Endurnýjun umsókna skólaárið 2021-2022

Kæru nemendur og forráðamenn.

Undirbúningur fyrir skólaárið 2021-2022 er hafinn. Nauðsynlegt er að endurnýja umsókn árlega bæði í tónlistarskólanum sjálfum og hjá lögheimilissveitarfélagi nemandans.

Vakin er athygli á því að ef tónlistarskóli nemanda er utan lögheimilissveitarfélags, þarf staðfest samþykki lögheimilissveitarfélags að liggja fyrir áður en nemandi hefur eða heldur áfram námi í tónlistarskólanum. Því er brýnt að þeir sem ætla sér að halda áfram námi í Tónstofunni veturinn 2021-2022 láti skólann vita og sendi inn beiðni til lögheimilissveitarfélags þar að lútandi eins fljótt og mögulegt er.

Sum sveitarfélög hafa þar til gert eyðublað/beiðni á heimasíðu sinni (nám í tónlistarskóla utan lögheimilissveitarfélags), sem nauðsynlegt er að fylla út og skila á viðkomandi skólaskrifstofu. Sjá eyðublöð á heimasíðunni undir krækjunni Innritun.

Umsókn um skólavist fyrir næsta vetur er hvorki bindandi af hálfu umsækjanda né af hálfu skólans. Aðstæður skólans breytast frá ári til árs, en á hverjum tíma er reynt að koma til móts við eins marga umsækjendur og mögulegt er.

Umsækjendur fyrir næsta skólaár þurfa að vera skuldlausir við Tónstofuna og eru hlutaðeigandi hvattir til að greiða útistandandi skólagjöld fyrir 1. júní 2021. Um greiðslutilhögun má þó alltaf semja svo fremi að haft sé samband við skólann.

Ef spurningar vakna vinsamlegast hafið samband við skólastjóra Tónstofunnar í síma 8622040 eða á netfanginu tonsvj@mmedia.is 
Sjá tónlistarnám í Reykjavík - http://reykjavik.is/thjonusta/tonlistarnam-i-reykjavik

Electronic applications for enrollment in Music schools in Reykjavik have begun. Enrolled students need to renew their applications in consultation with their teacher and school authorities. Electronic application can be accessed through Reykjavík - www.rafraen.reykjavik.is 
The school's secretary can also assist parents in their application process.

Students who live outside Reykjavík must also contact their school administration office and apply for support due to "nám utan lögheimilissveitarfélag". 
If questions arise please contact Valgerður 
Phone: 8622040
tonsvj@mmedia.is

Kær kveðja,

Valgerður

https://www.instasgram.com/tonstofan/

https://www.facebook.com/tonstofavalgerdar

Auka frístundastyrkur! Kynnið ykkur rétt ykkar!

Kæru forráðamenn og nemendur.

Eru ekki allir búnir að ráðstafa frístundastyrknum sem ætla að nýta sér hann á vorönninni?

Ég hvet ykkur einnig til að kanna rétt ykkar á auka frístundastyrk að upphæð krónur 45 þúsund frá Reykjavíkurborg. Umsóknarfrestur hefur verið framlengdur til 15. apríl.

https://island.is/styrkur-til-ithrotta-og-tomstundastarfs

Hér fyrir neðan er tengill með texta frá fjölmenningarsetrinu á 11 tungumálum.

https://www.mcc.is/.../grants-for-sports-and-leisure.../

https://reykjavik.is/.../styrkur-til-barna-tekjulaegri...

Dagur tónlistarskólanna

Fyrsti laugardagur febrúarmánaðar er tileinkaður Tónlistarskólum þessa lands. Markmið dagsins er að  vekja athygli á fjölbreyttri og öflugri starfsemi tónlistarskólanna í landinu og að styrkja tengsl við nærsamfélagið.

Á Degi tónlistarskólanna nota þeir tækifærið og standa fyrir alls kyns viðburðum, svo sem tónleikum, fyrirlestrum, opnu húsi, námskeiðum, hljóðfærakynningum og fleiru. Þá heimsækja nemendur einnig aðra skóla, vinnustaði og heilbrigðisstofnanir í þeim tilgangi að kynna starfið og gleðja aðra með leik og söng. Á liðnum árum hefur Bjöllukór Tónstofu Valgerðar verið í framvarðarsveit skólans þennan dag og tekið á móti gestum með leik og söng. Í ár nýtum við daginn og febrúarmánuð til að kynna á rafrænan hátt starfsemi Tónstofunnar og mikilvægi skólans í íslensku samfélagi sem og í flóru þeirra tónlistarskóla landsins sem hún tilheyrir. 

Dagur tónlistarskólanna er tileinkaður minningu dr. Gylfi Þ. Gíslasonar (7. febrúar 1917- 18. ágúst 2004) sem var menntamálaráðherra frá 1956-1971 eða í 15 ár. Í embætti beitti hann sér fyrir margvíslegum umbótum í skóla- og menningarmálum sem við búum enn að. Árið 1959 gaf dr. Gylfi út reglugerð um stofnun söngkennaradeildar (síðar nefnd tónmenntakennaradeild) við Tónlistarskólann í Reykjavík til þess að bæta úr kennaraskorti. Síðar voru svo einnig stofnaðar hljóðfærakennaradeildir. Dr. Gylfi beitti sér jafnframt fyrir undirbúningi að stofnun tónlistarskóla á landsbyggðinni, en samkvæmt heimildum voru tíu tónlistarskólar á Íslandi árið 1960. Þeir voru allir í einkarekstri og sumstaðar reknir við svo bág skilyrði og mikið öryggisleysi, að skólahald gat fallið niður ef illa áraði. Þessir skólar nutu einhvers stuðnings sveitarfélaga og styrkja úr ríkissjóði, en um það giltu engar reglur. Haustið 1962 boðaði dr. Gylfi skólastjórana til tveggja daga fundar í Reykjavík. Fundinum lauk með ályktun í tíu liðum, þar sem mörkuð var í höfuðatriðum sú stefna sem fylgt var næstu áratugi í þróun tónmenntakennslu í landinu.

