Tónstofa Valgerðar á afmælisári

▪ Þrítugasta og fyrsta ágúst var ýtt úr vör í Tónstofunni eftir vel heppnaða starfsdaga þar sem Edda Björgvinsdóttir fræddi kennara um mikilvægi húmors í skólastofunni og Berglind Brynjhólfsdóttir fjallaði um kvíða barna og unglinga. Í upphafi skólaársins voru 120 nemendur skráðir í skólann. Bjöllukórinn, sönghópurinn, hljómsveitin og nýir og gamlir nemendur á öllum aldri fylltu stofur á Stórhöfða og skólastofuna í frístundaheimilinu Öskju með leikgleði sinni. Spenntir kennarar brettu upp ermarnar tilbúnir í tónlistarævintýri afmælisársins.

▪ Þrítugsafmælis skólans og tvítugsafmælis Bjöllukórsins var fagnað með ýmsu móti á skólaárinu. Bjöllukórinn vann að útgáfu Hljómvangs nýja geisla- og mynddisksins sem kynnir sögu skólans og kórsins. Tólf íslensk þjóðlög voru æfð og hljóðrituð af Hafþóri Karlssyni hljóðmanni. Tekin voru viðtöl við foreldra og kennara og myndbrot af nemendahópnum klippt til. Vinna við útgáfuna heldur áfram á haustönninni 2017.

▪ Í opnum vinnusmiðjum sem kennarar og nemendur Tónstofunnar leiddu var boðið upp á samvinnu við aðra tónlistarskóla og tónlistarmenn og fléttuð saman tónlistarfærni, tónnæmi og sköpunargleði þátttakenda á jafnréttisgrundvelli. Átta nemendur frá Tónstofunni og 8 nemendur í Skólahljómsveit Austurbæjar æfðu saman Dýralög samin af Haraldi V. Sveinbjörnssyni. Tónlistin var svo flutt í föstudags- „Karnivali“ í Öskju í mars, á tónleikum í Klettaskóla og á afmælistónleikum í Salnum í Kópavogi 28. maí. Kynning á verkefninu og fyrsta æfing með nemendahópunum, Vilborgu Jónsdóttur og Jónu Þórsdóttur var í Tónstofunni laugardaginn 21. janúar. Æfingar gengu vel og mikil ánægja ríkti í nemendahópnum.

▪ Aðalfundur Foreldra og styrktarfélags Tónstofu Valgerðar var haldinn í húsnæði Tónstofunnar á Stórhöfða miðvikudaginn 12. október. Allir stjórnarmenn gáfu kost á sér og fundarstjóri auglýsti eftir öðrum framboðum. Ásthildur Gyða Torfadóttir bauðst til að vera stjórninni innan handar í einstökum verkefnum, og eftir eindregnar áskoranir stjórnarmanna samþykkti hún að slást í hópinn. Gamla stjórnin var því sjálfkjörin. Sigurjón Högnason og Anna Björg Halldórsdóttir voru endurkjörin sem skoðunarmenn reikninga. Fundurin samþykkti hækkun félagsgjalda úr 2.500 í 3.000 krónur.

