
Starfsdagar voru 21. til 28. ágúst. Á starfsdögum var fundað með skólanefndinni og kennurum. Hljóðfæri voru yfirfarin, kennsluefni lagfært og nýtt búið til. Farið var yfir nemendalista og stundatöflugerð kláruð.
Denis Laborde hjá Haizebegi- hátíðinni í Bayonne í Frakklandi og kona hans heimsóttu Tónstofuna mánudaginn 21. ágúst. En þau voru hér á landi í tengslum við Baskasetur sem koma á á fót í gömlu síldarverksmiðjunni og lýsistönkunum í Djúpavík. Þau létu í ljós áhuga á að fá Bjöllukórinn á Haizebegi hátíðina 2024. Við urðum því miður að hafna því vegna anna í tengslum við tónleika Listar án landamæra í október 2024. Doktorsnemandi Denis, Pietro Calabretta heimsótti Tónstofuna mánudaginn 10. Júní. Hann fræddist um tónlistarkennslu skynsegin einstaklinga og einkum fólks með einhverfu og þáði góð ráð í tengslum við viðfangsefni sitt í doktorsnáminu.
Miðvikudaginn 23. ágúst 2023, var sameiginlegur starfsdagur skóla á höfuðborgarsvæðinu sóttur af öllum kennurum Tónstofunnar. Á þeim fundi héldu erindi Óskar Haukur Níelsson, sérfræðingur í mennta- og barnamálaráðuneytinu, Freyja Gunnlaugsdóttir, skólameistari Menntaskóla í tónlist og Tryggvi M. Baldvinsson, fyrrverandi deildarforseti tónlistardeildar í Listaháskóla Íslands. Fjallað var um áform um endurskoðun aðalnámskrá tónlistarskóla og í erindum og í hópumræðum var m.a. skoðað hverju þyrfti að huga að við endurskoðunina og hvaða þætti og efnisatriði væri hægt að lagfæra strax.
Kennsla hófst þriðjudaginn 29. ágúst 2023.
Þjónustusamningur Tónstofunnar og skóla- og frístundasviðs fyrir skólaárið 2023-2024 var undirritaður föstudaginn 1. september óbreyttur frá fyrra ári.
Fyrsta Listasmiðja Tónstofunnar á skólaárinu, Blásaragleði, var haldin laugardaginn 7. október. Fjórir blásarar frá Sinfóníuhljómsveit Íslands, léku fyrir okkur og með okkur nokkur lög. Við þökkum Einari Jónssyni trompetleikara, Sigurði Þorbergssyni básúnuleikara, Grími Helgasyni klarinettleikara, Brjáni Ingasyni fagottleikara og öðrum góðum gestum kærlega fyrir komuna. Listasmiðjan var vel sótt og mikil gleði ríkti hjá þátttakendum.
Aðalfundur Foreldra- og styrktarfélags Tónstofu Valgerðar var haldinn miðvikudaginn 8. nóvember Dagskrá aðalfundarins tók mið af almennum lögum um fundarsköp og var sem hér segir:
Fundarsetning og kosning fundarstjóra.
Skýrsla stjórnar.
Reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.
Ákvörðun félagsgjalda.
Kosning stjórnar.
Kosning skoðunarmanna reikninga.
Fyrirspurnir og umræður.
Foreldrafélagið starfar fyrir nemendur og forráðamenn þeirra. Þeir sem ekki geta mætt á aðalfund geta sent fyrirspurnir og athugasemdir varðandi starfsemi, framgang og markmið Foreldra- og styrktarfélags Tónstofunnar sem jafnframt gegnir hlutverki skólanefndar á netfangið tonsvj@mmedia.is Á heimasíðu Tónstofunnar má finna lög félagsins. www.tonstofan.is
Laugardaginn 9. nóvember steig nemandi Tónstofunnar Lára Þorsteinsdóttir sín fyrstu skref með nýstofnaðri Söngleikjadeild Söngskólans í Reykjavík. Þetta var gríðarlega stór stund fyrir okkur öll og við óskum Láru hjartanlega til hamingju. Lára hefur stundað nám í Tónstofunni frá unga aldri og hélt því námi áfram samhliða náminu í Söngskólanum.
