Stöðuuppfærsla vegna COVID-19

Kæru nemendur og forráðamenn!

Starfið í Tónstofunni heldur áfram á meðan við erum hvött til þess af skólayfirvöldum. Það tekur hins vegar breytingum frá degi til dags og nú er Jóna Þórsdóttir komin í sóttkví þar sem stór hluti nemendahóps hennar eru jafnframt nemendur Klettaskóla. Jóna hefur samband við sína nemendur vegna þessa. Allir þeir sem starfa innan veggja Klettaskóla hafa nú farið í sóttkví.

Ég vek athygli á því að fleiri kennarar Tónstofunnar kenna nemendum sem sækja Klettaskóla en þar til við finnum fyrir einkennum er okkur sagt að það sé í lagi að halda áfram þar sem kennslan hafi ekki farið fram innan veggja Klettaskóla.

Nemendur sem koma frá Ás-styrktarfélagi hafa ekki mætt í skólann frá 4. mars og margir forráðamenn hafa af skynsamlegum varúðarráðstöfunum kosið að halda viðkvæmum börnum sínum heima. Margir forstöðumenn sambýla hafa einnig tekið þá ákvörðun að halda skjólstæðingum sínum heima. Það er því fremur hljóðlátt í Tónstofunni þessa daga.

Starfið í Tónstofunni er þess eðlis að ekki er mögulegt að halda þeirri fjarlægð sem mælt er með og þó við gerum okkar ítrasta til að sótthreinsa á milli nemenda þá er ekki hægt að meta hversu vel tekst til í þeim efnum!

Fyrir þau ykkar sem haldið börnum ykkar heima er hér skemmtilegur vefur með mörgum barnalögum og hugmyndum að tónlistar-, dans- og hreyfiverkefnum með leikskólabörnum en sem vel má nýta með eldri nemendum. Einnig eru á vefnum sögur með viðlögum, ævintýri og þjóðsögur, svo og þjóðlög frá ýmsum löndum.

https://www.bornogtonlist.net/#tophome

Gangi ykkur vel og kær kveðja,

Valgerður