Innheimta skólagjalda veturinn 2022-2023

Kæru nemendur og forráðamenn.

Upplýsingar vegna breytinga á innheimtufyrirkomulagi kennslugjalda í íþrótta- og tómstundastarfi í Reykjavík.

Takið eftir! Skólagjöld Tónstofunnar eru óbreytt frá því í fyrra!  Skólagjöld skólanna standa undir rekstrarkostnaði öðrum en launum kennara sem eiga að vera greidd af sveitarfélögunum þegar best lætur. 

Eins og lesa má um á heimasíðu Tónstofunnar þá hefur kerfisbreyting átt sér stað er tengist innheimtu skólagjalda. Tónstofan vonar að þær muni ekki valda nemendum og forráðamönnum þeirra teljandi vandræðum. Þessi breyting kann samt að valda forráðamönnum óþægindum líkt og hún veldur skólastjórnanda Tónstofunnar, en vonandi komumst við í gegnum þetta saman.  

Nórakerfið sem Tónstofan og aðrir tónlistarskólar notuðu á síðasta skólaári (tengt greiðslumiðlun og ráðstöfun frístundakorta) hefur verið sameinað Sportabler kerfinu. Markmiðið með þeirri sameiningu er að sögn að bjóða uppá eina lausn sem þjónustar íþrótta- og tómstundastarf með öflugri og heildstæðari hætti en áður hefur þekkst.  

Í innheimtu skólagjalda Tónstofunnar skólaárið 2022-2023, sem nú er hafin í gegnum Sportabler https://www.sportabler.com/shop/  geta forráðamenn og nemendur greitt skólagjöldin í einu lagi eða ákveðið að skipta þeim í allt að 8 greiðslur (í fyrra voru skólagjöld þeirra sem ekki gátu nýtt sér frístundastyrkinn innheimt með fjórum jöfnum greiðslum). Forráðamenn geta líka ákveðið að ráðstafa frístundastyrknum til Tónstofunnar líkt og áður og lækkar þá innheimtan frá greiðslumiðlun sem því nemur.

Ég ítreka að skólagjöldin hafa ekki hækkað! Við þurfum að hjálpumst að við að komast í gegnum þessar kerfisbreytingar. Hikið ekki við að hafa samband við undirritaða nú eða afla ykkur upplýsinga í gegnum Frístundakort Reykjavíkurborgar og Kópavogs. Sjá hér að neðan. Nemendur með lögheimili í öðrum sveitarfélögum eiga einnig að nýta sér greiðslufyrirkomulagið í gegnum Sportabler og fara þar inn (sjá hér að ofan) með auðkenni eða íslykli líkt og aðrir.

Frístundakort Reykjavíkurborgar er styrkjakerfi í frístundastarfi fyrir 6 - 18 ára börn og unglinga með lögheimili í Reykjavík. Styrkurinn er 50.000 krónur á barn. Takið eftir! Ekki er lengur hægt að ráðstafa frístundastyrknum í gegnum Rafræna Reykjavík heldur eingöngu í gegnum skráningarkerfi félaga. Nánari upplýsingar um Frístundakort Reykjavíkurborgar má finna hér. https://reykjavik.is/fristundakortid

Einnig er hægt að nýta Frístundakort Kópavogsbæjar sem veitir foreldrum/forráðamönnum barna á aldrinum 5-18 ára með lögheimili í Kópavogi frístundastyrk vegna þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Frá og með 1. janúar 2022 er styrkurinn 56.000 krónur á barn á ári. Heimilt er að ráðstafa frístundastyrknum hvenær sem er á árinu óháð fjölda greina/námskeiða. Nánari upplýsingar um Frístundakort Kópavogsbæjar má finna hér. https://www.kopavogur.is/is/ibuar/ithrottir-utivist/fristundastyrkir

Forráðamönnum með lögheimili í öðrum sveitarfélögum er bent á að kynna sér frístundakerfi síns sveitarfélags. Með von um að þessi breyting sem er ekki í höndum undirritaðrar takist vel og verði þegar frá líður einungis til aukinna þæginda.

Vinsamlegast hefjið greiðslu skólagjaldanna!

Kær kveðja, Valgerður