Kennarafundur var haldinn 21. nóvember. Á fundinum var farið yfir haustið og það sem fram undan var. Við deildum reynslusögum úr kennslunni, kennsluefni og öðru því sem okkur lá á hjarta og snerti nemendurna, framvindu kennslunnar og framtíð skólans.
Miðvikudaginn 6. desember lék Bjöllukórinn við afhendingu Kærleikskúlunnar. Haraldur Þorleifsson er handhafi Kærleikskúlu ársins 2023 sem ber nafnið Heimur. Haraldur hefur látið til sín taka á mörgum sviðum samfélagsins, sem frumkvöðull, athafnamaður, hönnuður, tónlistarmaður og mannvinur. Hann er baráttumaður fyrir mannréttindum og betra samfélagi og hefur vakið þjóðarathygli fyrir framgöngu sína í verkefninu Römpum upp Ísland sem hefur það að markmiði að bæta aðgengi fatlaðs fólks í samfélaginu. Römpum upp Ísland bætti aðgengi Tónstofunnar svo um munar.
HEIMUR er eftir listamanninn Guðjón Ketilsson. Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna hjúpar Kærleikskúluna en yfirlýsingin kveður á um mannréttindi sem allir eiga tilkall til óháð kynþætti, litarhætti, kynferði, tungu, trú, skoðunum, þjóðerni, uppruna, eignum, ætterni eða öðrum aðstæðum. Kærleikskúlan minnir okkur þannig á samhygð, mannúð og náungakærleika og ber með sér von um friðsamleg samskipti þjóða.
Tónstofan og Bjöllukórinn var handhafi Kærleikskúlunnar árið 2010. Um handhafa kærleikskúlunnar það árið segir á vef SLF „Valgerður hefur með óeigingjörnu starfi sínu gefið fjöldanum öllum af nemendum með sérþarfir kost á að njóta tónlistarnáms og þannig endurspeglað nútímalegar áherslur um jafnrétti, sjálfstætt líf og þátttöku fatlaðra í samfélaginu. Bjöllukórinn hefur þau tólf ár sem hann hefur verið starfandi gefið þeim sem í honum eru mikla gleði og ekki síður þeim sem hafa notið þeirrar gæfu að hlýða á hann.“
Bjöllukórinn og Tónstofan óska Haraldi hjartanlega til hamingju og þakkar innilega fyrir að fá að leggja sitt af mörkum til að glæða stundina kærleiksríkum hljómi.
Jólatónleikaröð Tónstofunnar hófst helgina 9. til 10. desember. Jólatónleikarnir urðu samtals 10 á þessari aðventu. Jólafiðringur, tilhlökkun, stolt og gleði ríkti bæði á æfingum og á jólatónleikunum sjálfum sem eru sannar helgistundir þar sem tíminn hægir á sér og listfengi og kærleikur hljómar.
Föstudaginn 15. desember hófst ævintýri Bjöllukórsins (æfing) sem var boðið að leika í Hörpuhorninu á jólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands helgina 16. til 17. desember. Bjöllukórinn flutti Gjöfin eftir Gustav Holst og Nóttin var sú ágæt ein eftir Sigvalda Kaldalóns í útsetningu Inga Garðars Erlendssonar með strengjakvartett úr Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Í Bjöllukórnum eru: Ásdís Ásgeirsdóttir, Auðun Gunnarsson, Gísli Björnsson, Gauti Árnason, Ólafur Snævar Aðalsteinsson, Edda Sighvatsdóttir, Halldóra Jónsdóttir, Rut Ottósdóttir, Ástrós Yngvadóttir, Hildur Sigurðardóttir, Erna Sif Kristbergsdóttir og Íris Björk Sveinsdóttir.
Strengjakvartettinn skipuðu: Sigrún Eðvaldsdóttir, Páll Palomares, Rita Porfiris og Sigurgeir Agnarsson.
Við þökkum Hjördísi Ástráðsdóttur og Sinfóníuhljómsveitinni hjartanlega fyrir þetta einstaka og dýrmæta tækifæri og hlökkum til áframhaldandi samvinnu á næsta skólaári.
Jólafrí hófst föstudaginn 22. desember og fyrsti kennsludagur vorannar 2024 var miðvikudagurinn 3. janúar.