▪ Mánudaginn 31. október lauk heimsókn góðra gesta frá Ylä-Savo music school í Finnlandi og Lielvarde Municipality Music and Art School í Lettlandi. Þessir skólar ásamt Tónstofu Valgerðar tóku þátt í Nordplus Junior samstarfsverkefninu „Share your national cultural heritage by art“ – Deilum menningararfinum í listsköpun á skólaárinu. Tónleikar 29. október í Grafarvogskirkju voru afrakstur vikulangrar heimsóknar þar sem nemendur og kennarar æfðu saman, fræddust um og deildu menningararfi sínum, fóru á tónleika, sungu og léku í skólum og á öðrum stofnunum, skoðað landið og léku sér saman. Á tónleikunum í Grafarvogskirkju dönsuðu, léku og sungu kennarar og nemendur lög er tengdust jónsmessunni og sumarsólstöðum. Tónleikarnir tókust afburða vel og yljuðu tónleikagestum um hjartarætur. Að loknu þessu ævintýri þakkar undirrituð hjartanlega eftirtöldum aðilum fyrir veitta aðstoð og þjónustu: Elsku Álfheiði Erlu (stelpunni minni) fyrir myndbandið. Erlu Elíasdóttur (mömmu) fyrir allan baksturinn og eldhússtörfin. Gunnhildi Gísladóttur fyrir alla aðstoðina í eldhúsinu, keyrslu og umhyggjusemi. Hrönn Kristjánsdóttur fyrir pönnukökurnar. Jónu Þórsdóttur og fjölskyldu fyrir að lána okkur dýrmæta harmonikku. Fjölmennt fyrir að lána okkur fleiri harmonikkur. Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og Júlíönu Rún Indriðadóttur fyrir lánið á tveimur harmoníum. Þorvaldi H. Þórðarsyni og Matvælastofnun fyrir aðgang að matsal á Stórhöfða. Jóni Bjarnasyni organista í Skálholtsdómkirkju fyrir að bjóða okkur í kirkjuna og að leika fyrir okkur. Grafarvogskirkju fyrir leiguna á kirkjunni til tónleikahalds. Hjá Höllu í Grindavík fyrir ljúffengan og vel útilátinn mat. Hópferðir fyrir liðlegheit og öruggan akstur um borg og sveit. Steindóri Guðmundssyni fyrir öruggan og lipran flutning með hljóðfærin. Hljóðfærahúsið fyrir lánið á hljóðkerfinu og Ara Agnarssyni fyrir að stjórna því. Reykjavíkurborg fyrir afslátt af kynningarpokunum „Reykjavík loves you“ Bjarkarási, Klettaskóla, Sóltúni og Breiðholtskirkju þakkar undirrituð hjartanlega fyrir ljúfar móttökur. Petri Herranen er þakkað fyrir skemmtileg spunanámskeið og Báru Grímsdóttur og Chris Foster fyrir vönduð og áhugaverð námskeið um þjóðlagaarfinn, söngtækni og langspilið. Christopher Lund fyrir upptöku af tónleikunum og þessa fallegu mynd af hópnum.

▪ Föstudaginn 18. nóvember komu góðir gestir frá Tónskóla Austur-Skaftafellssýslu í heimsókn. Þeir fengu fyrirlestur um Tónstofuna og tónlistarsérkennslu, og hlustuðu á Auðun Gunnarsson spila á píanóið og á bjöllukórinn.

▪ Kærleikskúla SLF var afhent á Kjarvalsstöðum 30. nóvember. Handhafi kúlunnar 2016 er Peggy Oliver Helgason. Kúluna fær hún sem þakklætisvott fyrir störf í þágu langveikra og fatlaðra barna. „Peggy hefur stutt langveik og fötluð börn með ýmsum hætti. Í ríflega tuttugu ár hefur hún mætt í trúðsgervi á Barnaspítala Hringsins til að skemmta þeim börnum sem þar dvelja. Þar fær hún bæði börn og starfsfólk spítalans með sér í leik og er í senn fyndin og kærleiksrík. Þá var Peggy forsprakki þess að Vildarbarnasjóður Icelandair var stofnaður ásamt eiginmanni sínum Sigurði Helgasyni, stjórnarformanni Icelandair Group og fyrrum forstjóra Flugleiða. Sjóðurinn styrkir langveik börn og börn sem búa við sérstakar aðstæður til ferðalaga. Þá hafa þau hjónin hafa um árabil styrkt bæði langveik og fötluð börn með fjárframlögum. Til að mynda hafa þau greitt fyrir dvöl nokkurra barna í sumarbúðunum í Reykjadal. Við óskum Peggy Oliver Helgason innilega til hamingju með Kærleikskúluna. Bjöllukórinn er þakklátur fyrir að hafa fengið í gegnum árin að taka þátt í þessari fallegu athöfn! „Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra hóf útgáfu Kærleikskúlunnar árið 2003 og eru kúlurnar nú orðnar þrettán talsins. Nafn kúlunnar er táknrænt en markmiðið með sölu hennar er að auðga líf fatlaðra barna og ungmenna. Allur ágóði rennur til starfsemi Reykjadals, sumar- og helgardvalar Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra í Mosfellsdal.“

▪ Ellefu jólatónleikar voru haldnir í Tónstofunni helgarnar 10. til 11. og 17. til 18. desember. Nemendurnir stóðu sig afburða vel og glöddu alla viðstadda með leik og söng.