Í minningargrein um dr. Gylfa Þ. Gíslason ritar Sigursveinn Magnússon fyrir hönd Samtaka tónlistarkóla í Reykjavík (27. ágúst 2004, mbl.is). „ … Mig langar í fáum orðum að minna á hinn stóra þátt Gylfa í menningarsókn þjóðarinnar á sviði tónlistarmenntunar á 7. áratugnum. Hann var sjálfur fróður um tónlist og hagur sönglagasmiður og skildi vel áhrifamátt tónlistarinnar. Eitt af fyrstu verkum hans sem menntamálaráðherra var að skoða stöðu tónlistarmenntunar í landinu og hafa frumkvæði að lagasetningu um opinber framlög til hennar, en Ísland var þá enn skammt á veg komið á þessu sviði. Gylfi taldi að skapa þyrfti skilyrði til að gera tónlistarnám aðgengilegt fyrir alla, óháð efnahag og búsetu og það yrði best gert í samvinnu ríkisins og sveitarfélaganna. Þetta skipulag reyndist síðan hin mesta völundarsmíð, virkaði hvetjandi á sveitarfélög til stofnunar tónlistarskóla. Nauðsynleg hvatning, stöðugleiki og fagleg leiðsögn var tryggð með kostnaðarhlutdeild ríkisins. Lögin um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla sem samþykkt voru á alþingi árið 1963 að forgöngu Gylfa Þ. Gíslasonar hafa valdið straumhvörfum í tónlistarmenntun þjóðarinnar og verið forsenda fyrir þeim framförum sem eru heyranleg hvarvetna í kringum okkur. Árangursrík tónlistarmenntun á Íslandi hefur einnig spurst út og orðið fyrirmynd annarra þjóða vegna þess hve skipulag hennar er einfalt og skilvirkt. Lát Gylfa ber að á sama tíma og tónlistarskólarnir eru að nesta sig fyrir vetrarstarfið og nemendur stilla hljóðfærin sín fyrir krefjandi æfingar til að öðlast enn meiri færni og vinna ný lönd á sviði listarinnar. Tónlistarnám er nú sjálfsagður hluti af námi þúsunda Íslendinga og snertir daglegt líf allrar þjóðarinnar. Okkur er hollt að muna að þessi þróun hefur ekki orðið fyrir tilviljun heldur fyrir einbeittan vilja þeirra sem valist hafa til ábyrgðar og vilja hafa áhrif á samfélagið til að efla okkur sem þjóð í átökum við ókunn öfl í mósku framtíðarinnar. Megi sá vorhugur og dirfska sem einkenndi verk Gylfa Þ. Gíslasonar enn ríkja í framtíð tónlistarmenntunar á Íslandi. …“

Uppfærðar upplýsingar um fjölda tónlistarskóla í landinu á þessu skólaári (2020-2021) eru ekki aðgengilegar né heldur upplýsingar um fjölda tónlistarkennara og tónlistarnemenda. En nærri lætur að skólarnir séu um 85 talsins, að fjöldi tónlistarkennara sé mörg hundruð og að nemendahópurinn telji þúsundir.

Enn er vorhugur í framvarðarsveit tónlistarskólanna. Tónlistarlífið í landinu blómstrar sem aldrei fyrr og er bæði þróttmikið og fjölbreytilegt þrátt fyrir áskoranir þær sem Covid-19 hefur lagt á okkur. Við horfum bjartsýn til framtíðar og væntum mikils af nýrri löggjöf um tónlistarskóla. Löggjöf sem: styrkir undirstöður starfsins enn frekar, slær í takt við nýja tíma, viðurkennir mikilvægi tónlistarskólanna í menntun þjóðar og eflir hlutverk tónlistarskólanna í þágu samfélagsins, menntunar og menningar fyrir alla.

 Til hamingju með daginn!

Valgerður Jónsdóttir, skólastjóri Tónstofu Valgerðar

 

Breyting á frístundakerfi Reykjavíkurborgar.

Kæru forráðamenn.

Eins og nefnt var í upplýsingunum hér að neðan þá varð örlítil töf á innheimtu skólagjalda um þessi mánaðarmót (greiðsla 3 af 4) hjá þeim nemendum Tónstofunnar sem hafa rétt á að ráðstafa frístundakorti Reykjavíkurborgar (nemendur 6 – 18 ára).

Nú er skráningu/uppfærslu á kerfinu lokið og geta foreldrar nú ráðstafað frístundakortinu að vild. Það er gert með því að fara inn á  www.fristund.is

Þar er valið Frístundagátt ráðstöfun, og forráðamaður skráir sig inn með rafrænum skilríkjum. Ef fólk á í vandræðum með að ráðstafa getur það sent fyrirspurnir, ábendingar eða kvartanir á netfangið fristundakort@itr.is

Tónstofan skráir nemendahópinn sinn í Sérkennslu I, Sérkennslu II, Sérkennslu III eða Sérkennslu IV. Sjá upplýsingar á heimasíðu skólans https://tonstofan.is/gjaldskra

Velja þarf rétt þegar nemandi er skráður í kerfið þar sem skólagjöld eru breytileg eftir lengd tímasóknar. Ef spurningar vakna varðandi innheimtuna eða ef vafi leikur á hvernig nemandi er skráður, hvet ég ykkur til að hafa samband við undirritaða í tölvupósti tonsvj@mmedia.is eða í síma 8622040. Fyrirspurnum verður vísað áfram til verkefnastjóra á skrifstofu Íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkur ef nauðsyn krefur.

Ég vek athygli á því að innheimtuseðill hefur verið sendur í heimabanka forráðamanna. Það var gert til að minna fólk á að ráðstafa sem fyrst frístundastyrknum (standi það til). Innheimtuseðillinn verður felldur niður eða upphæð hans breytt í takt við ráðstöfun viðkomandi. Ég vona innilega að þessar breytingar hjá Reykjavíkurborg valdi hvorki forráðamönnum né skólanum óþarfa óþægindum.