Sjötta Listasmiðja Tónstofunnar var haldin laugardaginn 6. apríl. Herdís Anna Jónsdóttir víóluleikari og Steef van Oosterhout slagverksleikari í Duo Stemmu heimsóttu Tónstofuna í annað sinn. Við þökkum Duo Stemmu hjartanlega fyrir komuna í Listasmiðju Tónstofunnar. Þau komu með steinaspilið sitt og önnur hljóðfæri og hljóðgjafa og glöddu okkur með þulum, söng, leik og sprelli eins og þeim er einum lagið. Hjartans þakkir gleðigjafar og þið öll sem nutuð með okkur.
Formannafundur Landssamtakanna Þroskahjálpar var haldinn laugardaginn 6. apríl, kl. 9-14:30. Fundinn sóttu tveir frá skólanefnd Tónstofunnar, undirrituð og Jóhanna Andrea Jónsdóttir.
Á landsþingi Þroskahjálpar 9. október sl. var samþykkt tillaga um að endurskoða stefnuskrá samtakanna með það að markmiði að leggja hana fyrir landsþing Þroskahjálpar árið 2025 til kynningar, umræðu og ákvörðunar um samþykkt. Í samþykkt landsþings var gert var ráð fyrir að stjórn Þroskahjálpar, starfsfólk og formannafundur aðildarfélaga samtakanna kæmu að því verkefni.
Núgildandi stefnuskrá er orðin rúmlega tuttugu ára. Hún var samþykkt á landsþingi samtakanna árið 2003 og var framsækin á sínum tíma og margt í henni sem getur staðið lítið breytt eða óbreytt.
En margvíslegar og miklar samfélagsbreytingar og þróun á ýmsum sviðum leiða til að takast þarf á við ný viðfangsefni, ræða þau og ákveða hvernig best er að takast á við þau. Þetta er liður í því að auka samstarf og samráð við aðildarfélögin.
Skólanefndin fundaði mánudaginn 8. apríl. Á fundinum voru verkefni skólaársins og vorsins rædd sem og áætlanir næsta skólaárs.
Arnar Gabríel Alexson nemandi Tónstofunnar er ekki bara frábær píanóleikari hann er líka tónskáld. Verk hans Blær sem hann samdi fyrir píanó var valið til þátttöku í Upptaktinum og flutt á tónleikum í Hörpu 26. apríl sl. í útsetningu Gabríellu Snótar Schram. Hjartans hamingjuóskir kæri Arnar Gabríel.
Sjöunda Listasmiðja Tónstofunnar var haldin laugardaginn 4. maí. Guðbjörg Arnardóttir heimsótti okkur og leiddi með skapandi leikgleði sinni í slökun, kveikti á ímyndunaraflinu, hjálpaði okkur að mála veröldina fallegum litum, kenndi okkur að vera staðföst, styrk og stöðug, færði okkur fjöll, fugla og fallega tónlist sem hreyfði okkur á ýmsa vegu. Hljómskál var einnig með í för og í lokin sameinuðum við hugi okkar, sálir og líkama í Om. Elsku Guðbjörg takk fyrir okkur! Namaste
Marie Huby einn af kennurum Tónstofunnar gaf út bókina Regnboganótur í byrjun maí. Regnboganótur er kennslubók sem hentar einkar vel í kennslu barna með þroskafrávik. Bókin er m.a. byggð á kennslureynslu Marie í Tónstofunni og því litakerfi og kennsluefni sem þar er notað. Innilega til hamingju elsku Marie og vonandi líta fleiri bækur dagsins ljós.
Bjöllukórinn hlaut heiðursverðlaun Listar án landamæra 2024 sem veitt voru til listhóps. Verðlaunin voru afhent sunnudaginn 12. maí við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Við óskum öllum verðlaunahöfum Listar án landamæra 2024 innilega til hamingju. Elínu Sigríði Maríu Ólafsdóttur - listamanneskja hátíðarinnar, Fjölleikhúsinu - listahóp hátíðarinnar og Snorra Ásgeirssyni - heiðursverðlaun til einstaklings. Við afhendinguna flutti undirrituð eftirfarandi tölu.