▪ Föstudaginn 6. janúar fékk Tónstofan góða gesti í heimsókn. Arndís Vilhjálmsdóttir og Helmut Lugmayr úr stjórn Sunnusjóðs kynntu sér starfsemi skólans og skoðuðu hljóðfæri sem keypt voru fyrir styrk frá sjóðnum. Um Sunnusjóð segir á heimasíðu hans: "Sunnusjóður var stofnaður árið 1984 af hjónunum Ingibjörgu Guðmundsdóttur og Sverri Sigurðssyni í nafni dótturdóttur þeirra Ingibjargar Sunnu Vilhjálmsdóttur." "Markmið sjóðsins er að bæta aðstæður til kennslu og þjálfunar fjölfatlaðra barna á grunnskólaaldri." "Sunnusjóður hefur um langt skeið notið ómetanlegs stuðnings Kötlu ehf sem er aðalstyrktaraðili sjóðsins og ár hvert renna um nokkur hundruð þúsund króna til sjóðsins." Forráðamenn Tónstofunnar og nemendur hennar þakka ómetanlegan stuðning og velvild.

▪ Vetrarfrí og starfsdaga nýttu tveir kennarar Tónstofunnar svo til að heimsækja Nordplus Junior samstarfsaðilana í Finnland (sjá hér að ofan).
https://www.youtube.com/watch?v=aNaMIGV1eG8&feature=share

▪ Tíunda mars 2017 kom Rut Ingólfsdóttir færandi hendi í Tónstofuna með bókina "Þegar draumarnir rætast. Saga Kammersveitar Reykjavíkur 1974-2016." Auk þess gaf hún skólanum geisladiska Kammersveitarinnar sem nýtast munu við kennslu. Færum við henni hjartans þakkir fyrir höfðinglegar gjafir.

▪ Nemendur úr Skólahljómsveit Austurbæjar undir stjórn Vilborgar Jónsdóttur og nemendur Tónstofunnar sem sækja tíma sína hjá Jónu Þórsdóttur í Frístundaheimilinu Öskju héldu tónleika föstudaginn 31. mars. Flutt voru Dýralög samin af Haraldi V. Sveinbjörnssyni og skemmtu flytjendur og gestir sér konunglega. Á veggjum voru dýramyndir málaðar af listafólki í Öskju. Kærar þakkir fyrir frábæra tónleika. Tónleikarnir voru endurteknir í Klettaskóla föstudaginn 7. apríl.

▪ Bernharður Máni Snædal tók þátt í Upptaktinum 2017. Við óskum honum innilega til hamingju með verkið sitt "The Lonely Road" sem frumflutt var af Unnsteini Manuel Stefánssyni og hljómsveit Upptaktsins í Hörpu þriðjudaginn 25. apríl. Þetta var í fjórða sinn sem Bernharð Máni tók þátt í Upptaktinum og óskum við einnig kennara hans Marie Huby innilega til hamingju með nemanda sinn og þeirra frábæra samstarf. Um upptaktinn segir: "Með Upptaktinum, – Tónsköpunarverðlaunum barna og ungmenna, er ungu fólki gefið tækifæri til að senda inn tónsmíð eða drög að henni og vinna markvisst úr hugmyndum sínum með fulltingi listamanna. Þau verk sem valin eru, verða fullunnin í vinnustofu með aðstoð tónskálda og fagfólks í tónlist. Að því ferli loknu hafa orðið til ný tónverk. Hljóðfæraleik og framkvæmd annast fagfólk í tónlist. Tónverkin verð flutt á metnaðarfullri og glæsilegri tónleikadagskrá í Kaldalóni Hörpu þann 25. apríl 2017 kl. 17.00 sem er upphafsdagur Barnamenningarhátíðar í Reykjavík. Öll verkin sem flutt verða á tónleikunum hljóta tónsköpunarverðlaunin; Upptaktinn 2017 Upptakturinn er á vegum Hörpu í samstarfi við Barnamenningarhátíð og Listaháskóla Íslands og KrakkaRÚV."

▪ Sunnudaginn 7. maí tók Tónstofan á móti styrk frá Barnavinafélaginu Sumargjöf. Við það tækifæri léku og sungu fimm nemendur frá Tónstofunni tvö lög: Andrea Elizabeth Gavern Lára Þorsteinsdóttir Kristín Hrefna Halldórsdóttir Gísli Björnsson og Ólafur Snævar Aðalsteinsson Þessir nemendur ferðuðust til Lettlands í lok júní og tóku þar þátt í Jónsmessuhátíð með finnskum og lettneskum vinum sínum sem heimsóttu Tónstofuna í október sl. Við þökkum innilega fyrir stuðning Sumargjafar sem mun gera okkur kleift að endurnýja og bæta við 20 ára gamlar Suzuki tónbjöllur bjöllukórsins.

