Styrkur frá Barnavinafélaginu Sumargjöf

Sunnudaginn 7. maí tók Tónstofan á móti styrk frá Barnavinafélaginu Sumargjöf.

Við það tækifæri léku og sungu fimm nemendur frá Tónstofunni tvö lög:
Andrea Elizabeth Gavern
Lára Þorsteinsdóttir
Kristín Hrefna Halldórsdóttir
Gísli Björnsson og
Ólafur Snævar Aðalsteinsson
Þessir nemendur munu ferðast til Lettlands í lok júní og taka þar þátt í Jónsmessuhátíð með finnskum og lettneskum vinum sínum sem heimsóttu Tónstofuna í október sl. 

Við þökkum innilega fyrir stuðning Sumargjafar sem mun gera okkur kleift að endurnýja og bæta við 20 ára gamlar Suzuki tónbjöllur bjöllukórsins.

Endurnýjun umsókna og innritun nýnema

Endurnýjun umsókna og innritun nýnema fyrir næsta skólaár 2017-2018 stendur yfir hjá Tónstofunni. 

Umsókn um skólavist fyrir næsta vetur er hvorki bindandi af hálfu umsækjanda né af hálfu skólans. Aðstæður skólans breytast frá ári til árs, en á hverjum tíma er reynt að koma til móts við eins marga umsækjendur og mögulegt er. Sótt er um skólavist með því að senda tölvupóst til skólans tonsvj@mmedia.is með nauðsynlegum upplýsingum. Sjá nánar hér. 
Allir umsækjendur þurfa einnig að sækja um á Rafrænni Reykjavík.

Nauðsynlegt er að endurnýja umsókn árlega bæði í tónlistarskólanum sjálfum og hjá lögheimilissveitarfélagi nemandans. 

Vakin er athygli á því að ef tónlistarskólinn er utan lögheimilissveitarfélags, þarf staðfest samþykki lögheimilissveitarfélags að liggja fyrir áður en nemandi hefur eða heldur áfram námi í tónlistarskólanum. Því er brýnt að þeir sem ætla sér að halda áfram námi í Tónstofunni veturinn 2017-2018 láti skólann vita og sendi inn beiðni til lögheimilissveitarfélags þar að lútandi eins fljótt og mögulegt er.

Sum sveitarfélög hafa þar til gert eyðublað/beiðni á heimasíðu sinni (nám í tónlistarskóla utan lögheimilissveitarfélags) sem nauðsynlegt er að fylla út og skila á viðkomandi skólaskrifstofu.
Hér er einnig umsóknareyðublað frá Tónstofunni sem forráðamenn eru beðnir um að fylla út og skila til Tónstofunnar og lögheimilissveitarfélags ef ekki er um annað eyðublað að ræða á skólaskrifstofunum. 

Umsækjendur fyrir næsta skólaár þurfa að vera skuldlausir við Tónstofuna og eru hlutaðeigandi hvattir til að greiða útistandandi skólagjöld fyrir 15. júní 2017. Um greiðslutilhögun má þó alltaf semja svo fremi að haft sé samband við skólann. 

Kær kveðja,
Dr. Valgerður Jónsdóttir, skólastjóri
Tónstofa Valgerðar ehf.
Stórhöfða 23
110 Reykjavík
tonsvj@mmedia.is
S: 561 2288862 2040

 

Upptakturinn

Tónstofan óskar Bernharði Mána Snædal innilega til hamingju með verkið sitt "The Lonely Road" sem frumflutt var af Unsteini Manuel Stefánssyni og hljómsveit Upptaktsins í Hörpu þriðjudaginn 25. apríl.

Þetta var í fjórða sinn sem Bernharð Máni tekur þátt í Upptaktinum og óskum við einnig kennara hans Marie Huby innilega til hamingju með nemanda sinn og þeirra frábæra samstarf.


Um Upptaktinn segir á vefsíðu Barnamenningarhátíðar:

"Með Upptaktinum, – Tónsköpunarverðlaunum barna og ungmenna, er ungu fólki gefið tækifæri til að senda inn tónsmíð eða drög að henni og vinna markvisst úr hugmyndum sínum með fulltingi listamanna. Þau verk sem valin eru, verða fullunnin í vinnustofu með aðstoð tónskálda og fagfólks í tónlist. Að því ferli loknu hafa orðið til ný tónverk. Hljóðfæraleik og framkvæmd annast fagfólk í tónlist. Tónverkin verð flutt á metnaðarfullri og glæsilegri tónleikadagskrá í Kaldalóni Hörpu þann 25. apríl 2017 kl. 17.00 sem er upphafsdagur Barnamenningarhátíðar í Reykjavík. Öll verkin sem flutt verða á tónleikunum hljóta tónsköpunarverðlaunin; Upptaktinn 2017 Upptakturinn er á vegum Hörpu í samstarfi við Barnamenningarhátíð og Listaháskóla Íslands og KrakkaRÚV."

http://barnamenningarhatid.is/

IMG_4322.JPG
IMG_4320.JPG
IMG_4321.JPG

Heimsókn í Klettaskóla

Nemendur úr Skólahljómsveit Austurbæjar og nemendur úr Tónstofunni sem sækja tónlistartíma sína í frístundaheimilinu Öskju heimsóttu Klettaskóla 7. apríl. Þau léku fyrir nemendur Klettaskóla Dýralög samin af Haraldi V. Sveinbjörnssyni undir stjórn Vilborgar Jónsdóttur og Jónu Þórsdóttur. Mikil eftirvænting og gleði ríkti í nemendahópnum sem lék fyrir skólafélaga sína. Dýralögunum var vel tekið og þökkum við innilega fyrir móttökurnar í Klettaskóla.

IMG_4316.JPG
IMG_4317.JPG
IMG_4318.JPG
IMG_4319.JPG