Ég minni á að nemendur með lögheimili í Kópavogi og í öðrum sveitarfélögum geta einnig ráðstafað frístundastyrk sínum til Tónstofunnar.

Með kærri kveðju og góðum óskum,

Valgerður

 

Frá aðalfundi Foreldra- og styrktarfélags Tónstofunnar 2020

Foreldra- og styrktarfélag Tónstofunnar sem jafnframt gegnir hlutverki skólanefndar hélt aðalfund sinn mánudaginn 30. nóvember. Dagskrá fundarins tók mið af almennum lögum um fundarsköp. Rut Ríkey Tryggvadóttir formaður las greinargóða skýrslu stjórnar. Gunnhildur Gísladóttir gjaldkeri lagði fram reikninga félagsins og voru þeir samþykktir.

Anna Björg Halldórsdóttir og Sigurjón Högnason gáfu áfram kost á sér sem skoðunarmenn reikninga. Þökkum við þeim kærlega fyrir vel unnin störf á liðnum árum. Engin framboð bárust til setu í stjórn félagsins. Stjórnin gaf því öll kost á sér til áframhaldandi setu. Samkvæmt lögum félagsins er stjórn kosin til eins árs í senn. Undirrituð færir stjórninni innilegar þakkir fyrir trygglyndi, frábær störf, stuðning og velvild alla á liðnum árum.

Fundurinn ákvað að halda félagsgjöldunum óbreyttum, eða krónur 3.000. Þau innheimtast að vori en greiðslan er valfrjáls.

Á fundinum voru þakkir færðar fyrir styrki og gjafir sem borist höfði Tónstofunni frá síðasta aðalfundi.  Súsanna Ernst Friðriksdóttir gladdi Tónstofuna enn á ný með góðri gjöf um jól 2019, sem nýtt var til að fella niður skólagjöld vegna sérstakra aðstæðna hjá nemendum. Í júnímánuði barst Tónstofunni hjartfólgin gjöf frá Luigi Bartolozzi og Ragnheiði Sverrisdóttur, í minningu dóttur þeirra Alexiu Bartolozzi heitinnar, sem fæddist 8. júlí 1995 og lést 6. apríl 2010. Gjöfin voru hljóðfæri Alexiu en hún var nemandi hjá Jónu Þórsdóttur í Tónstofunni frá janúar 2006 fram að dánar dægri og hafði mikið yndi af tónlist. Hljóðfærin nýtast nemendum Tónstofunnar sem sækja tíma sína í Klettaskóla og Öskju þar sem Alexia var einnig nemandi.

Jafnframt þökkum við innilega fyrir stóla og borð sem bárust frá hjónunum Jóhönnu Andreu Jónsdóttur og Árna Tómasi Ragnarssyni. Mublurnar sóma sér vel í Tónstofunni og gera bið nemenda og forráðamanna þægilega.

Undirrituð hvetur nemendur og forráðamenn til að hafa samband vilji þeir gera athugasemdir við störf félagsins/skólanefndarinnar og einnig ef þeir luma á góðum hugmyndum varðandi starf og framtíð Tónstofunnar.   

Með kærri aðventukveðju,

Valgerður

Aðalfundur Foreldra- og styrktarfélags Tónstofu Valgerðar 2020

Góðan dag.

Aðalfundur Foreldra- og styrktarfélags Tónstofu Valgerðar verður haldinn mánudaginn 30. nóvember kl. 18:30 í Tónstofunni að Stórhöfða 23.

Dagskrá aðalfundarins tekur mið af almennum lögum um fundarsköp og er sem hér segir:
1. Kosning fundarstjóra og fundarsetning.
2. Skýrsla stjórnar. 
3. Reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.                                   
4. Ákvörðun félagsgjalda.
5. Kosning stjórnar.
6. Kosning skoðunarmanna reikninga. 
7. Fyrirspurnir og umræður.

Vegna fjöldatakmarkana í samkomubanni biður stjórn félagsins þá sem ætla að mæta á aðalfundinn um að senda tölvupóst á netfangið tonsvj@mmedia.is eigi síðar en fyrir klukkan 12, laugardaginn 28. nóvember. Foreldrafélagið starfar fyrir nemendur og foreldra Tónstofunnar. Fyrirspurnir og athugasemdir varðandi starfsemi, framgang og markmið Foreldra- og styrktarfélags Tónstofunnar, sem jafnframt gegnir hlutverki skólanefndar, má senda á netfangið tonsvj@mmedia.is

Á heimasíðu Tónstofunnar má finna lög félagsins, skólanámskrá Tónstofunnar og annað efni er tengist starfi Tónstofunnar á liðnum árum.  www.tonstofan.is.

 Með bréfi þessu vill núverandi stjórn kynna tilurð og starfsemi félagsins.

Foreldra- og styrktarfélag Tónstofu Valgerðar var stofnað haustið 2000. Meginmarkmið þess var að efla Tónstofuna og stuðla að því að hún yrði sjálfstæður tónlistarskóli sem nyti sömu fyrirgreiðslu og aðrir tónlistarskólar en þar sem nemendur sem þyrftu sérstakan stuðning hefðu forgang. Í því sambandi vísar félagið til laga um tónlistarskóla, Aðalnámskrá tónlistarskóla (almennur hluti, 2000) og laga um jafnrétti fatlaðra til náms. Staðreyndin er sú að í Tónstofunni hafa verið nemendur sem ekki hafa átt greiðan aðgang að tónlistarskólum landsins og nemendur sem vísað hefur verið frá námi þegar sýnt þótti að þeir uppfylltu ekki kröfur um námsárangur eða þegar einstakir kennarar gáfust upp af því að sérþekkinguna skorti.

Valgerður Jónsdóttir hefur unnið einstakt og ómetanlegt brautryðjandastarf á þeim árum sem liðin eru frá því Tónstofa hennar tók til starfa (1986). Þar hefur hún og frábærir samkennarar hennar annast kennslu nemenda með mjög mismunandi fatlanir og náð ótrúlegum árangri eins og allir geta borið vitni um sem hlýtt hafa á nemendatónleika Tónstofunnar. Nemendahópurinn er á öllum aldri og kemur úr Reykjavík og nágrannasveitarfélögunum. Námið er aðlagað þörfum og þroska hvers einstaklings. Þeir einstaklingar sem hér um ræðir eiga sér ekki volduga talsmenn. Því er brýnt að allir áhugamenn taki höndum saman og standi vörð um Tónstofu Valgerðar og þá starfsemi sem þar fer fram.

