Upplýsingar í byrjun skólaárs

Kæru nemendur og forráðamenn.

Skólaárið hófst 21. ágúst með æfingum Bjöllukórsins, en fyrsti reglulegi kennsludagurinn var 25. ágúst. Í upphafi skólaársins eru 122 nemendur skráðir í skólann og eftirvæntingarfullur hljómur þeirra streymir nú úr hverju horni. Stundatöflurnar eru enn á örlítilli hreyfingu sem er eðlilegt á meðan forráðamenn og kennarar eru að skipuleggja og samræma oft flókna dagskrá nemendahópsins.

Nokkrar breytingar hafa orðið á starfsliði Tónstofunnar á milli ára og kveðjum við nú Ásrúnu I. Kondrup sem var í 37% kennarastöðu og Kirstínu Ernu Blöndal sem var í 25% kennarastöðu. Mikil eftirsjá er að starfskröftum þeirra. Við þökkum þeim innilega fyrir ljúfa nærveru og frábær störf á liðnum árum og óskum þeim velfarnaðar í lífi og starfi.

Við erum svo lánsöm að njóta starfskrafta Mínervu M. Haraldsdóttur sem kenndi nemendum Marie Huby er kemur nú til baka eftir árs barneignarleyfi. Mínerva tekur við nemendum Ásrúnar. Ari Agnarsson er kominn úr veikindaleyfi og verða kennarar Tónstofunnar því fimm í vetur.

Búið er að skrá nemendahópinn í frístundakerfi Reykjavíkurborgar og Kópavogs og geta nemendur/forráðamenn nú ráðstafað styrknum til Tónstofunnar óski þeir þess.

Skólagjöld Tónstofunnar hafa hækkað lítillega á milli ára og er það vegna útgjaldaliða að kröfu Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar sem og hækkunar húsaleigu sem ekki verður mætt með öðrum hætti.

Sóttvarnir í Tónstofunni.

  • Mikilvægt er að kennarar, nemendur og forráðamenn mæti ekki í Tónstofuna ef þeir finna fyrir einkennum sem gætu stafað af COVID-19 (einkennin geta líkst venjulegri flensu).

  • Kennarar og nemendur fylgja fyrirmælum frá Skóla- og frístundasviði varðandi sóttvarnir og hafa sýnt sérstaka aðgát til að koma í veg fyrir röskun á skólastarfi.

  • Að höfðu samráði við fræðslustjóra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu er lagt til að farið sé varlega í breytingar og að 2ja metra nálægðartakmörk séu virt fyrir aðila sem ekki tengjast skólanum. Jafnframt gildir eftirfarandi:

  • Eins metra regla er viðhöfð.

  • Nemendur, kennarar og forráðamenn eru hvattir til að þvo sér og nota handspritt við komu í skólann og einnig áður en þeir fara. Óski nemandi eftir því að nota grímu í kennslustund er hann hvattur til að koma með sína eigin en getur þó fengið grímu í Tónstofunni.

  • Tónstofan fylgir sérstökum leiðbeiningum um þrif í skólum. Fyllsta hreinlætis er gætt og borð, stólar, hljóðfæri og önnur tæki sem notuð eru við kennslu eru sótthreinsuð á milli nemanda. Aðrir yfirborðsfletir svo sem hurðarhúnar eru sótthreinsaðir daglega.

  • Tónlistarkennarar sem fara á milli skóla huga vel að persónubundnum sóttvarnaráðstöfunum og nálægðartakmörkunum. Þeir nýti sem minnst sameiginleg rými í mismunandi skólum t.d. salerni og kaffistofur.

  • Aðgengi utanaðkomandi aðila sem ekki tengjast skólasamfélaginu skal vera sem minnst.

  • Utanaðkomandi aðilar virði alltaf minnst 2ja metra regluna við alla í skólanum bæði starfsfólk og nemendur auk persónubundna sóttvarna.

  • Starfsemi sem ekki tengist skólanum er ekki leyfð til og með 20. september t.d. kórastarf fullorðinna og hópfundir með foreldrum.

  • Skólastjórnendur haldi áfram að takmarka blöndun starfsfólks t.d. á milli húsa og starfseininga eins og kostur er.

  • Staðan verður endurmetin í samráði við fræðslustjóra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fyrir sunnudaginn 20. september n.k.

Forráðamenn og nemendur eru hvattir til að hafa samband við undirritaða í síma 8622040 eða í tölvupósti tonsvj@mmedia.is vakni spurningar um fyrirkomulag námsins eða annað er snertir hag nemenda/forráðamanna.

Með kærri kveðju,

Valgerður