Aðalfundur Foreldra- og styrktarfélags Tónstofu Valgerðar 2020
Góðan dag.
Aðalfundur Foreldra- og styrktarfélags Tónstofu Valgerðar verður haldinn mánudaginn 30. nóvember kl. 18:30 í Tónstofunni að Stórhöfða 23.
Dagskrá aðalfundarins tekur mið af almennum lögum um fundarsköp og er sem hér segir:
1. Kosning fundarstjóra og fundarsetning.
2. Skýrsla stjórnar.
3. Reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.
4. Ákvörðun félagsgjalda.
5. Kosning stjórnar.
6. Kosning skoðunarmanna reikninga.
7. Fyrirspurnir og umræður.
Vegna fjöldatakmarkana í samkomubanni biður stjórn félagsins þá sem ætla að mæta á aðalfundinn um að senda tölvupóst á netfangið tonsvj@mmedia.is eigi síðar en fyrir klukkan 12, laugardaginn 28. nóvember. Foreldrafélagið starfar fyrir nemendur og foreldra Tónstofunnar. Fyrirspurnir og athugasemdir varðandi starfsemi, framgang og markmið Foreldra- og styrktarfélags Tónstofunnar, sem jafnframt gegnir hlutverki skólanefndar, má senda á netfangið tonsvj@mmedia.is
Á heimasíðu Tónstofunnar má finna lög félagsins, skólanámskrá Tónstofunnar og annað efni er tengist starfi Tónstofunnar á liðnum árum. www.tonstofan.is.
Með bréfi þessu vill núverandi stjórn kynna tilurð og starfsemi félagsins.
Foreldra- og styrktarfélag Tónstofu Valgerðar var stofnað haustið 2000. Meginmarkmið þess var að efla Tónstofuna og stuðla að því að hún yrði sjálfstæður tónlistarskóli sem nyti sömu fyrirgreiðslu og aðrir tónlistarskólar en þar sem nemendur sem þyrftu sérstakan stuðning hefðu forgang. Í því sambandi vísar félagið til laga um tónlistarskóla, Aðalnámskrá tónlistarskóla (almennur hluti, 2000) og laga um jafnrétti fatlaðra til náms. Staðreyndin er sú að í Tónstofunni hafa verið nemendur sem ekki hafa átt greiðan aðgang að tónlistarskólum landsins og nemendur sem vísað hefur verið frá námi þegar sýnt þótti að þeir uppfylltu ekki kröfur um námsárangur eða þegar einstakir kennarar gáfust upp af því að sérþekkinguna skorti.
Valgerður Jónsdóttir hefur unnið einstakt og ómetanlegt brautryðjandastarf á þeim árum sem liðin eru frá því Tónstofa hennar tók til starfa (1986). Þar hefur hún og frábærir samkennarar hennar annast kennslu nemenda með mjög mismunandi fatlanir og náð ótrúlegum árangri eins og allir geta borið vitni um sem hlýtt hafa á nemendatónleika Tónstofunnar. Nemendahópurinn er á öllum aldri og kemur úr Reykjavík og nágrannasveitarfélögunum. Námið er aðlagað þörfum og þroska hvers einstaklings. Þeir einstaklingar sem hér um ræðir eiga sér ekki volduga talsmenn. Því er brýnt að allir áhugamenn taki höndum saman og standi vörð um Tónstofu Valgerðar og þá starfsemi sem þar fer fram.
Félagsgjöld og styrktarfé sem félagið aflar hefur meðal annars verið nýtt til kaupa á hljóðfærum svo sem flygli, píanói, hljómborði og ásláttarhljóðfærum. Einnig styrkti félagið kaup á stólum í húsnæðið á Stórhöfða og kaup á myndavél sem nýtist á tónleikum og við kennslu. Félagsgjöld innheimtast að vori en greiðsla þeirra er valfrjáls.
Foreldrafélagið hefur einnig umsjón með Styrktar- og minningarsjóði Bjöllukórs Tónstofu Valgerðar sem stofnaður var í minningu Kára Þorleifssonar sem lést 16. mars 2011. Kári var einn af meðlimum Bjöllukórsins og nemandi Tónstofunnar til margra ára. Frumkvöðlar að stofnun sjóðsins voru foreldrar Kára, þau Þorleifur Hauksson og Guðný Bjarnadóttir. Sjóðurinn er í vörslu Foreldra- og styrktarfélags Tónstofunnar og aflar fjár með minningargjöfum. Markmið Styrktarsjóðsins er að styðja við og efla starfsemi Bjöllukórsins og Tónstofunnar. Minningarkort eru send í gegnum heimasíðu Tónstofunnar https://tonstofan.is/styrktarsjodur/
Foreldra- og styrktarfélag Tónstofu Valgerðar gegnir hlutverki skólanefndar.
Í henni sitja nú:
Rut Ríkey Tryggvadóttir, formaður
Gerður Steinþórsdóttir, varaformaður
Gunnhildur Gísladóttir, gjaldkeri
Ásthildur Gyða Torfadóttir, ritari
Jóhanna Andrea Jónsdóttir, meðstjórnandi
Ottó Leifsson, meðstjórnandi
Valgerður Jónsdóttir, meðstjórnandi og fulltrúi kennara