Félagsgjöld og styrktarfé sem félagið aflar hefur meðal annars verið nýtt til kaupa á hljóðfærum svo sem flygli, píanói, hljómborði og ásláttarhljóðfærum. Einnig styrkti félagið kaup á stólum í húsnæðið á Stórhöfða og kaup á myndavél sem nýtist á tónleikum og við kennslu. Félagsgjöld innheimtast að vori en greiðsla þeirra er valfrjáls.

Foreldrafélagið hefur einnig umsjón með Styrktar- og minningarsjóði Bjöllukórs Tónstofu Valgerðar sem stofnaður var í minningu Kára Þorleifssonar sem lést 16. mars 2011. Kári var einn af meðlimum Bjöllukórsins og nemandi Tónstofunnar til margra ára. Frumkvöðlar að stofnun sjóðsins voru foreldrar Kára, þau Þorleifur Hauksson og Guðný Bjarnadóttir. Sjóðurinn er í vörslu Foreldra- og styrktarfélags Tónstofunnar og aflar fjár með minningargjöfum. Markmið Styrktarsjóðsins er að styðja við og efla starfsemi Bjöllukórsins og Tónstofunnar. Minningarkort eru send í gegnum heimasíðu Tónstofunnar https://tonstofan.is/styrktarsjodur/

Foreldra- og styrktarfélag Tónstofu Valgerðar gegnir hlutverki skólanefndar.

Í henni sitja nú:
Rut Ríkey Tryggvadóttir, formaður
Gerður Steinþórsdóttir, varaformaður
Gunnhildur Gísladóttir, gjaldkeri
Ásthildur Gyða Torfadóttir, ritari
Jóhanna Andrea Jónsdóttir, meðstjórnandi
Ottó Leifsson, meðstjórnandi
Valgerður Jónsdóttir, meðstjórnandi og fulltrúi kennara

Leiðbeiningar vegna skólastarfs Tónstofunnar á neyðarstigi. Gildistími 7. til 19. október.

Kæru nemendur og forráðamenn.

Tónstofan fylgir fyrirmælum frá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar og reynir að halda óbreyttri starfsemi.

Til upplýsingar þá eru nýjar leiðbeiningar í vinnslu fyrir tónlistarskóla vegna skólastarfs á neyðarstigi en hægt er að fylgjast með breytingum á vef menntamálaráðuneytisins (mrn.is/skolastarf) „Spurt og svarað: skólastarf og COVID-19“, undir flipanum „Tónlistarskólar“.

Kennarar nota grímur með öllum nemendahópnum þar sem erfitt getur verið að halda viðunandi fjarlægð. Engir hóptímar með blönduðum nemendahópum eru leyfðir (Radd-leikur, Tón-leikur, Bjöllukór, föstudagshópur Jónu).

Tveggja metra reglan er viðhöfð á milli kennara og á milli kennara og forráðamanna sem fylgja börnum sínum.

Engir utanaðkomandi fá aðgang að Tónstofunni og sótthreinsun á hljóðfærum og yfirborðsflötum hefur verið aukin.

Munum að nemandi/kennari/aðstandandi sem finnur fyrir flensulíkum einkennum (hósta, andþyngslum, mæði, hálssærindum, hita, þreytu, höfuðverk, beinverkjum, uppköstum og niðurgangi, hroll og minnkuðu bragð- og lyktarskyni) hann heldur sig heima!

Gangi okkur öllum vel!

Kær kveðja, Valgerður

Upplýsingar í byrjun skólaárs

Kæru nemendur og forráðamenn.

Skólaárið hófst 21. ágúst með æfingum Bjöllukórsins, en fyrsti reglulegi kennsludagurinn var 25. ágúst. Í upphafi skólaársins eru 122 nemendur skráðir í skólann og eftirvæntingarfullur hljómur þeirra streymir nú úr hverju horni. Stundatöflurnar eru enn á örlítilli hreyfingu sem er eðlilegt á meðan forráðamenn og kennarar eru að skipuleggja og samræma oft flókna dagskrá nemendahópsins.

Nokkrar breytingar hafa orðið á starfsliði Tónstofunnar á milli ára og kveðjum við nú Ásrúnu I. Kondrup sem var í 37% kennarastöðu og Kirstínu Ernu Blöndal sem var í 25% kennarastöðu. Mikil eftirsjá er að starfskröftum þeirra. Við þökkum þeim innilega fyrir ljúfa nærveru og frábær störf á liðnum árum og óskum þeim velfarnaðar í lífi og starfi.

Við erum svo lánsöm að njóta starfskrafta Mínervu M. Haraldsdóttur sem kenndi nemendum Marie Huby er kemur nú til baka eftir árs barneignarleyfi. Mínerva tekur við nemendum Ásrúnar. Ari Agnarsson er kominn úr veikindaleyfi og verða kennarar Tónstofunnar því fimm í vetur.

Búið er að skrá nemendahópinn í frístundakerfi Reykjavíkurborgar og Kópavogs og geta nemendur/forráðamenn nú ráðstafað styrknum til Tónstofunnar óski þeir þess.

Skólagjöld Tónstofunnar hafa hækkað lítillega á milli ára og er það vegna útgjaldaliða að kröfu Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar sem og hækkunar húsaleigu sem ekki verður mætt með öðrum hætti.

Sóttvarnir í Tónstofunni.

  • Mikilvægt er að kennarar, nemendur og forráðamenn mæti ekki í Tónstofuna ef þeir finna fyrir einkennum sem gætu stafað af COVID-19 (einkennin geta líkst venjulegri flensu).

  • Kennarar og nemendur fylgja fyrirmælum frá Skóla- og frístundasviði varðandi sóttvarnir og hafa sýnt sérstaka aðgát til að koma í veg fyrir röskun á skólastarfi.