▪ Helgarnar 13. til 14. og 20. til 21. maí voru hefðbundnir vortónleikar í Tónstofunni, alls níu að tölu. Sunnudaginn 28. maí voru svo afmælistónleikarnir sjálfir haldnir í Salnum í Kópavogi fyrir fullu húsi. Innilegar þakkir fær Eliza Reid forsetafrúa og aðrir góðir tónleikagestir sem glöddu með góðri nærveru, fagnaðarlátum og gjöfum á afmælistónleikunum. Mikið þótti okkur vænt um að sjá „gamla“ nemendur á tónleikunum og rifja upp ljúfar stundir. Við erum stolt af nemendahópunum sem komu fram að þessu sinni og léku og sungu af hjartans list. Við erum líka stolt af frammistöðu allra hinna nemendanna sem fylgdu okkur í vetur og létu ljós sitt skína á nemendatónleikum skólans. Hjartans þakkir fær allt það góða fólk sem tók þátt í afmælistónleikunum með okkur og gerði þennan dag ógleymanlegan: Unnsteinn Manuel Stefánsson, nemendurnir úr Skólahljómsveit Austurbæjar, Vilborg Jónsdóttir, strengjakvartettinn úr Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar, Álfheiður Erla Guðmundsdóttir, Valgeir Daði Einarsson, Sigurður Ingi Einarsson, Ingibjörg Fríða Helgadóttir og Hafþór Karlsson.

▪ Miðvikudaginn 7. júní heimsótti okkur hópur listamanna frá Gjøvik Kunst- og kulturskolen í Noregi, 25 listamenn auk fylgdarmanna (52). Gestirnir okkar frá Noregi áttu hér góða daga. Þau heimsóttu Tónstofuna sungu, dönsuðu og sýndu okkur listaverkin sín. Skoðuðu landið, fóru á hestbak, og margt fleira. Sunnudaginn 11. júní, á sjómannadaginn, sungu þau og dönsuðu í guðsþjónustu í Háteigskirkju. Sönggleði og einlæg tjáning réði ríkjum. Vil ég þakka starfsfólki Háteigskirkju hjartanlega fyrir að taka fallega á móti hópnum og þá sérstaklega séra Maríu Ágústsdóttur sem bæði talaði til gestanna og predikaði á norsku, svo að allir gætu fylgst með. Þessi hjartnæma stund með Maríu í Háteigskirkju mun falla okkur öllum seint úr minni. Hópurinn hélt heim á leið að loknu kirkjukaffi í safnaðarheimilinu. Það var gaman að hitta þetta gjafmilda, glaða og skapandi fólk. Vonandi mun vinskapurinn þróast og hver veit, kannski geta nemendur Tónstofunnar heimsótt þessa frábæru listamenn í náinni framtíð. Við þökkum Ola Narten Svendsen og öllum hinum innilega fyrir okkur!

▪ Kammerhópur Tónstofunnar ásamt fylgdarliði fór í ferðalag til Lettlands dagana 19. til 25. júní. Ferðalagið var liður í Nordplus Junior samstarfi afmælisársins sem sagt hefur verið frá á heimasíðu skólans. Verkefnið ber yfirskriftina „Deilum menningararfinum í listsköpun“. Lettnesku gestgjafarnir tóku á móti okkur af sinni alkunnu gestrisni og allt gekk snuðrulaust fyrir sig. Listafólkið í Kammerhópnum stóð sig afburða vel; fór með texta, dansaði, lék og söng af snilld með öllu hinu tónlistarfólkinu. Vonandi verður þátttaka okkar til þess að finnski og lettneski tónlistarskólinn opni dyr sínar fyrir öllum sem áhuga hafa á tónlistarnámi. Kammerhópurinn sem tók þátt að þessu sinni er frábær fyrirmynd. Reynslunni ríkari, glöð og stolt færum við innilegar þakkir til allra sem gerðu þetta mögulegt. We speak different languages but we share a common love for music. There is but one sky and we are all born with a beautiful song in our hearts. Enormously grateful for the adventures we have experienced while sharing with our friends our cultural heritage through music our gratitude goes to Mr. Tapani Lakaniemi and Marite Purine for their initiative, care, and endless hospitality. We are also thankful for the funds from the Nordplus Junior program (the Nordic Council of Ministers) which has made this financially possible. And to all the artists, thank you for your beautiful heartwarming musical gifts. On stage there are no boarders. We share beauty and love from one heart to another.