Frá aðalfundi Foreldra- og styrktarfélags Tónstofunnar 2020

Foreldra- og styrktarfélag Tónstofunnar sem jafnframt gegnir hlutverki skólanefndar hélt aðalfund sinn mánudaginn 30. nóvember. Dagskrá fundarins tók mið af almennum lögum um fundarsköp. Rut Ríkey Tryggvadóttir formaður las greinargóða skýrslu stjórnar. Gunnhildur Gísladóttir gjaldkeri lagði fram reikninga félagsins og voru þeir samþykktir.

Anna Björg Halldórsdóttir og Sigurjón Högnason gáfu áfram kost á sér sem skoðunarmenn reikninga. Þökkum við þeim kærlega fyrir vel unnin störf á liðnum árum. Engin framboð bárust til setu í stjórn félagsins. Stjórnin gaf því öll kost á sér til áframhaldandi setu. Samkvæmt lögum félagsins er stjórn kosin til eins árs í senn. Undirrituð færir stjórninni innilegar þakkir fyrir trygglyndi, frábær störf, stuðning og velvild alla á liðnum árum.

Fundurinn ákvað að halda félagsgjöldunum óbreyttum, eða krónur 3.000. Þau innheimtast að vori en greiðslan er valfrjáls.

Á fundinum voru þakkir færðar fyrir styrki og gjafir sem borist höfði Tónstofunni frá síðasta aðalfundi.  Súsanna Ernst Friðriksdóttir gladdi Tónstofuna enn á ný með góðri gjöf um jól 2019, sem nýtt var til að fella niður skólagjöld vegna sérstakra aðstæðna hjá nemendum. Í júnímánuði barst Tónstofunni hjartfólgin gjöf frá Luigi Bartolozzi og Ragnheiði Sverrisdóttur, í minningu dóttur þeirra Alexiu Bartolozzi heitinnar, sem fæddist 8. júlí 1995 og lést 6. apríl 2010. Gjöfin voru hljóðfæri Alexiu en hún var nemandi hjá Jónu Þórsdóttur í Tónstofunni frá janúar 2006 fram að dánar dægri og hafði mikið yndi af tónlist. Hljóðfærin nýtast nemendum Tónstofunnar sem sækja tíma sína í Klettaskóla og Öskju þar sem Alexia var einnig nemandi.

Jafnframt þökkum við innilega fyrir stóla og borð sem bárust frá hjónunum Jóhönnu Andreu Jónsdóttur og Árna Tómasi Ragnarssyni. Mublurnar sóma sér vel í Tónstofunni og gera bið nemenda og forráðamanna þægilega.

Undirrituð hvetur nemendur og forráðamenn til að hafa samband vilji þeir gera athugasemdir við störf félagsins/skólanefndarinnar og einnig ef þeir luma á góðum hugmyndum varðandi starf og framtíð Tónstofunnar.   

Með kærri aðventukveðju,

Valgerður