  • Að höfðu samráði við fræðslustjóra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu er lagt til að farið sé varlega í breytingar og að 2ja metra nálægðartakmörk séu virt fyrir aðila sem ekki tengjast skólanum. Jafnframt gildir eftirfarandi:

  • Eins metra regla er viðhöfð.

  • Nemendur, kennarar og forráðamenn eru hvattir til að þvo sér og nota handspritt við komu í skólann og einnig áður en þeir fara. Óski nemandi eftir því að nota grímu í kennslustund er hann hvattur til að koma með sína eigin en getur þó fengið grímu í Tónstofunni.

  • Tónstofan fylgir sérstökum leiðbeiningum um þrif í skólum. Fyllsta hreinlætis er gætt og borð, stólar, hljóðfæri og önnur tæki sem notuð eru við kennslu eru sótthreinsuð á milli nemanda. Aðrir yfirborðsfletir svo sem hurðarhúnar eru sótthreinsaðir daglega.

  • Tónlistarkennarar sem fara á milli skóla huga vel að persónubundnum sóttvarnaráðstöfunum og nálægðartakmörkunum. Þeir nýti sem minnst sameiginleg rými í mismunandi skólum t.d. salerni og kaffistofur.

  • Aðgengi utanaðkomandi aðila sem ekki tengjast skólasamfélaginu skal vera sem minnst.

  • Utanaðkomandi aðilar virði alltaf minnst 2ja metra regluna við alla í skólanum bæði starfsfólk og nemendur auk persónubundna sóttvarna.

  • Starfsemi sem ekki tengist skólanum er ekki leyfð til og með 20. september t.d. kórastarf fullorðinna og hópfundir með foreldrum.

  • Skólastjórnendur haldi áfram að takmarka blöndun starfsfólks t.d. á milli húsa og starfseininga eins og kostur er.

  • Staðan verður endurmetin í samráði við fræðslustjóra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fyrir sunnudaginn 20. september n.k.

Forráðamenn og nemendur eru hvattir til að hafa samband við undirritaða í síma 8622040 eða í tölvupósti tonsvj@mmedia.is vakni spurningar um fyrirkomulag námsins eða annað er snertir hag nemenda/forráðamanna.

Með kærri kveðju,

Valgerður

Upphaf skólaársins 2020-2021

Kæru nemendur, nýir umsækjendur og forráðamenn.

Undirbúningur fyrir vetrarstarfið er hafinn og kennarar setja saman stundatöflurnar í vikunni. Ef vel gengur hefst kennsla þriðjudaginn 25. ágúst. Við bendum ykkur á að hægt er að senda kennurum tölvupóst með upplýsingum um þær tímasetningar sem henta ykkur best. Reynt verður að koma til móts við óskir eins vel og kostur er.

Við vonum að þið hafið notið sumars og séuð spennt fyrir ljúfum leik á komandi vetri. Í ljósi Covid má búast við óvæntum áskorunum af ýmsu tagi. Við munum takast á við þær í sameiningu og af umburðarlyndi og fylgja reglum frá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar út í æsar.

Með kærri kveðju og tilhlökkun!

Skólalok 29. maí.

Kæru nemendur og forráðamenn.

Síðasti reglubundni kennsludagurinn og eiginleg skólaslit á þessu skólaári er föstudagurinn 29. maí.
Allt formlegt tónleikahald fellur niður að þessu sinni því miður!
Nú þurfa allir sem ætla að halda námi sínu áfram næsta skólaár að vera búnir að:
1. tilkynna það kennurum sínum.
2. sækja um skólavist í Tónstofunni á vefnum Rafræn Reykjavík (það er hægt að fá aðstoð við það).
3. Nemendur með lögheimili utan Reykjavíkur þurfa einnig að vera búnir að sækja um hjá lögheimilissveitarfélagi sínu (vegna náms utan lögheimilissveitarfélags). Mjög mikilvægt!

Við þökkum nemendahópnum og forráðamönnum þeirra kærlega fyrir umburðarlyndi og skilning á þessum erfiðu tímum. Einnig viljum við þakka foreldrum fyrir hjálpsemi þeirra og nærveru við fjarkennsluna sem var lærdómsrík fyrir alla sem tóku þátt í henni.

Kæru nemendur og forráðamenn við óskum ykkur gleðilegs og gæfuríks sumars og hlökkum til að sjá ykkur næsta haust full af sólskinsorku og leikgleði.

Kærleikskveðja og knús.

Tilkynning frá Foreldra- og styrktarfélagi Tónstofunnar

Frá stjórn Foreldra- og styrktarfélags Tónstofu Valgerðar.

Eni:  Kynning á Foreldra- og styrktarfélagi Tónstofunnar vegna innheimtu félagsgjalda.

Foreldra- og styrktarfélag Tónstofu Valgerðar var stofnað haustið 2000. Meginmarkmið þess var að efla Tónstofuna og stuðla að því að hún yrði sjálfstæður tónlistarskóli sem nyti sömu fyrirgreiðslu og aðrir tónlistarskólar en þar sem einstaklingar sem þyrftu sérstakan stuðning í námi hefðu forgang. Í því sambandi vísar félagið til laga um tónlistarskóla, Aðalnámskrá tónlistarskóla (almennur hluti, 2000) og laga um jafnrétti fatlaðra til náms. Staðreyndin er sú að í Tónstofunni hafa verið nemendur sem ekki hafa átt greiðan aðgang að tónlistarskólum landsins og nemendur sem vísað hefur verið frá námi þegar sýnt þótti að þeir uppfylltu ekki kröfur um námsárangur eða þegar einstakir kennarar gáfust upp af því að sérþekkinguna skorti.