Hr. borgarstjóri og aðrir góðir gestir. Fyrir hönd okkar í Bjöllukórnum stend ég hér auðmjúk, stolt og innilega þakklát List án landamæra fyrir þessa heiðursviðurkenningu. Í Bjöllukórnum eru: Ásdís Ásgeirsdóttir, Auðun Gunnarsson, Gísli Björnsson, Gauti Árnason, Ólafur Snævar Aðalsteinsson, Edda Sighvatsdóttir sem er fjarverandi, Halldóra Jónsdóttir, Rut Ottósdóttir, Ástrós Yngvadóttir, Hildur Sigurðardóttir, Erna Sif Kristbergsdóttir og Íris Björk Sveinsdóttir. Kórinn er að ljúka sínu 27. starfsári. Hann er í framvarðarsveit Tónstofu Valgerðar sem er 37 ára gamall tónlistarskóli, þar sem í vetur hafa 136 nemendur á öllum aldri sótt vikulegar kennslustundir.
Bjöllukórinn hefur verið svo lánsamur að geta látið ljós sitt skína. Hann hefur komið fram á vegum Listar án landamæra og Listahátíð í Reykjavík, fengið að vinna með þjóðþekktum listamönnum eins og Retro Stefson, Sigur Rós. Gunnari Gunnarssyni, Högna Egilssyni, Ólafi Ólafssyni, Libiu Castro og hljóðfæraleikurum úr Sinfóníuhljómsveit Íslands. Kórinn hefur tekið þátt í listahátíðum með tónlistarfólki í Noregi, Finnlandi og í Lettlandi, haldið sjálfstæða stórtónleika, verið útvarpað um öll norðurlöndin og gefið út tvo geisladiska.
Í ár var kórnum boðið að koma fram á listahátíð í Noregi nú í haust og á Haizebegi hátíðina í Bayonne í Frakklandi sem við urðum að afþakka vegna anna. Í desember býður okkar svo þátttaka í jólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
En hvað er einstakt við Bjöllukórinn. Jú það eru einstaklingarnir og listafólkið sem í honum er og sérstakur samhljómur þeirra sem endurómar kærleika, einlægni, vináttu, tryggð, samviskusemi, einbeitingu, metnað og listfengi. Þær eru ekki alltaf auðveldar föstudagsæfingarnar eftir langa og stranga vinnuviku en þegar hugir sameinast til að skapa hljómfagra tónlist megnar hún að næra sálina, hvíla hugann og lyfta andanum.
Það er einlæg von okkar að við fáum að starfa áfram til hagsbóta fyrir okkur sjálf og samfélagið allt, en Bjöllukórinn vinnur að inngildingu, vinnur gegn fordómum í garð fatlaðra og eflir skilning á milli einstaklinga sem búa við ólíka getu til athafna. Viðurkenning af þessu tagi eflir okkur til enn frekari dáða í baráttunni fyrir jöfnum tækifærum til tónlistarnáms á öllum skólastigum. Við óskum öðrum verðlaunahöfum hátíðarinnar innilega til hamingju.List án landamæra hafið hjartans þökk fyrir. Í minningu tveggja stofnfélaga Bjöllukórsins, þeirra Halldórs Steins Halldórssonar og Kára Þorleifssonar lék Bjöllukórinn sálmalagið Nú hverfur sól í haf eftir Þorkel Sigurbjörnsson.
