Aðalfundur Foreldra- og styrktarfélags Tónstofunnar.

Kæru nemendur og forráðamenn.

Við minnum á aðalfund Foreldra- og styrktarfélags Tónstofu Valgerðar sem verður haldinn þriðjudaginn 11. nóvember kl. 17:30 í Tónstofunni að Stórhöfða 23.

Dagskrá aðalfundarins tekur mið af almennum lögum um fundarsköp og er sem hér segir:

1. Fundarsetning og kosning fundarstjóra.

2. Skýrsla stjórnar.

3. Reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.

4. Ákvörðun félagsgjalda.

5. Kosning stjórnar.

6. Kosning skoðunarmanna reikninga.

7. Fyrirspurnir og umræður.

 

Á skólaárinu fagnar Foreldrafélagið 25 ára starfsafmæli sínu, en félagið var stofnað árið 2000 þegar standa þurfti vörð um Tónstofu Valgerðar og berjast fyrir því að hún yrði sjálfstæður tónlistarskóli sem nyti sömu fyrirgreiðslu og aðrir tónlistarskólar. Foreldra- og styrktarfélagið hefur æ síðan staðið þétt við bakið á skólastjórnendum og látið til sín taka þegar þurft hefur. Félagið starfar fyrir nemendur og forráðamenn þeirra.

Þeir sem ekki geta mætt á aðalfundinn geta sent fyrirspurnir og athugasemdir varðandi starfsemi, framgang og markmið Foreldra- og styrktarfélags Tónstofunnar sem jafnframt gegnir hlutverki skólanefndar á netfangið tonsvj@mmedia.is

Í stjórn Foreldra- og styrktarfélags Tónstofunnar sitja nú:         

Rut Ríkey Tryggvadóttir, formaður       

Gerður Steinþórsdóttir, varaformaður

Gunnhildur Gísladóttir, gjaldkeri

Jóhanna Andrea Jónsdóttir, meðstjórnandi

Ottó Leifsson, meðstjórnandi

Valgerður Jónsdóttir, ritari og fulltrúi kennara       

                                                                                 

Samkvæmt 6. grein gildandi laga félagsins skal stjórnin skipuð sjö mönnum. Við hvetjum áhugasama um að mæta á fundinn og gefa kost á sér til stjórnarsetu.

Lög Foreldra- og styrktarfélags Tónstofu Valgerðar

1. gr. Félagið heitir Foreldra- og styrktarfélag Tónstofu Valgerðar. Lögheimili og varnarþing félagsins er í Reykjavík. Stjórn félagsins gegnir hlutverki skólanefndar Tónstofu Valgerðar.

2. gr. Markmið félagsins er að vera stuðningsaðili í öllu starfi skólans.

3. gr. Markmiðum sínum hyggst félagið ná með því að:                                             
a. Veita skólastjórnendum aðhald og hollráð í innra og ytra starfi skólans.     
b. Stuðla að kynningu á starfsemi skólans.                                                             
c. Efla samkennd meðal nemenda og foreldra/forráðamanna.

4. gr. Í félaginu eru lögráða nemendur og foreldrar/forráðamenn ólögráða nemenda Tónstofunnar. Virkir félagsmenn eru þeir sem greiða félagsgjald. Virkir félagsmenn hafa atkvæðisrétt á aðalfundi Foreldra- og styrktarfélagsins. Velunnarar Tónstofunnar sem vilja leggja starfinu lið geta einnig orðið félagsmenn (óvirkir eða virkir).

5. gr. Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Hann skal haldinn í október/nóvember árlega. Aðalfund skal boða rafrænt með a.m.k. viku fyrirvara. Fundurinn telst lögmætur sé rétt til hans boðað. Dagskrá aðalfundar tekur mið af almennum lögum um fundarsköp.

6. gr. Stjórn félagsins skal kjörin á aðalfundi til eins árs í senn. Hún skal skipuð sjö mönnum. Stjórnin skiptir með sér verkum. Reikningsár félagsins er frá 1. ágúst til 31. júlí.

7. gr. Félagsgjald er valfrjálst. Upphæðin ákvarðast á aðalfundi og innheimtist að vori. Stjórnin sér um fjáröflunarleiðir fyrir félagið.

 

Kær kveðja,

Stjórn Foreldra- og styrktarfélags Tónstofu Valgerðar

 

Next
Next

Vetrarfrí hefst föstudaginn 24. október