Valgerður Jónsdóttir hefur unnið einstakt og ómetanlegt brautryðjandastarf á þeim árum sem liðin eru frá því Tónstofa hennar tók til starfa (1986). Þar hefur hún og frábærir samkennarar sem komu til starfa árið 2005 annast kennslu nemenda með mjög mismunandi fatlanir og náð ótrúlegum árangri eins og allir geta borið vitni um sem hlýtt hafa á nemendatónleika Tónstofunnar. Nemendahópurinn er á öllum aldri og kemur úr Reykjavík og nágrannasveitarfélögunum. Námið er aðlagað þörfum og þroska hvers einstaklings. Þeir einstaklingar sem hér um ræðir eiga sér ekki volduga talsmenn. Því er brýnt að allir áhugamenn taki höndum saman og standi vörð um Tónstofu Valgerðar og þá starfsemi sem þar fer fram.

Auk þess að standa vörð um starfsemina og vinna að því að efla hana hefur Foreldra- og styrktarfélagið sótt styrki til fyrirtækja, sem ásamt félagsgjöldum hafa meðal annars verið nýttir til kaupa á hljóðfærum svo sem flygli, píanói, hljómborði og ásláttarhljóðfærum. Einnig styrkti félagið kaup á stólum í nýja húsnæðið uppi á Stórhöfða og kaup á myndavél sem nýtist á tónleikum og við kennslu. Foreldrafélagið hefur einnig umsjón með Styrktarsjóði Bjöllukórs Tónstofu Valgerðar sem stofnaður var í minningu Kára Þorleifssonar sem lést 16. mars 2011 en Kári var einn af meðlimum Bjöllukórsins og nemandi Tónstofunnar. Markmið sjóðsins er að efla starfsemi Bjöllukórsins. Frekari upplýsingar um Tónstofuna má finna á heimasíðu skólans.

Foreldrafélagið hvetur nemendur og aðstandendur til að styðja starf félagsins með greiðslu félagsgjalda en áréttar a greiðslan er valfrjáls. Foreldra- og styrktarfélag Tónstofu Valgerðar gegnir hlutverki skólanefndar.  Í henni sitja:

Rut Ríkey Tryggvadóttir, formaður

Gerður Steinþórsdóttir, varaformaður

Gunnhildur Gísladóttir, gjaldkeri

Ásthildur Gyða Torfadóttir, ritari

Jóhanna Andrea Jónsdóttir, meðstjórnandi

Ottó Leifsson, meðstjórnandi

Valgerður Jónsdóttir, fulltrúi kennara

 

Upplýsingar um skólahald frá og með 4. maí.

Upplýsingar um skólahald frá og með 4. maí.

Kæru nemendur og forráðamenn.

Takmarkanir á skólahaldi falla úr gildi frá og með mánudeginum 4. maí.

  • Þá verður skólastarf barna á leik- og grunnskólaaldri með hefðbundnum hætti og hvorki fjölda- né nálægðartakmörk munu gilda. Nám þessara barna í tónlistarskólum verður því með eðlilegum hætti.

  • Tónlistarskólakennarar mega fara inn í grunnskólana og í frístundaheimilin til að kenna.

  • Takmarka þarf aðgengi foreldra/utanaðkomandi að skólahúsnæðinu eins og kostur er.

  • Takmarka þarf skörun hópa eða blöndun hópa úr ólíkum samfélagshópum eins og kostur er.

  • Nemendur frá 16 ára aldri mega á ný mæta í sínar skólabyggingar. Þeir geta því einnig mætt í tónlistarskólana en huga þarf vel að 2ja metra fjarlægðinni.

  • Kennarar, nemendur og forráðamenn þurfa að vega og meta hvort taka eigi áhættu ef kennsluhættir og annað kemur í veg fyrir að hægt sé að halda 2ja metra regluna hjá þeim sem orðnir eru 16 ára. Kennarar munu nota hlífðarbúnað (hanska og andlitshlífar) ef þurfa þykir með þessum nemendum.

  • Kennsla sem fer fram í hóptímum, (s.s. forskóli, tónfræðagreinar, fámennir hópar, 2-12) er heimil. Athuga ber 2ja metra regluna með nemendum 16 ára og eldri.

  • Samleikur/-söngur, samspil í fámennum hópum er heimill en athuga ber 2ja metra reglu með nemendum 16 ára og eldri.

  • Hljómsveitaræfingar (frá fámennum hópum til stærri hljómsveita) eru heimilar en 2ja metra reglan gildir hjá 16 ára og eldri.

  • Fjöldatakmarkanir í kennsluhúsnæði verða í gildi og mega aðeins 50 einstaklingar vera í sama rými í þeim skólum sem kennsla fer fram í.

  • Vortónleikar með hefðbundnu sniði og þátttöku/viðveru foreldra munu falla niður þar sem ekki verður hægt að viðhafa fjarlægðarregluna.

  • Smærri tónfundir með nemendahóp hvers kennara fyrir sig og án foreldra eru heimilir.

  • Huga ber vel að sóttvörnum líkt og áður með góðum handþvotti nemenda og kennara fyrir og eftir kennslustund sem og yfirborðsþrifum á snertiflötum og hljóðfærum.

  • Áfram verða sóttvarnarráðstafanir í skólum, sem og annars staðar, og skólar fylgja viðbragðsáætlunum sínum varðandi mögulegt smit. Neyðarstig almannavarna vegna COVID-19 er áfram í gildi.

Undirrituð þakkar nemendum og forráðamönnum kærlega fyrir umburðarlyndi á þessum erfiðu tímum og aðstoð við fjarkennslu í þeim tilvikum þar sem það hefur verið mögulegt. Ef spurningar vakna vinsamlegast hafið samband í síma 8622040.

Kær kveðja, Valgerður

 

 

Páskafrí og fjarkennsla!

Kæru nemendur og forráðamenn.
Samkvæmt skóladagatali er páskafrí í dymbilvikunni sem hefst á pálmasunnudegi 5. apríl. Fjarkennsla hefst aftur þriðjudaginn 14. apríl.

Við hvetjum forráðamenn nemenda sem ekki geta nýtt sér fjarkennslu til að syngja með börnum sínum, hlusta á tónlist, dansa, fara í klappleiki/hreyfileiki, leika af fingrum fram, skoða tónlistarforrit og fleira. Við minnum á aðgengilegt tónlistarefni sem finna má á heimasíðu Tónstofunar undir krækjunni Fræðsla: Áhugaverðir tenglar  https://tonstofan.is/ahugaverdir-tenglar

Kennarar munu hafa samband við nemendahópa sína um leið og staðan breytist og hægt verður að hefja nándarkennslu á ný í Tónstofunni.