Nemandi í LHÍ, Magnús Skúlason, sem naut handleiðslu undirritaðrar á skólaárinu skilaði BA ritgerð sinni Tækifæri fatlaðra til tónlistarnáms á Íslandi þann 14. maí. Í útdrætti ritgerðarinnar segir: Í aðalnámskrá tónlistarskóla eru skilgreind samfélagsleg markmið sem ber að hafa að leiðarljósi í tónlistarnámi. Þar er tekið fram að „kennsluaðferðir megi ekki mismuna nemendum eftir kynferði, búsetu, uppruna, litarhætti, fötlun, trúarbrögðum eða félagslegri stöðu“. Í þessari ritgerð er skrifað um stöðu fatlaðra í tónlistarskólakerfinu og hvaða tækifæri standa þeim til boða. Jafnframt er farið yfir menntastefnu ríkisins og menntastefnu Reykjavíkurborgar og kannað hvort tónlistarskólakerfið standist þær kröfur um jafnrétti sem gerðar eru. Einnig er námskráin skoðuð í samhengi við félagsfræðilegar kenningar um fötlun. Tekin voru viðtöl við tvo fatlaða nemendur sem lokið höfðu tónlistarnámi, einn tónlistarkennara og einn skólastjórnanda sem hafa þekkingu á málefninu. Þær niðurstöður sem dregnar eru snúa að því hvað megi gera til þess að bæta tækifæri fatlaðra til tónlistarnáms á Íslandi. Þar kemur helst fram að tónlistarnám þurfi að vera einstaklingsmiðaðra, kröfur í námi taki mið af stöðu hvers og eins og tónlistarkennarar þurfi fræðslu um hvernig taka megi á móti fötluðum nemendum. Umræður innan raða tónlistarkennara undanfarin ár um námskrána hafa verið áberandi og hafa margir tónlistarkennara kallað eftir endurskoðun á námskránni. Almennt virðist ríkja samhugur um jákvætt gildi tónlistarnáms, meginmarkmið námsins sé aukinn þroski og vellíðan þeirra sem það stunda og allir eigi jafnan rétt til tónlistarmenntunar. Það er því nauðsynlegt að íhuga vel hvernig best sé að skapa umhverfi tónlistarmenntunar þar sem allir geta fengið að vera með.
Julie Hallum og Ingeborg Torstensen frá Kulturskolen í Ringkøbing-Skjern, í Danmörku heimsóttu Tónstofuna dagana 21. og 23. maí og fylgdust með í kennslustundum. Tilgangur þeirra með heimsókninni var að fá innblástur og innsýn í þá aðferðar- og kennslufræði sem nýtt er í Tónstofunni.
Vortónleikaröð Tónstofunnar (níu tónleikar) hófst laugardaginn 11. maí og henni lauk sunnudaginn 26. maí. Þrennir stórtónleikar voru haldnir í Grafarvogskirkju laugardaginn 25. maí.
Líkt og fyrr eru tónleikarnir sannkölluð uppskeruhátíð sem gefur bæði lærdóm og gleði inn í hjörtu allra viðstaddra. Við réðum ekki atvinnuljósmyndara að þessu sinni en undirrituð gerði sitt allra besta til að fanga gleðina með aðstoð ljósmyndara úr röðum forráðamanna. Njótið yndislegra mynda og myndbanda sem finna má á samfélagsmiðlum og á heimasíðu Tónstofunnar.
Síðasti kennsludagur Tónstofunnar vorið 2024 samkvæmt skóladagatali var föstudagurinn 31. maí og við tóku starfsdagar. Laugardaginn 1. júní, fengum við Aðalheiði Sigurðardóttur frá Ég er Unik í heimsókn til okkar. Hún hélt gagnlegan, áhrifaríkan og mjög áhugaverðan fyrirlestur er bar yfirskriftina Hvað liggur á bak við erfiða hegðun? Fyrirlesturinn kveikti margar spurningar og veitti svör sem nýtast munu okkur í áskorunum næsta starfsárs. Starfsdagar voru að öðru leiti hefðbundnir með fundarhöldum þar sem farið var yfir nemendahópinn og skóladagatal næsta starfsárs, hljóðfæri voru þrifin og yfirfarin. Í júní starfar skólastjórinn við að ljúka skýrslugerð og samantekt fyrir Reykjavíkurborg sem og við undirbúning fyrir næsta starfsár á þeim forsendum sem til staðar verða.
Vinátta, gleði og vinnusemi sem hvorki verður fönguð né sett í orð í skýrslu af þessu tagi einkennir starfið í Tónstofunni frá degi til dags og var engin undantekning þar á þetta skólaár þrátt fyrir sorgir, áskoranir og áhyggjur af ýmsu tagi er mættu bæði, nemendum, forráðamönnum, kennurum og skólastjórnanda Tónstofunnar.
Undirrituð þakkar kennurum Tónstofunnar, skólanefndinni, velunnurum, nemendum og forráðamönnum hjartanlega fyrir gjöfult samstarf á krefjandi skólaári. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér starf Tónstofunnar frekar geta farið á rafræna miðla hennar:
www.tonstofan.is https://www.instagram.com/tonstofan/ https://www.facebook.com/tonstofavalgerdar Skráð í júní 2024.
Dr. Valgerður Jónsdóttir, skólastjóri
Tónstofa Valgerðar
Stórhöfða 23
110 Reykjavík