Dagur tónlistarskólanna

Fyrsti laugardagur febrúarmánaðar er tileinkaður Tónlistarskólum þessa lands. Markmið dagsins er að  vekja athygli á fjölbreyttri og öflugri starfsemi tónlistarskólanna í landinu og að styrkja tengsl við nærsamfélagið.

Á Degi tónlistarskólanna nota þeir tækifærið og standa fyrir alls kyns viðburðum, svo sem tónleikum, fyrirlestrum, opnu húsi, námskeiðum, hljóðfærakynningum og fleiru. Þá heimsækja nemendur einnig aðra skóla, vinnustaði og heilbrigðisstofnanir í þeim tilgangi að kynna starfið og gleðja aðra með leik og söng. Á liðnum árum hefur Bjöllukór Tónstofu Valgerðar verið í framvarðarsveit skólans þennan dag og tekið á móti gestum með leik og söng. Í ár nýtum við daginn og febrúarmánuð til að kynna á rafrænan hátt starfsemi Tónstofunnar og mikilvægi skólans í íslensku samfélagi sem og í flóru þeirra tónlistarskóla landsins sem hún tilheyrir. 

Dagur tónlistarskólanna er tileinkaður minningu dr. Gylfi Þ. Gíslasonar (7. febrúar 1917- 18. ágúst 2004) sem var menntamálaráðherra frá 1956-1971 eða í 15 ár. Í embætti beitti hann sér fyrir margvíslegum umbótum í skóla- og menningarmálum sem við búum enn að. Árið 1959 gaf dr. Gylfi út reglugerð um stofnun söngkennaradeildar (síðar nefnd tónmenntakennaradeild) við Tónlistarskólann í Reykjavík til þess að bæta úr kennaraskorti. Síðar voru svo einnig stofnaðar hljóðfærakennaradeildir. Dr. Gylfi beitti sér jafnframt fyrir undirbúningi að stofnun tónlistarskóla á landsbyggðinni, en samkvæmt heimildum voru tíu tónlistarskólar á Íslandi árið 1960. Þeir voru allir í einkarekstri og sumstaðar reknir við svo bág skilyrði og mikið öryggisleysi, að skólahald gat fallið niður ef illa áraði. Þessir skólar nutu einhvers stuðnings sveitarfélaga og styrkja úr ríkissjóði, en um það giltu engar reglur. Haustið 1962 boðaði dr. Gylfi skólastjórana til tveggja daga fundar í Reykjavík. Fundinum lauk með ályktun í tíu liðum, þar sem mörkuð var í höfuðatriðum sú stefna sem fylgt var næstu áratugi í þróun tónmenntakennslu í landinu.

Í minningargrein um dr. Gylfa Þ. Gíslason ritar Sigursveinn Magnússon fyrir hönd Samtaka tónlistarkóla í Reykjavík (27. ágúst 2004, mbl.is). „ … Mig langar í fáum orðum að minna á hinn stóra þátt Gylfa í menningarsókn þjóðarinnar á sviði tónlistarmenntunar á 7. áratugnum. Hann var sjálfur fróður um tónlist og hagur sönglagasmiður og skildi vel áhrifamátt tónlistarinnar. Eitt af fyrstu verkum hans sem menntamálaráðherra var að skoða stöðu tónlistarmenntunar í landinu og hafa frumkvæði að lagasetningu um opinber framlög til hennar, en Ísland var þá enn skammt á veg komið á þessu sviði. Gylfi taldi að skapa þyrfti skilyrði til að gera tónlistarnám aðgengilegt fyrir alla, óháð efnahag og búsetu og það yrði best gert í samvinnu ríkisins og sveitarfélaganna. Þetta skipulag reyndist síðan hin mesta völundarsmíð, virkaði hvetjandi á sveitarfélög til stofnunar tónlistarskóla. Nauðsynleg hvatning, stöðugleiki og fagleg leiðsögn var tryggð með kostnaðarhlutdeild ríkisins. Lögin um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla sem samþykkt voru á alþingi árið 1963 að forgöngu Gylfa Þ. Gíslasonar hafa valdið straumhvörfum í tónlistarmenntun þjóðarinnar og verið forsenda fyrir þeim framförum sem eru heyranleg hvarvetna í kringum okkur. Árangursrík tónlistarmenntun á Íslandi hefur einnig spurst út og orðið fyrirmynd annarra þjóða vegna þess hve skipulag hennar er einfalt og skilvirkt. Lát Gylfa ber að á sama tíma og tónlistarskólarnir eru að nesta sig fyrir vetrarstarfið og nemendur stilla hljóðfærin sín fyrir krefjandi æfingar til að öðlast enn meiri færni og vinna ný lönd á sviði listarinnar. Tónlistarnám er nú sjálfsagður hluti af námi þúsunda Íslendinga og snertir daglegt líf allrar þjóðarinnar. Okkur er hollt að muna að þessi þróun hefur ekki orðið fyrir tilviljun heldur fyrir einbeittan vilja þeirra sem valist hafa til ábyrgðar og vilja hafa áhrif á samfélagið til að efla okkur sem þjóð í átökum við ókunn öfl í mósku framtíðarinnar. Megi sá vorhugur og dirfska sem einkenndi verk Gylfa Þ. Gíslasonar enn ríkja í framtíð tónlistarmenntunar á Íslandi. …“

Uppfærðar upplýsingar um fjölda tónlistarskóla í landinu á þessu skólaári (2020-2021) eru ekki aðgengilegar né heldur upplýsingar um fjölda tónlistarkennara og tónlistarnemenda. En nærri lætur að skólarnir séu um 85 talsins, að fjöldi tónlistarkennara sé mörg hundruð og að nemendahópurinn telji þúsundir.

Enn er vorhugur í framvarðarsveit tónlistarskólanna. Tónlistarlífið í landinu blómstrar sem aldrei fyrr og er bæði þróttmikið og fjölbreytilegt þrátt fyrir áskoranir þær sem Covid-19 hefur lagt á okkur. Við horfum bjartsýn til framtíðar og væntum mikils af nýrri löggjöf um tónlistarskóla. Löggjöf sem: styrkir undirstöður starfsins enn frekar, slær í takt við nýja tíma, viðurkennir mikilvægi tónlistarskólanna í menntun þjóðar og eflir hlutverk tónlistarskólanna í þágu samfélagsins, menntunar og menningar fyrir alla.

 Til hamingju með daginn!

Valgerður Jónsdóttir, skólastjóri Tónstofu Valgerðar