Með von um að allir séu við góða heilsu óska ég ykkur gleðilegra páska!

Valgerður

Umsókn um skólavist skólaárið 2020-2021

Umsókn um skólavist 2020-2021

Kæru nemendur og forráðamenn.

Undirbúningur fyrir skólaárið 2020-2021 er hafinn. Nauðsynlegt er að endurnýja umsókn árlega bæði í tónlistarskólanum sjálfum og hjá lögheimilissveitarfélagi nemandans.

Vakin er athygli á því að ef tónlistarskóli nemanda er utan lögheimilissveitarfélags, þarf staðfest samþykki lögheimilissveitarfélags að liggja fyrir áður en nemandi hefur eða heldur áfram námi í tónlistarskólanum. Því er brýnt að þeir sem ætla sér að halda áfram námi í Tónstofunni veturinn 2020-2021 láti skólann vita og sendi inn beiðni til lögheimilissveitarfélags þar að lútandi eins fljótt og mögulegt er (fyrir 15. apríl).

Sum sveitarfélög hafa þar til gert eyðublað/beiðni á heimasíðu sinni (nám í tónlistarskóla utan lögheimilissveitarfélags), sem nauðsynlegt er að fylla út og skila á viðkomandi skólaskrifstofu. Hægt er að nálgast umsóknareyðublað frá Tónstofunni (sjá tengilinn Innritun á heimasíðu) sem forráðamenn eru beðnir um að fylla út og skila til Tónstofunnar og lögheimilissveitarfélags (ef ekki er um annað eyðublað að ræða á skólaskrifstofunum).

Umsókn um skólavist fyrir næsta vetur er hvorki bindandi af hálfu umsækjanda né af hálfu skólans. Aðstæður nemenda sem og skólans breytast frá ári til árs, en á hverjum tíma er reynt að koma til móts við eins marga umsækjendur og mögulegt er.

Ef spurningar vakna vinsamlegast hafið samband við skólastjóra Tónstofunnar í síma 8622040 eða á netfanginu tonsvj@mmedia.is 
Sjá tónlistarnám í Reykjavík - http://reykjavik.is/thjonusta/tonlistarnam-i-reykjavik

Electronic applications for enrollment in Music schools in Reykjavik for the school year 2020-2021 have begun. Enrolled students need also to renew their applications for next school year. Electronic application can be accessed through Reykjavík - www.rafraen.reykjavik.is 
The school's secretary can also assist parents in their application process.

Students who live outside Reykjavík (suburbs) must also contact their local school administration offices and apply for support due to "nám utan lögheimilissveitarfélag". 
If questions arise please contact Valgerður 
Phone: 8622040
tonsvj@mmedia.is

Kær kveðja,

Valgerður Jónsdóttir

 

Vegna innheimtu skólagjalda!

Vegna innheimtu skólagjalda.

Kæru nemendur og forráðamenn.

Þrátt fyrir óvissu um framvindu skólahaldsins var tekin sú ákvörðun að innheimta skólagjalda yrði með hefðbundnum hætti. Tónstofunni var ekki lokað fyrr en 24. mars. Hluti nemendahópsins fór þá í fjarkennslu og nokkrir fengu verkefni til að spreyta sig á. Kennarar skrá þá tíma sem falla niður og reynt verður að bæta upp tapaðar kennslustundir með öllum tiltækum ráðum, jafnvel á haustdögum haldi nemandinn áfram næsta skólaár. Hugsanlegt er að einnig verði hægt að koma til móts við greiðsluerfiðleika fólks með öðrum hætti. Ef þið hafið fyrirspurnir eða viljið koma á framfæri athugasemdum þá vinsamlegast beinið þeim til Valgerðar í síma 8622040 eða á netfangið tonsvj@mmedia.is  

Gangi ykkur öllum vel

Kærleikskveðja, Valgerður

Hefðbundin kennsla fellur niður í Tónstofunni!

Kæru nemendur og forráðamenn athugið!

Hefðbundin kennsla fellur niður í Tónstofunni frá og með þriðjudeginum 24. mars og þar til takmörkunum þessum verður létt!

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið, í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis, að takmarka samkomur enn frekar en áður vegna hraðari útbreiðslu Covid-19 í samfélaginu.
• Hvar sem fólk kemur saman og í allri starfsemi skal tryggt að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga. Starfsemi og þjónusta sem krefst mikillar nálægðar milli fólks eða skapar hættu á of mikilli nálægð er óheimil. Þetta á einnig við um starf þar sem notkun á sameiginlegum búnaði getur haft smithættu í för með sér.
• Þá er mælst til þess að kennarar sem kenna við fleiri en eina tónlistarkennslustofnun fari undir engum kringumstæðum á milli stofnana, velji þá einn skóla sem heimastöð ef ekki er hægt að stunda fjarnám.
• Þar sem kennsla nemendahóps Tónstofunnar krefst mikillar nálægðar og þar sem kennarar Tónstofunnar (utan Valgerðar) kenna allir við aðrar stofnanir/tónlistarkennslustofnanir í hærra starfshlutfalli en í Tónstofunni verður kennslu ekki lengur haldið til streitu í Tónstofunni.
• Hvatt er eindregið til fjarnáms á sviði tónlistarkennslu þar sem því verður við komið.
• Taka þarf tillit til sérstöðu nemendahóps Tónstofunnar, en á meðan þetta ástand varir munu kennarar Tónstofunnar í samráði við nemendur og forráðamenn sem þess óska leggja sig fram um að sinna fjarkennslu eins og mögulegt er.

Ákvörðunin tekur gildi aðfaranótt þriðjudags 24. mars.

Stöðuuppfærsla vegna COVID-19

Kæru nemendur og forráðamenn!

Starfið í Tónstofunni heldur áfram á meðan við erum hvött til þess af skólayfirvöldum. Það tekur hins vegar breytingum frá degi til dags og nú er Jóna Þórsdóttir komin í sóttkví þar sem stór hluti nemendahóps hennar eru jafnframt nemendur Klettaskóla. Jóna hefur samband við sína nemendur vegna þessa. Allir þeir sem starfa innan veggja Klettaskóla hafa nú farið í sóttkví.

Ég vek athygli á því að fleiri kennarar Tónstofunnar kenna nemendum sem sækja Klettaskóla en þar til við finnum fyrir einkennum er okkur sagt að það sé í lagi að halda áfram þar sem kennslan hafi ekki farið fram innan veggja Klettaskóla.

Nemendur sem koma frá Ás-styrktarfélagi hafa ekki mætt í skólann frá 4. mars og margir forráðamenn hafa af skynsamlegum varúðarráðstöfunum kosið að halda viðkvæmum börnum sínum heima. Margir forstöðumenn sambýla hafa einnig tekið þá ákvörðun að halda skjólstæðingum sínum heima. Það er því fremur hljóðlátt í Tónstofunni þessa daga.

Starfið í Tónstofunni er þess eðlis að ekki er mögulegt að halda þeirri fjarlægð sem mælt er með og þó við gerum okkar ítrasta til að sótthreinsa á milli nemenda þá er ekki hægt að meta hversu vel tekst til í þeim efnum!

Fyrir þau ykkar sem haldið börnum ykkar heima er hér skemmtilegur vefur með mörgum barnalögum og hugmyndum að tónlistar-, dans- og hreyfiverkefnum með leikskólabörnum en sem vel má nýta með eldri nemendum. Einnig eru á vefnum sögur með viðlögum, ævintýri og þjóðsögur, svo og þjóðlög frá ýmsum löndum.

https://www.bornogtonlist.net/#tophome

Gangi ykkur vel og kær kveðja,

Valgerður

Tónlistarkennsla innan veggja grunnskólanna fellur niður!

Kæru nemendur og forráðamenn!

Samkvæmt upplýsingum frá Skóla- og frístundasviði er tónlistarkennsla ekki lengur leyfileg innan veggja grunnskólanna. Öll tónlistarkennsla þarf að fara fram í húsnæði eða heimastöð tónlistarskólanna sjálfra. Þetta þýðir að Jóna Þórsdóttir má ekki lengur kenna nemendum sínum á skóla eða frístundatíma í Klettaskóla/Öskju og kennsla Mínervu M. Haraldsdóttur í Háaleitisskóla fellur einnig niður.

Tónlistartímar í grunnskólum brjóta gegn því sem nú er uppálagt í sóttvörnum og litið er svo á að það sé áhætta að kennari taki nemendur frá mismunandi bekkjum í tíma. Þó viss mótsögn felist í því að mati undirritaðrar að bjóða sama nemendahóp (sama mengi kennara/nemenda) upp á nýja tímasetningu og nýja staðsetningu fyrir tónlistarnám sitt er okkur uppálagt að koma til móts við þennan nemendahóp eftir fremsta megni og reyna allt sem hægt er til að tónlistarnám þeirra haldi áfram með einhverjum hætti. Því mun Jóna og Mínerva hafa samband við þá nemendur sem um ræðir og bjóða þeim upp á nýja tíma í húsnæði Tónstofunnar að Stórhöfða 23, 110 Reykjavík.

Foreldrar munið að öryggi og hagsmunir hins viðkvæma nemendahóps Tónstofunnar er ávallt í fyrirrúmi og verður að ráða för í öllu skipulagi!

Kær kveðja, Valgerður

Áríðandi tilkynning!

Kæru nemendur og forráðamenn.

Á miðnætti í kvöld taka gildi takmarkanir á skólastarfi í samræmi við auglýsingu heilbrigðisráðerra. Leik- og grunnskólar sem og tónlistarskólar munu starfa áfram með einhverjum takmörkunum.Tónstofan vekur athygli á eftirfarandi:

  1. Öryggi og heilsa nemenda og starfsfólks er fyrir öllu. Viðkvæma hópa þarf að verja sérstaklega og tryggja að umsvifalaust sé brugðist við öllum mikilvægum upplýsingum sem þetta varðar.

  2. Á meðan tónlistarskólarnir/grunnskólarnir starfa er það ákvörðun forráðamanna/nemandanna sjálfra hvort þeir kjósi að taka hlé frá námi um óákveðinn tíma til að tryggja öryggi sitt og barna sinna. Öruggast er auðvitað að halda börnunum heima ef hægt er. Vinsamlegast hafið samband við skólastjóra/kennara hið fyrsta sé tekin ákvörðun um slíkt.

  3. Ef flensulíkra einkenna verður vart (þó svo minniháttar séu) hjá nemanda, forráðamanni eða öðrum fjölskyldumeðlim ber að halda nemandanum heima.

  4. Ef nemandi eða forráðamaður hefur verið í samskiptum við einstakling sem settur hefur verið í sóttkví skal samstundis láta vita af því og halda nemandanum heima.

  5. Dragið úr smithættu með því að þvo vel hendur barna ykkar og ykkar sjálfra og sótthreinsa við komu í skólann.

  6. Sótthreinsun er í eins góðu lagi og mögulegt er að hafa hana í skóla sem kennir á hljóðfæri. Yfirborðsfletir eru þrifnir/sótthreinsaðir svo og hljóðfæri eins og mögulegt er. Hljóðnemar og blásturshljóðfæri verða ekki notuð í skólanum á meðan þetta ástand varir nema nemandinn komi með sín eigin blásturshljóðfæri/hljóðnema.

  7. Nálægð á milli fólks í hljóðfærakennslu/námi er mikil og því verður ekki hægt að halda umbeðinni fjarlægð til að takmarka möguleika á smiti.

  8. Foreldrar eru beðnir um að fara að þeim tilmælum sem koma frá skólayfirvöldum og skólastjórnendum um skólahald á hverjum tíma.

Gangi okkur öllum vel og kær kveðja,
Valgerður